Skírnir - 01.09.2013, Blaðsíða 72
302
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
semi hans, kennsla, rannsóknir og rekstur, allt á þetta að vera „fram-
úrskarandi". Háskólinn í Reykjavík beitti þessu hugtaki í stefnu-
mótun sinni á árinu 1998 og orðið hefur síðan fengið sinn sess í
stefnumótun annarra háskóla, þ.á m. Háskóla Islands.
Readings telur að orðið „excellence“ þjóni því hlutverki að gefa
allri starfsemi háskólans vissa einingu á yfirborðinu, það sé það sem
hann kallar „þá meginreglu sem ljær háskóla samtímans heildarsvip
sinn“. Sem slíkt hafi það „þann einstaka kost að vera öldungis merk-
ingarlaust, eða réttara sagt, án tilvísunar" (Readings 1996: 22). Að
vera ágætur eða framúrskarandi er merkingarlaus lýsing — eða, rétt-
ara sagt, sú lýsing fær einungis merkingu með hliðsjón af tilteknum
mælikvörðum eða viðmiðunum sem eru gerólíkar eftir því hvað um
er að ræða hverju sinni. Sama gildir að sjálfsögðu um orðið „góður“.
Góður bíll er ekki góður miðað við sömu mælikvarða og til dæmis
góður matur. Orðið „framúrskarandi" er svolítið öðru vísi vegna
þess að það kallar á beina viðmiðun með samanburði við aðra. Að
vera framúrskarandi er að skara fram úr öðru sem er af sama tagi
og þess vegna þarf að tiltaka hverju sinni hvað það er sem skarað er
fram úr, og á grundvelli hvaða mælikvarða, til að lýsingin fái merk-
ingu. En það er líka til önnur leið sem merkingarleysi orðsins býður
upp á, og hún er sú að skilgreina alls kyns mælikvarða á frammi-
stöðu sem „mæla“ ágætið eða framúrskörunina. Þetta er leiðin sem
háskólarnir hafa farið og fylgt með því fordæmi ýmissa framleiðslu-
og þjónustufyrirtækja sem hafa innleitt alls kyns „gæðakerfi" til að
geta sannað ágæti framleiðslu sinnar fyrir viðskiptavinum sínum.
Opinberir samkeppnissjóðir, sem háskólarnir eru háðir í vaxandi
mæli, beita skipulega slíkum „gæðastöðlum". Þannig hafa verið
búnir til ýmiss konar kvarðar til að meta starfsemi háskóla og raða
þeim síðan eftir „ágæti" þeirra.
Þetta er draumaaðferð þeirra sem vilja breyta háskólanum í
fyrirtæki með það eina meginmarkmið að stækka og auka umsvif
sín. Ég gef Readings orðið: „Framúrskörunin gerir háskólanum
kleift að skilja sjálfan sig eingöngu með hugtökum sem eiga við
stjórnsýslukerfi fyrirtækja“ (Readings 1996: 29). Þar með tekur allt
að snúast um það að finna upp kerfi til að mæla umsvif og fjöl-
breytni þess sem háskólarnir gera til að geta sýnt og sannað heim-