Skírnir - 01.09.2002, Blaðsíða 228
450
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR
SKÍRNIR
í verkum Sjóns er höfundurinn ekki heldur einn, heldur margur, því
hann fer beinlínis hamförum í þeim. Höfundurinn heimtar að lesandinn
sjái hann fyrir sér í upphafi ljóðabókarinnar Eg man ekki eitthvað um
skýin (1991); hann stígur upp úr hafinu með fjögur skrýmslaegg í Stálnótt
(1987) og nefnist þá Johnny Triumph og í Engli pípuhatti og jarðarberi
(1989) minnir útlitslýsingin á Skugganum ekki lítið á aðrar sjálfslýsingar
Sjóns.26 Þannig grunar lesandann að í leirbúk hins gólemska sögumanns
Augu þín sáu mig leynist enn ein (í)mynd höfundarins sjálfs, og þetta
staðfestist í Með titrandi tár, því þá vill svo til að fæðingardag gólemsins
ber upp á fæðingardag höfundarins, 26. ágúst 1962.27 Vangaveltur um
tengsl skapara, skáldsögu og skapnaðar eru leiðarminni í báðum skáld-
sögum Sjóns um góleminn, enda eru þær, eins og áður sagði, byggðar upp
á sköpunarsögum og stefjum við sköpunarsögur, sem mynda síðan sjálfa
sköpunarsögu gólembarnsins. Brian McHale hefur bent á að þrátt fyrir að
póstmódernískir höfundar séu sér fyllilega meðvitaðir um að „höfundur-
inn“ sé dauður, þá leggi þeir mikla áherslu á nærveru höfundar í textan-
um - þessi nærvera er ekki stöðug, heldur flöktir höfundurinn inn og út
um textann.28 Með þessu er verið að gefa til kynna að höfundurinn sé
ekki einhver alltumlykjandi alvitur andi, heldur sé hann einfaldlega skrif-
aður inn í söguna ásamt öðru sagnagóssi, og því órjúfanlegur hluti henn-
ar. En hvað gerist þegar þessi söguhöfundur fellur saman við sjálfan höf-
undinn, manninn sem áritar bókina og fer í viðtöl og gengur um götur
bæjarins? Og við verðum að muna að þessi höfundur er ekki aðeins að
skrifa skáldsögu heldur einnig að skapa mann, og sá maður er hann sjálf-
ur, höfundur skáldsögunnar.
IV
Vissulega heitir leirbarnið ekki Sigurjón B. Sigurðsson, heldur Jósef
Löwe, eða Jónsson, eða Abrahamsson, en fjöldi nafnanna gefur þó ein-
mitt til kynna að nöfn manna séu tilviljunum háð, og alls ekki endanleg.29
höfuð öðlast sjálfsverund. Skrýmslið lærir að tala og lesa af fátækri aðalsfjöl-
skyldu (sem veit ekki af kennarahlutverki sínu) og er að auki mjög mótað af því
lesefni sem það nælir sér í. Þannig er höfundarhlutverk Frankensteins ekki eins
einskorðað og það virðist í fyrstu.
26 Sjá áðurnefnda yfirlitsgrein mína um höfundarverk Sjóns (Ulfhildur Dagsdótt-
ir 2001a).
27 Þess má geta að sama dag reis Johnny Triumph einmitt úr hafi í Stálnótt.
28 Sjá McHale 2002. McHale er mjög upptekinn af vangaveltum um dauða og
verufræði í bók sinni, og umræðan um ‘dauða höfundarins’ einkennist nokkuð
af því, en ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær pælingar hér.
29 Sbr. leik Sjóns með eigið höfundarnafn, Johnny Triumph, sem einnig hefur
komið fram sem söngvari með Sykurmolunum og birtist því sem eins konar
alter ego höfundarins, eða jafnvel sem annar höfundur.