Skírnir - 01.09.2002, Blaðsíða 135
SKÍRNIR [þ]ANNIG YRÐI MER OG LIST MINNI ...
357
árum fyrr og hefði það verið eðlilegt) eða að eg mundi taka við stöðunni
til þess að forðast hungrið og þannig yrði mér og list minni komið fyrir
kattarnef, því að þá mundu allar leiðir lokast fyrir list mína og störf hér
erlendis og íslendingar mundu missa allan snefil af trausti til listamanns,
sem segði skilið við list sína og ynni að ólistrænum störfum langt fyrir
neðan Pál hinn „mikla listamann". Eg vil hvorugt gera.18
Jón grunaði Pál um að hafa lagt gildru fyrir sig. Hann leit svo á að
hvernig sem hann svaraði boði um framsagnarstarf hjá útvarpinu
yrði það honum álitshnekkir. Neitun færði sönnur á umtalaðan
hroka hans en með samþykki væri hann að láta auðmýkja sig. Auk
þess sakaði Jón Pál um að hafa fengið stöðu skólastjóra við nystofn-
aðan Tónlistarskóla sem kaup kaups. Viku síðar tjáir hann sig enn
um þularstarfið við útvarpið við móður sína í bréfi. Staða þessi virð-
ist hafa valdið Jóni töluverðu hugarangri. Tæki hann við stöðunni
peninganna vegna - sem væri eina haldbæra ástæðan til þess að gera
svo - yrði það honum til minnkunar alla ævi. En tæki hann ekki við
stöðunni vanrækti hann skyldu sína við börn sín og framtíð þeirra.
„Eg mun þrátt fyrir alt reyna að vera eins lipur í samningum og eg
sé mér fært, ef það sýnir sig að menn vilja eitthvað til þess vinna að
fá mig að útvarpinu,“ fullyrðir hann. „Eg held samt að ekki búi
hreint að baki því, að minsta kosti hjá sumum þeim mönnum, sem
við það eru riðnir," segir Jón í bréfinu til móður sinnar:
Eg hefi lengi ekki trúað því, sem bæði þú og Annie hafa fundið, að Páll
ísólfsson væri óhreinn í minn garð, en eg efast nú ekki lengur um það. ...
Páll hefir prédikað það leynt og ljóst, að eg væri eiginlega enginn musik-
er, heldur langtum frekar eitthvað annað, af því að eg get unnið ýmisleg
önnur störf, sem Páll getur ekki unnið og langar hann því mjög til að geta
skrifað greinar, haldið ræður o.s.frv. Ef eg yrði nú þulur við útvarpið,
mundi hann að eins nota það til að sanna sitt mál og segja: „Þetta getur
hann gert, en í musik er hann ómögulegur!“ o.s.frv. Hann mundi gera alt
til þess að halda mér niðri, enda gæti eg lítið gagn gert listinni við útvarp-
ið nú, eins og ástæður eru.19
18 Lbs.-Hbs. [án númers] Gögn Jóns Leifs. Jón Leifs til Ragnheiðar Bjarnadóttur,
19. nóvember 1930.
19 Lbs.—Hbs. [án númers] Gögn Jóns Leifs. Jón Leifs til Ragnheiðar Bjarnadóttur,
26. nóvember 1930.