Skírnir - 01.09.2013, Page 22
252
SVANXJR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
stjórnarþingmann í viðbót. Stuðningur Stefáns Valgeirssonar réð
því úrslitum um stjórnarmyndunina.9
Eftir stjórnarmyndunina var Stefán Valgeirsson mjög opinskár
um það hvers konar stjórnmálamaður hann væri, hverjar áherslur
hans í stjórnmálum væru og um hvað hefði verið samið þegar hann
gerðist stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. I viðtali við Dagblaðið
Vísi — DV 1. október 1988 sagði Stefán m.a.:
Eg er fulltrúi landsbyggðarinnar og þeirra sem standa höllum fæti í
þjóðfélaginu. Ég hef alla tíð haldið þessu fram og hef ekki verið framsókn-
armaður vegna þess að flokkurinn heitir Framsóknarflokkur heldur vegna
þess að ég taldi að þar væru í heiðri hafðar hugsjónir sem stæðu nærri
mínum. Á síðustu tíu árum eða svo hefur Framsóknarflokkurinn sveigt
mjög frá þeirri stefnu en ég tel mig hafa sömu stefnu sem hann hafði áður.
Ég held mig fast við það sem var. Við lifum ekki hér sem þjóð nema að nýta
möguleikana sem landið og sjórinn umhverfis landið hefur að bjóða. [...]
Maður sem hefur hugsjónir og þær tel ég mig hafa, hann kemur þeim ekki
fram nema hafa aðstöðu. Af því sækist ég eftir völdum. („Held þá ekki
lengur undir þeim stólunum ...“ 1988)
Morgunblaðið birti einnig frásögn af sérstökum fréttamannafundi
Stefáns:
Stefán Valgeirsson tilkynnti í gær að Samtök jafnréttis og félagshyggju
hefðu tekið formennsku í nýjum sjóði, Tryggingarsjóði atvinnuveganna,
fram yfir embætti samgönguráðherra í nýju ríkisstjórninni, en ráðherra-
embættið hefði verið háð því skilyrði að Stefán segði af sér formennsku í
bankaráði Búnaðarbankans, Stofnlánadeild landbúnaðarins og stjórnarsetu
í Byggðasjóði. Stefán segir að nýi sjóðurinn fái 4-5 milljarða á næstu
tveimur árum til ráðstöfunar. Talið er að Gunnar Hilmarsson sveitarstjóri
á Raufarhöfn verði formaður sjóðsins.
9 Svanur Kristjánsson (1994: 163) bendir á að stjórnarmyndunin 1988 hafi verið
einstæð í sögu íslenska lýðveldisins að því leyti að aldrei áður hafði það gerst að
meirihlutastjórn segði af sér og önnur meirihlutastjórn væri mynduð án þess að
gengið væri til kosninga. Slíkt hefur heldur ekki gerst síðan. Fyrir þingkosningar
1987 urðu mikil átök um skipan efsta sætis á lista Framsóknarflokksins í Norður-
landskjördæmi eystra. 1 kjördæmisráði flokksins var kosið á milli Stefáns Val-
geirssonar og Guðmundar Bjarnasonar, sbr. Svan Kristjánsson 1994: 64. Stefán
tapaði kosningunni en stofnaði í kjölfarið til sérframboðs, hlaut tæp 1900 atkvæði,
12,1% gildra atkvæða í kjördæminu eða 1,2% á landinu öllu.