Skírnir - 01.09.2013, Page 96
326
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
málum, en hún fer eðlilega að nokkru eða jafnvel öllu leyti fram á
hlutaðeigandi tungumáli).9
í ljósi þess að flestir fastakennarar við íslenska háskóla hafa
stundað framhaldsnám erlendis er engan veginn sjálfgefið að það
liggi beint fyrir þeim að miðla þekkingu sinni á íslensku og í ýmsum
tilvikum má reikna með því að þessu fylgdi sérstakt álag eða auka-
legur undirbúningur. Sá sem þetta skrifar fékk fast starf í almennri
bókmenntafræði við Háskóla íslands árið 1988. Þessi grein er
alþjóðleg og óbundin bókmenntum einstakra tungumála — hún er
því ekki háð þeim þjóðlegu „skyldum“ sem fylgja bókmennta-
kennslu innan námsbrautar í íslensku. Engu að síður fór kennsla í
almennri bókmenntafræði að langmestu leyti fram á íslensku og svo
er enn. Þegar ég kom heim til að starfa við greinina eftir að hafa búið
um áratug erlendis, var stærsta áskorunin tvímælalaust sú að skipu-
leggja og kenna á íslensku þau námskeið sem ég hafði á minni könnu
fyrstu árin. Og þegar ég segi áskorun, þá á ég við fræðilega áskorun.
Ég gat ekki stytt mér leið með því að nýta með beinum hætti glósur
frá námsárunum erlendis eða þeirri háskólakennslu sem ég hafði
sinnt í Bandaríkjunum. Ég varð að hugsa viðfangsefnin upp á nýtt
á íslensku, eða öllu heldur á mörkum íslenskunnar og þeirrar
fræðilegu orðræðu sem mér var töm á erlendum málum, einkum
þýsku og ensku — og móta hana síðan á íslensku til framsetningar
í fyrirlestrum, hópumræðum og samræðum við einstaka nemendur.
Þessi endurhugsun sem og hin íslenska framsetning var oft erfið en
ég fann líka glöggt að í henni fólst nýsköpun, hún skerpti iðulega
sjálfstæði mitt gagnvart viðfangsefninu og gagnvart umfjöllun er-
lendra kennimeistara á sviðinu. Eftir á að hyggja finnst mér þetta
vera meðal umfangsmestu og kröfuhörðustu verkefna sem ég hef
fengist við; og ég ítreka að þar er átt við fræðileg verkefni.
Með öðrum orðum, reynsla mín var og er ekki sú að ég starfi á
íslandi við einhverskonar útstöð eða á fræðilegum útkjálka sem er
framlenging eða útvöxtur frá ímyndaðri miðju eða kjarna vísind-
9 Sjá kennsluskrá Háskóla íslands 2012-2013 (https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.
php?tab=skoli&chapter=content&id=-2012). í framhaldsnáminu háttar öðruvísi
til, þar er talsvert um að námskeið séu kennd á ensku og jafnvel dæmi um að heilar
námsleiðir séu á ensku.