Skírnir - 01.09.2013, Page 100
330
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
byggingu hafa innbyrðis tengsl greinanna komið vel í ljós og hinar
þverfræðilegu víddir menningarfræðinnar minna stöðugt á að um-
dæmi greina eru aldrei skýr. Engin fræðigrein er eyland, málum-
dæmi hennar skarast ávallt við aðrar greinar.
Einstök orð og heilir málheimar
Að fræðigrein sé til á íslensku — hvað merkir þetta með áþreifan-
legum hætti? Fyrir tuttugu árum var kvikmyndafræði ekki til á ís-
lensku. Á íslandi voru gerðar kvikmyndir og til var menningarleg
orðræða um kvikmyndalistina á íslensku, svo var fyrir að þakka ein-
staklingum eins og Thor Vilhjálmssyni rithöfundi sem skrifaði
margar greinar um kvikmyndir. En þar sem um er að ræða miðil og
listgrein sem augljóslega skiptir verulegu máli í íslensku samhengi
sem víðar, var í raun óeðlilegt að hér væri ekki stunduð skipuleg
fræðileg könnun og greining á þessum miðli (ég á semsé ekki við
hagnýtt nám í kvikmyndagerð heldur margvíslega fræðilega könnun
á kvikmyndum og samhengi þeirra). Það er öðru fremur átaki eins
manns að þakka að þessi fræðigrein komst á legg á Islandi, kollega
míns Guðna Elíssonar sem hófst handa við að byggja hana upp innan
almennrar bókmenntafræði strax og hann kom heim úr doktorsnámi
fyrir tveimur áratugum. Hann var bókstaflega óþreytandi við að
skrifa, kenna og skipuleggja þessi fræði, og ekki síst við að virkja
nemendur sína, samkennara og aðra til að skrifa um kvikmyndir og
þýða greinar og bókarkafla eftir erlenda fræðimenn á íslensku.
Sjálfur hefur hann sinnt fræðilegri ritstjórn á hverri bókinni á fætur
annarri í þessum geira (svo nefnd sé starfsemi sem oft er stórlega van-
metin í íslensku rannsóknakerfi, þ.e. fræðileg ritstjórn).12
Það er í ótrúlega mörg horn að líta í svona fræðavinnu og sköp-
unarstarfi. Stundum finnst manni sem íslensk tunga sé í varnarstöðu
þegar innleiða skal nýja fræðilega orðræðu, ekki síst þegar kemur að
hugtökum, og hugtakaflóran sjálf getur verið erfið viðureignar.
12 Kvikmyndafræði varð svo sjálfstæð kennslugrein við Háskóla íslands árið 2005
og hefur Björn Ægir Norðfjörð stýrt henni frá upphafi og haldið áfram upp-
byggingarstarfi Guðna.