Skírnir - 01.09.2013, Page 191
MYNDLISTARÞÁTTUR SKÍRNIS
Vagina eterna
— um myndlist Kristínar Gunnlaugsdóttur —
Þegar Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður flutti heim frá
Flórens, vöggu endurreisnarmálverksins, eftir áralanga námsdvöl
erlendis, helgaði hún sér á skömmum tíma persónulegan reit í aldin-
garði íslenskrar samtímalistar með málverkum sem sýndu upphafna
og tímalausa líkama, í anda helgimynda fyrri tíma. Jákvæðar
viðtökur verka hennar strax um miðjan tíunda áratug síðustu aldar
sýndu að eilífðartónninn og þráin eftir hinu varanlega seiddi margan
manninn. Sumum þótti þó kúnstugt að 24 ára gömul Akureyrar-
mær skyldi að loknu námi við Myndlista- og handíðaskólann árið
1987 leggja sig eftir að læra aldagamla eggtempera-tækni íkónamál-
unar í nunnuklaustri og fullnuma sig síðan í lagningu blaðgulls, en
hvorugt taldist beinlínis meinstrím meðal ungra íslenskra málara
þess tíma. Og gott ef myndlistarkonan sjálf þótti ekki hafa áþekkan
vangasvip og gullinhærð guðsmóðirin í eigin málverkum.
I sögulegu samhengi eru íkónamyndir málverk á tré af helgum
persónum, hugsuð sem miðpunktur trúarlegrar tilbeiðslu. Elstu
varðveittu íkónin eru frá 6. öld en þar sem hugmyndafræði verk-
anna gengur út á formfestu og tímalaust gildi, líkjast 20. aldar íkón
helgimyndum miðalda. Víða — svo sem í ortódox-trú í Austur-Evr-
ópu — er litið svo á að íkón sé ekki bara hlutur, ekki bara „mál-
verk“, heldur staðgengill eða birtingarmynd helgrar persónu, eins
konar endurgerð af prótótýpunni á himni.
Goðsagan segir reyndar að guðspjallamaðurinn Lúkas hafi málað
fyrstu íkónamyndina af Maríu með barnið — og María sjálf setið
fyrir — og það nefnt Hódegetríu-íkonið eftir klaustri rétt hjá Istan-
búl þar sem verkið var varðveitt þar til það glataðist á miðöldum. Á
eftirgerðum af málverkinu má sjá hina frægu handahreyfingu Maríu
þar sem hún bendir á son sinn og orðið hefur fyrirmynd allra síðari
íkóna af Maríu með barnið, þar á meðal eftir Kristínu.
Skírnir, 187. ár (haust 2013)