Skírnir - 01.09.2013, Page 139
SKÍRNIR AÐ MÆLA RÓTEINDIR MEÐ GRÁÐUBOGA 369
loses some of its trollish aspects“ (Ármann Jakobsson 2009: 192-
193).
Einsog gefur að skilja búa tröll ekki á meðal mannfólks heldur
halda þau gjarnan til uppi í fjöllum,23 inni á markasvæði (liminal
space), líkt og tröllin í íslenskri þjóðtrú24 (þó þarf að gæta þess að
rugla þessum tveim tegundum trölla ekki saman) (sjá t.d. Ármann
Jakobsson 2008c: 41). Blámönnum er einnig ætlað svipað eðli; þeir
eru hvorki taldir meðal manna eða dýra og stundum eru þeir einnig
sagðir vera ,tröll‘ 25 Tröll vekja upp ótta og stundum gera þau atlögu
að mannabústöðum,26 en einnig hendir að fólk álpist til heimkynna
trölla.27 Viðureignum við tröll er iðulega ítarlegar lýst í fornritum
en viðureignum við finngálkn eða dreka. Líklegasta skýringin á
þessu er að annarsvegar bar samfundum trölla og manna sjaldnar
saman28 og því voru það öllu meiri tíðindi ef tröll gerðu vart við
sig; hinsvegar vegna þess að þau voru fremur ill að eðlisfari og meiri
fyrir sér samanborið við áðurnefndar skepnur og þar af leiðandi
voru þau bæði hættulegri og vöktu meiri athygli.29 Geti tröll ekki
með góðu móti talist ,eðlileg‘ á sama tíma og tilvist þeirra er viður-
kennd innan söguheims Islendingasagna hljóta þau að vera ein-
hversstaðar á mörkum hins náttúrlega og yfirnáttúrlega. Flest þeirra
eiga meira sameiginlegt með mönnum en dýrum. Því er erfiðara að
bera kennsl á þau og það jafnframt því að híbýli þeirra liggja jafnan
við endimörk samfélagsins gerir þau jafnvel ennþá hættulegri.
Ármann leggur til að tröll geti talist andstæðan við rétta þekk-
ingu og rétta trú, andstæða samfélagsins og lögmáls Guðs. Hið sama
má segja um galdra og iðkendur galdra sem að einhverju marki
23 Þar má nefna Dofra í Dofrafjöllum sem Bárður Snæfellsás dvelur hjá um hríð.
Sjálfur heldur hann síðar í sögunni upp í fjöll og gerist tröll.
24 Sbr. Haugbúa þáttur, Bárðar saga Snæfellsáss auk mikils fjölda íslenskra
þjóðsagna um tröll í safni Jóns Árnasonar og víðar.
25 Sbr. Kjalnesinga saga, k. 15; Finnboga saga ramma, k. 16.
26 T.d. Grettis saga, k. 65.
27 T.d. Orms þáttr Stórólfssonar.
28 I raun ber mönnum og tröllum mun oftar saman í fornritunum en mönnum og
drekum eða finngálknum, en innan sagnaheimsins eru tröll ekki talin vera eins al-
geng og fyrrnefndar skepnur.
29 Sbr. Orms þáttur Stórólfssonar, Ketils saga hængs, Grettis saga.