Skírnir - 01.09.2013, Page 13
SKÍRNIR LÝÐRÆÐISBRESTIR ... LÝÐVELDISINS 243
lýðræði og andúð á allri fulltrúastjórn. Hann er „almennt metinn
sem einn almerkasti hugsuður síðari alda og telst jafnframt til mögn-
uðustu rithöfunda á franska tungu“.2 Ritverk Rousseaus, Sam-
félagssáttmálinn (1762), markaði þáttaskil í umfjöllun um stjórn-
skipun á Vesturlöndum. Bókin var að sönnu bönnuð af yfirvöldum
í heimalandi höfundar en hún náði samt fljótt mikilli útbreiðslu og
flestir þeir sem höfðu áhuga á stjórnskipun komust ekki hjá því að
kynna sér skoðanir Rousseaus og taka til þeirra afstöðu.
Grunnhugmynd Rousseaus í þessum efnum er að finna í reglunni
um virkan fullveldisrétt fólksins. Hann hélt því fram að almanna-
viljinn einn gæti lagt skuldbindingar á einstaklinga og að aldrei væri
hægt að vera viss um að sérstakur vilji væri í samræmi við almanna-
viljann fyrr en hann hefði verið borinn undir þjóðina í frjálsri
atkvæðagreiðslu (Rousseau 2004:110). Rousseau taldi hins vegar að
frumkvæði að lagasetningu ætti að vera hjá löggjafarþingi þjóðar-
innar, enda hafði hann „takmarkað álit á gáfum almennings og taldi
honum tæpast treystandi. Löggjafinn sem mikilmenni varð að
kenna henni og gera hana að þjóð.“3 Að mati Rousseaus var voðinn
vís án lifandi beins lýðræðis. Hann taldi að harðstjórn væri ávallt
yfirvofandi og alþýðan yrði að halda vöku sinni og kalla til funda til
að vaka yfir lýðræði í samfélaginu og frelsi einstaklinganna. Ein-
ungis með virkri þátttöku fólksins væri mögulegt að skapa friðsam-
legt samfélag (Már Jónsson 2004: 46, 50).
Kenningar Rousseaus gera skýran greinarmun á lögmætu og
ólögmætu ríkisvaldi. Lögmætt ríkisvald hvílir á lögum sem þjóðin
sjálf hefur samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu. Slík lög ber öllum
að virða enda eru þau í samræmi við almannavilja. Lög sem þjóðin
hefur ekki samþykkt eru ólög og engin siðferðileg skylda er til að
hlýða þeim, heldur þvert á móti: Þjóðin verður einungis frjáls geri
hún byltingu gegn ólögmætu yfirvaldi.
2 Hér er byggt á greinargóðum inngangi Más Jónssonar (2004: 34-37, 41) að ís-
lenskri þýðingu á Samfélagssáttmálanum.
3 Rousseau hafði litla trú á getu þorra karlmanna til að taka daglegar ákvarðanir í
stjórnmálum eða stjórnsýslu, en vantrú hans á konum var í senn almenn og algjör:
„Konur áttu vel að merkja hvergi að koma nærri opinberum málum og hlutverk
þeirra, að mati Rousseaus, var að eignast og annast börn“ (Már Jónsson 2004: 51).