Skírnir - 01.09.2013, Qupperneq 123
SKÍRNIR
UM VÍG HÖSKULDS HvÍTANESGOÐA ...
353
Með línum þessum hef ég leitast við að færa rök fyrir því, ekki
síst með tilvitnunum í rit Einars Ól. Sveinssonar, að sá sem skrifaði
Njáls sögu um 1280 hafi haft ritaðar heimildir fyrir flestum megin-
atburðum hennar, að öðru leyti en því að vantað hafi aðalástæðuna
fyrir vígi Höskulds Hvítanesgoða, en hana hafi höfundur búið til og
tekist þannig að því sé ekki hægt að trúa.
Eftir að margumrædd bók Einars Ól. Sveinssonar, Um Njálu,
kom út ritaði Finnur Jónsson ítarlegan ritdóm um hana, sem birtur var
í Skírni. Þar ræðir Finnur m.a. um að Einar hafi leitast við að sanna
að Gunnars saga og Njáls saga, sem nokkrir fræðimenn fyrri tíma
töldu að hefðu verið notaðar við núverandi gerð Njálu, hefðu ekki
verið til. Þrátt fyrir að Einar hafi lagt mjög mikla rannsóknarvinnu í
þetta hafi honum ekki tekist að sanna að þær hafi ekki verið notaðar.
I greininni gerir Finnur tilraun til að sýna fram á að þessar sögur
hafi ekki aðeins verið til, heldur verið aðalgrundvöllurinn við gerð
Njálu, þannig að fremur megi kalla þann, sem ritaði hana um 1280,
ritstjóra en höfund. Hann hafi að vísu verið ritsnillingur sem hafi
ritað þær upp á nýtt og gert að einni sögu, og leitast við að hafa á
henni sama stíl, en samt séu augljós merki um að hún sé gerð eftir
tveimur sögum og annar maður hafi verið frumhöfundur að fyrri
hlutanum (Gunnars sögunni), en seinni hlutanum (Njáls sögunni).
Finnur segir einnig frá nokkrum athugunum, sem hann hafi gert
varðandi stíl sögunnar með samanburðarrannsóknum. Þar segir að
hann hafi tínt til allmargar setningar sem hafi sérstöðu að því leyti
að í þeim sé oflof um ákveðnar persónur, þá Hrút og Gunnar á
Hlíðarenda. I sumum þessara setninga kemur fyrir samsetta orðið
þvíað. Allar þessar setningar eru úr fyrri hluta Njálu, þ.e. Gunnars
sögunni, en í seinni hlutanum, Njáls sögunni, finnst engin setning
af sömu gerð.
Þetta gæti bent til þess að sá, sem skrifaði endanlega gerð Njálu,
hafi notað ritaða heimild eftir annan mann við gerð fyrri hluta sög-
unnar en þann síðari. Þessi rannsóknarniðurstaða Finns styður
kenninguna um sögurnar tvær, Gunnars sögu og Njáls sögu sem
hafi verið notaðar við endanlega gerð Njálu.
Þá ber þessu saman við Njáludrauminn að öðru leyti en því að
Einar og Finnur nefna ekki Höskulds sögu Hvítanesgoða.