Skírnir - 01.09.2013, Page 98
328
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
5) Önnur umræða á íslensku (almenn fræðsla, kynningarefni,
fjölmiðlaefni o.s.frv.).
Umdœmi og þýðingavinna
Helst þurfa allir framangreindir þættir að vera virkir svo að fræði-
greinin sé til á íslensku. Þetta á skýrast við í greinum þar sem hin
fræðilega orðræða býr í námunda við tungutak og tjáningarmiðla
samfélagsins. Hug-, félags- og menntavísindin kunna að sýnast hér
nærtækust en einnig mætti nefna dæmi á öðrum sviðum.10 Vafa-
laust telja ýmsir að liðir 2 og 4 séu ekki veigamiklir í t.d. læknisfræði,
raunvísindum og tæknivísindum nú á tímum; vísindamenn á þessum
sviðum birti niðurstöður rannsókna á ensku og þar eð allir lesi þær
á ensku sé lítil sem engin þörf fyrir þýðingar birtra fræðigreina á
önnur tungumál. En ef kennslu á móðurmálinu og íðorðastarfi væri
ekki sinnt í þessum greinum myndu þær fljótt flosna frá málveru-
leika almennings í samfélaginu, þ.á m. þess fólks sem annast kennslu
á öðrum skólastigum.
Þótt lítið kunni að vera um þýðingar fræðirita á þeim fræða-
sviðum sem síðust voru nefnd, er ljóst að þeir sem sinna háskóla-
kennslu á móðurmálinu og fást við íðorðastarf eru að mörgu leyti í
stöðu þýðenda. Þeir miðla á móðurmáli sínu þekkingu sem þeir hafa
iðulega numið á erlendum málum og þá vakna oftar en ekki spurn-
ingar um meðferð einstakra hugtaka á því máli sem og alla fram-
setningu hinnar fræðilegu orðræðu. Sú reynsla, sem ég lýsti hér að
framan af starfi mínu sem kennari í bókmenntafræði við Háskóla
Islands, er einmitt að mörgu leyti reynsla þýðandans. Iðulega er les-
10 Vissulega eru fræðasvið í hugvísindum þar sem þetta á ekki við, það er að segja
námsleiðir í erlendum tungumálum á háskólastigi. Sú sérstaða helgast af því að
það má beinlínis teljast eðlilegt að kennsla á háskólastigi fari að miklu leyti fram
á viðkomandi tungumálum. I raun eru erlendu málin þó einnig tengd íslensku
menningarsamhengi á ýmsan hátt, m.a. þýðingum og tengslum Islands við önnur
lönd og það er eftirsóknarvert að fræðimenn á þessu sviði fjalli einnig um
viðfangsefni sín á íslensku, rétt eins og sérfræðingar á öðrum fræðasviðum. Hér
verður þess að gæta að við háskóla á Islandi starfa allmargir erlendir fræðimenn
og ekki er ævinlega hægt að ætlast til að þeir skrifi íslensku. En vitaskuld er hægt
að þýða ritverk eftir þá á íslensku.