Saga - 2006, Page 243
veikum grunni. Hið sanna í málinu er að meirihluti Alþingis ætlaði að hafa
valdalítinn þjóðkjörinn forseta en þjóðin knúði þingið til að skipta um
skoðun og gera tillögu um þjóðkjörinn og valdamikinn forseta (sbr. Svanur
Kristjánsson, „Stofnun lýðveldis – Nýsköpun lýðræðis“, Skírnir 176, vor
2002, bls. 7–45). Höfundur vísar í blaðagrein sem heimild um mikið „af-
skiptaleysi hins danska konungs“ af stjórnarmyndunum á Heimastjórnar-
árunum 1904–1918 (bls. 27). Þessi fullyrðing sýnist mér fjarri öllu lagi. Kon-
ungur var á kafi í íslenskum stjórnmálum. Hannes Hafstein og ráðherrar
sem hann studdi (Kristján Jónsson og Einar Arnórsson) voru í náðinni hjá
konungi en hinir ekki (Björn Jónsson og Sigurður Eggerz (sbr. t.d. Helgi
Skúli Kjartansson, Ísland á 20. öld, einkum bls. 69–70)).
Fræðimenn sem ganga út frá þingræðiskenningunni beina eðlilega
sjónum fyrst og síðast að stjórnmálaflokkum og forystumönnum þeirra.
Samkvæmt kenningunni er valdsmenn eingöngu að finna á Alþingi og í
ráðherraembættum. Bók Guðna er skólabókardæmi um það hvernig kunn-
áttusamur og vandaður fræðimaður sprengir af sér þann ramma sem hann
í upphafi setur sér. Reyndar er mikil samsvörun á milli þroskaferils bókar-
höfundar í þessu verki og ferlis Kristjáns Eldjárns sem forseta. Báðir byrja
á því að setja forsetaembættinu þröngar skorður; forsetinn eigi að halda sig
til hlés, sitja sem virðingarmaður og sameiningartákn á Bessastöðum á
meðan flokksforingjar stjórna landinu, enda hafi þeir hlotið til þess lýðræð-
islegt umboð frá þjóðinni í kosningum. Inn í þessa draumsýn ryðst síðan
veruleiki íslenskra stjórnmála, hrár og lifandi. Íslensk stjórnmál eru að
miklu leyti persónustjórnmál þar sem vígamenn eigast við innan flokka
sem utan. Þetta er nær eingöngu karlaheimur — í forsetatíð Kristjáns Eld-
járns sátu alls 34 karlar í ráðherraembættum og aðeins Auður Auðuns náði
að forða málinu frá algjöru kvenmannsleysi er hún var dómsmálaráðherra
1970–1971. Fátt virðist um vináttu manna í millum eða tryggð við stefnu-
mál og hugsjónir.
Fræðimaðurinn Kristján Eldjárn varð forseti og komst fljótt að því að
skyldur forseta sem þjóðarleiðtoga voru aðrar en hann hafði kannski gert
sér í hugarlund. Hann hafnaði því að Alþingi hefði forræði í stjórnskipun
landsins er hann samþykkti beiðni forsætisráðherra um þingrof árið 1974,
sendi þingið heim og kom þannig í veg fyrir að meirihluti Alþingis sam-
þykkti vantraust á ríkisstjórnina (bls. 85–107). Haustið 1979 og um áramót-
in 1979/80 undirbjó forsetinn utanþingsstjórn. Í bæði skiptin var forsætis-
ráðherraefnið Jóhannes Nordal, vinur forsetans og ráðgjafi.
Þessa sögu segir höfundur þannig að úr verður fræðandi skemmtilest-
ur, að minnsta kosti fyrir alla sem áhuga hafa á sögu landsins og stjórnskip-
un lýðveldisins. Guðni hafði að sönnu aðgang að ómetanlegum heimildum
þar sem dagbækur Kristjáns Eldjárns eru, en forsetinn skráði nákvæmlega
samtöl sín og hugleiðingar í stjórnarkreppum. Höfundur endursegir samt
ekki dagbækur Kristjáns heldur semur sjálfstætt og efnismikið fræðiverk
R I T D Ó M A R 243
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 243