Skírnir - 01.09.2002, Blaðsíða 138
360
SIF SIGMARSDÓTTIR
SKÍRNIR
Að verða alheiminum að gagni
Þó að Jón Leifs hafi íhugað það í fyllstu alvöru að taka við þular-
starfinu sem honum bauðst við Ríkisútvarpið fyrir tilstuðlan Páls
ísólfssonar, stríddi það gegn dýpstu sannfæringu hans um hlut-
skipti sitt í lífinu. Jón leit ekki á það sem frumskyldu sína að sjá
fjölskyldu sinni farborða. Hann hafði helgað sig listagyðjunni.
Henni einni skyldu færðar fórnir. ,,[Þ]að er mín fyrsta skylda að
gefast ekki upp á þeirri starfsbraut, sem eg er á ... því að eg er nú
einu sinni sannfærður um að starfsemi mín sé mikilsverðari en
störf flestra annarra manna" tjáir Jón foreldrum sínum er hungrið
er tekið að steðja alvarlega að honum og fjölskyldu hans.25 Enn
skrifar Jón foreldrum sínum:
Þið virðist ganga út frá því að lífstakmark mitt sé að „komast áfram“ og
„vinna mér eitthvað inn“, að ná í „viðunandi atvinnu“. En svo er alls ekki,
því að slíkt lífstakmark er alls ekki sameinanlegt við heilaga köllun lista-
mannsins. Eg hefi að vísu á seinustu árum reynt ýmislegt, sem eingöngu
var unnið í þeim tilgangi að fjénast á því, en það hefir að eins orðið til þess
að tefja mig í liststörfum mínum, enda er það blettur á samvizku minni
enn. Nei, eg er ákveðinn í því að ganga á móti hungri og dauða í fullri
tryggð við liststörf mín, sem eru brautryðjandi í tveim greinum tónlistar-
innar, í tónskáldskap og hljómsveitarstjórn og leik. Vissulega mun eg
reyna að gera skyldu mína fjárhagslega svo framarlega, sem þessi lífstak-
mörk mín leyfa mér, en það er ekki hægt að vonast eftir fljótum eða
snöggum árangri í listgreinum mínum, af því að þær eru nýjar og braut-
ryðjandi.26
Heilög köllun listamannsins Jóns Leifs var fjölskyldu hans byrði.
Ekki gátu foreldrar Jóns, þau Þorleifur og Ragnheiður, horft að-
gerðarlaus upp á son sinn, tengdadóttur og barnabörn svelta heilu
hungri. Þau tóku því í auknum mæli á herðar sér að sjá fyrir syni
sínum og fjölskyldu hans. Eigin útgjöld urðu þau að skera við
25 Lbs.-Hbs. [án númers] Gögn Jóns Leifs. Jón Leifs til Þorleifs Jónssonar og
Ragnheiðar Bjarnadóttur, 2. október 1927.
26 Lbs.-Hbs. [án númers] Gögn Jóns Leifs. Jón Leifs til Þorleifs Jónssonar og
Ragnheiðar Bjarnadóttur, 11. nóvember 1927.