Skírnir - 01.09.2013, Síða 143
SKÍRNIR AÐ MÆLA RÓTEINDIR MEÐ GRÁÐUBOGA 373
loks hefur verið komið fyrir fýkur askan út í fjöru og verður þar
fyrir kú einni í eigu Þórodds bónda. Sú kýr fæðir kálfinn Glæsi sem
verður Þóroddi að aldurtila og reynist hafa verið andsetinn af
Þórólfi (Eyrbyggja saga 1935: k. 63).
Sambærilegar ráðstafanir eru gerðar þegar Skalla-Grímr finnst
látinn á rúmi sínu:
Skalla-Grímr kom heim um miðnættisskeið ok gekk þá til rúms síns ok
lagðisk niðr í klæðum sínum; en um morgininn, er lýsti ok menn klæddusk,
þá sat Skalla-Grímr fram á stokk ok var þá andaðr ok svá stirðr, at menn
fengu hvergi rétt hann né hafit, ok var alls við leitat. Þá var hesti skotit undir
einn mann; hleypði sá sem ákafligast, til þess er hann kom á Lambastaði;
gekk hann þegar á fund Egils ok segir honum þessi tíðendi. Þá tók Egill
vápn sín ok klæði ok reið heim til Borgar um kveldit, ok þegar hann hafði
af baki stigit, gekk hann inn ok í skot, er var um eldahúsit, en dyrr váru
fram ór skotinu at setum innanverðum. Gekk Egill fram í setit ok tók í
herðar Skalla-Grími ok kneikði hann aptr á bak, lagði hann niðr í setit ok
veitti honum þá nábjargir; þá bað Egill taka graftól ok brjóta vegginn fyrir
sunnan. Ok er þat var gprt, þá tók Egill undir hpfðahlut Skalla-Grími, en
aðrir tóku fótahlutinn; báru þeir hann um þvert húsit ok svá út í gegnum
vegginn, þar er áðr var brotinn. Báru þeir hann þá í hríðinni ofan í Nausta-
nes; var þar tjaldat yfir um nóttina; en um morgininn at flóði var lagðr
Skalla-Grímr í skip ok róit með hann út til Digraness. Lét Egill þar gera
haug á framanverðu nesinu; var þar í lagðr Skalla-Grímr ok hestr hans ok
vápn hans ok smíðartól; ekki er þess getit, at lausafé væri lagt í haug hjá
honum. (Egils saga Skalla-Grímssonar 1933: k. 58)
Það fyrsta sem vekur athygli í þessari frásögn er hversu áríðandi
það er að grípa til allra viðeigandi varúðarráðstafana hið snarasta.
Undir eins og lík Skalla-Gríms hefur verið uppgötvað er maður
sendur til Lambastaða til að bera Agli tíðindin. Egill rís þegar á
fætur og ríður af stað heim að Borg. Líkt og Arnkell forðast Egill að
líta í augu föður síns og hefur nokkuð fyrir því að komast aftan að
honum. Báðir ganga þeir úr skugga um að aðrir verði heldur ekki
fyrir augnaráði hins látna og eftir að allar ráðstafanir hafa verið
gerðar halda þeir af stað ásamt föruneyti til að grafa líkið. Ferð
Skalla-Gríms að hinsta dvalarstað tekur tvo daga og sérstaklega er
tekið fram að þeir hafi ekki hvílst fyrr en þeir komu að Naustanesi.