Skírnir - 01.09.2013, Page 114
GUÐJÓN ÓLAFSSON FRÁ SYÐSTU-MÖRK
Um víg Höskulds Hvítanesgoða
og heimildir söguritarans
Athugasemd við Njáls sögu
Margt hefir verið ritað um Njáls sögu, ekki síst um það hvort þeir
atburðir, sem sagan segir frá, hafi raunverulega gerst. Um þetta hafa
menn verið mjög ósammála, bæði sagnfræðingar og aðrir. Sumir
hafa haldið því fram að hún sé fyrst og fremst skáldsaga og óvíst
hvort sögupersónur hennar hafi verið til, aðrir hafa haldið því fram
að flestir stærri atburðir hennar hafi gerst. Þá hafa menn verið mjög
ósammála um það hvernig að ritun hennar hafi verið staðið, hvort
sá sem skrifaði hana í því formi sem hún er nú og talið er að hafi
verið gert um 1280, hafi haft ritaðar heimildir við að styðjast og
hversu ýtarlegar þær hafi verið, eða hvort hann hafi aðallega stuðst
við munnlegar heimildir eða arfsagnir. Einn þeirra fræðimanna sem
mikið hafa skrifað um Njálu er dr. Einar Ól. Sveinsson. Hann hélt
því fram að Njáls saga hafi verið skrifuð af einum manni. Finnur
Jónsson, prófessor í Kaupmannahöfn, taldi að hinn endanlegi höf-
undur hennar eða ritstjóri, eins og hann vildi jafnvel kalla hann, hafi
haft fyrir sér tvær bækur frá 12. öld, Gunnars sögu og Njáls sögu,
sem hann hafi umskrifað og sameinað í eina sögu.
I þessari grein verður því haldið fram, og tekið undir með Finni,
að höfundurinn hafi haft Gunnars sögu og Njáls sögu frá 12. öld
og hugsanlega líka Höskulds sögu að hluta, og notað þær allar þegar
hann ritaði Njáls sögu. Sérstaklega mun ég fjalla um víg Höskulds
Hvítanesgoða í þessu samhengi.
Hver var aðalástæðan fyrirþví að Höskuldur var veginn ?
Einn er sá kafli í Njáls sögu sem er ótrúverðugri en flest annað í
þeirri annars ágætu sögu, en það er kaflinn um ástæður þess að
Skírnir, 187. ár (haust 2013)