Skírnir - 01.09.2013, Page 73
SKÍRNIR
HVAÐ ER GÓÐUR HÁSKÓLI?
303
inum hversu frábærir þeir eru og hversu góða og margvíslega þjón-
ustu þeir veita hinum mörgu og ólíku geirum eða sviðum þjóð-
félagsins. Samkvæmt kenningu Readings verður tilgangur háskól-
anna sá að eflast sem þekkingarfyrirtæki sem vinnur markvisst að því
að styrkja og efla stöðu sína á „menntamarkaðnum“, í harðri sam-
keppni við önnur sambærileg fyrirtæki. Og hann telur að við þurf-
um að viðurkenna í eitt skipti fyrir öll að hinn hefðbundni háskóli
sem heldur í heiðri gildi upplýsingar, skynsemi og menningar, heyri
sögunni til. í rauninni sé menningarhugtakið orðið nánast jafn
merkingarlaust og „framúrskörunin". Saga háskólans í hefðbundn-
um skilningi sé liðin, háskólinn í dag sé eftir-sögulegt fyrirbæri.
Hinn „framúrskarandi háskóli“ opni nemendum sínum og starfs-
fólki í raun allar leiðir til að gera hvaðeina sem hugur þess stendur
til svo fremi að sagt sé skilið við fortíðarþrána og reynt að loka
engum dyrum (sjá Readings 1996: 192). Er þetta leiðin til að verða
góður háskóli?
8. Velgengni ameríska háskólans
Margt bendir til þess að amerískir háskólar hafi þróast í þá veru sem
hér er lýst á undan öðrum háskólum heimsins. David Labaree,
bandarískur prófessor í menntarannsóknum, hefur varpað fram til-
gátu til að skýra hvers vegna „ameríska háskólanum" hafi vegnað svo
vel að aðrir háskólar heimsins hafa tekið hann sér til fyrirmyndar.13
Tilgátan er sú að amerískir háskólar hafi frá upphafi litið á sjálfa sig
sem fyrirtæki á menntamarkaðnum sem verði sjálf að hafa fyrir því
að afla sér tekna, bera ábyrgð á starfsemi sinni og sýna sig og sanna
fyrir heiminum. Vissir háskólar hafi snemma náð yfirburðastöðu á
markaðnum og hafi haldið henni, en hinir háskólarnir taki meira og
minna mið af þeim og leitist við að vinna sig upp metorðastigann
sem skapast hefur á menntamarkaðnum.
13 „Markets and American Higher Education: An Institutional Success Story.“ Vice
presidential address (Division F, History of Education) at annual meeting of the
American Educational Research Association, San Francisco. Sjá einnig vefslóðina
http://www.stanford.edu/~dlabaree/publications/Understanding_the_Rise_of_
American_Higher_Education.pdf