Skírnir - 01.09.2013, Side 6
Frá ritstjóra
Ein afleiðing falls íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 var djúpstætt vantraust milli
stjórnmálastéttar og þjóðar. Skoðanakannanir leiða í ljós að enn eiga stjórnmála-
menn langt í land með að vinna aftur traust þjóðarinnar, og reyndar virðist van-
traustið svo mikið að það ógnar sjálfu lýðræðinu í landinu. Um þetta efni ritaði
Vilhjálmur Árnason prófessor ítarlega og gagnmerka grein í síðasta hefti Skírnis sem
vakið hefur mikla athygli og umtal.
Lýðræðisþróun á Islandi er enn til umfjöllunar í þessu hefti. Svanur Kristjáns-
son prófessor tekur gangvirki íslenska fulltrúalýðræðisins til athugunar með því að
skoða rækilega eitt helsta deilumál síðustu áratuga í íslenskri stjórnmálaumræðu; lög
um fiskveiðistjórnun. Svanur rekur baksvið þessarar umdeildu lagasetningar og hina
pólitísku umræðu í kringum hana og kemur þar margt forvitnilegt í ljós — og ýmis-
legt á óvart.
Að öðru leyti er efni ritsins einkum af tvennum toga. Margir telja að íslenskir há-
skólar standi nú á tímamótum og ólíkar hugmyndir eru uppi um framtíð þeirra. Páll
Skúlason, fyrrverandi háskólarektor, skrifar hér grein þar sem hann tekur til athug-
unar helstu hugmyndir um þróun háskóla og hvernig hann megi verða betri, og
Ástráður Eysteinsson prófessor skrifar um hinar séríslensku aðstæður; íslenska mál-
stefnu, vanda hennar, markmið og framtíð í háskólaumhverfinu.
íslenskar fornsögur eru annars í brennidepli. Einar Kárason, sem í næstsíðasta
hefti Skírnis skrifaði skemmtilega grein um höfund Njálu, heldur hér áfram hug-
leiðingum sínum og enn kemur Sturla Þórðarson við sögu og nýlega útgefið rit hans,
Hákonar saga. Guðjón Ólafsson frá Syðstu-Mörk skrifar um víg Höskuldar í Njálu,
og sýnir að bændur eru enn með hugann við hinar fornu sögur og atburði sem urðu
í túnfætinum hjá þeim. Arngrímur Vídalín ritar athyglisverða grein um fantasíur í ís-
lenskum miðaldabókmenntum, en Heimir Pálsson gerir atlögu að nýrri túlkun á
Hallmundarkviðu í Bergbúa þætti. Þá skrifar Ármann Jakobsson grein byggða á
endurminningabók eins helsta ritskýranda íslenskra fornsagna í samtímanum; sænska
prófessorsins Lars Lönnroth.
Sem fyrr ramma listir inn heftið. Ljóð Þorsteins frá Hamri opna heftið en því
lýkur á annars vegar sönglagi Þorvaldar Gylfasonar við ljóð Njarðar P. Njarðvík,
Þegar lognið, og svo myndlistarþættinum þar sem Auður A. Ólafsdóttir, listfræðingur
og rithöfundur, fjallar um einn áhugaverðasta listamann okkar, Kristínu Gunn-
laugsdóttur.
Páll Valsson