Skírnir - 01.09.2013, Side 102
332
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
málsins), sem gera okkur mun erfiðara fyrir en mörgum ná-
grannaþjóðum að draga erlend hugtök beint inn í tungumálið. Þess
í stað lenda þau gjarnan í heilmikilli endurbyggingu, gott ef ekki
stundum í afbyggingu. Þetta kostar oft heilmikið umstang; við
þurfum að hafa talsvert fyrir fræðabröltinu á íslensku. Iðorðastarf
er afar mikilvægt í því samhengi öllu; það starf kallar á samræðu og
samvinnu og það krefst þekkingar á hlutaðeigandi sviði. Mörg þeirra
orða sem við teljum nú sjálfsagðan hluta íslensks máls hafa verið búin
til af fræðimönnum og rithöfundum á síðustu tveimur öldum. Jónas
Hallgrímsson bjó til „aðdráttarafl" og „hitabelti“, Björn Bjarnason
frá Viðfirði „tækni“ og „samúð“, Guðmundur Björnsson „smit“ og
„togara“, Guðmundur Kamban „hljómleika“ og „tjáningu“, Guð-
mundur Finnbogason „tíðni“ og „bannhelgi", Sigurður Nordal
„einbeitingu“, „snyrtingu“ og „tölvu“, Helgi Hjörvar „sjónvarp“
(auk þess sem hann innleiddi orðið „þulur“ í nýrri merkingu), Vil-
mundur Jónsson „sýnishorn“ og „fúkalyf“, Ólafur M. Ólafsson
„staðal“ og „stöðlun“, Alexander Jóhannesson sögnina að „hanna",
og þannig mætti lengi telja.13 Mikið nýyrðastarf hefur ennfremur
verið unnið í sérstökum orðanefndum á einstökum sviðum.14
Jónas Hallgrímsson og aðrir orðasmiðir hafa með nýyrðastefn-
unni viljað skapa sem almennasta umræðu og notkunargrundvöll
um viðfangsefnin á íslensku, m.a. til að forðast að mikið yrði um
fræðamál sem sérfræðingar einir skildu. Oft hefur verið bent á
hversu mikilvægt gagnsæið sé í nýyrðum; gott sé að ráða megi
merkingu þeirra af eldri merkingu orða eða orðhluta svo sem fram-
angreind nýyrði Jónasar eru til dæmis um. En gagnsæið er ekki eina
leiðarljósið. „Sími“ hefur til dæmis reynst afar gott nýyrði þótt telja
megi víst að fáir geri sér grein fyrir eldri merkingu orðsins á ís-
lensku. A hinn bóginn verður málið einnig að vera opið fyrir töku-
13 Dæmin er sótt til Halldórs Halldórssonar (1964: 142-149) og Kjartans G. Ottós-
sonar(1990: 110,117-118). Stundum líður furðulangur tími frá því að mikilvægt
hugtak kemur fram og þangað til það festist í sessi. Kjartan G. Ottósson (1990)
greinir frá því að þótt Björn Bjarnason frá Viðfirði hafi komið orðinu „tækni“ á
framfæri árið 1912, hafi það ekki komist í almenna notkun fyrr en á fimmta ára-
tug aldarinnar.
14 Sjá vefsvæði Islenskrar málstöðvar (http://www.ismal.hi.is/indexny.html).