Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 6

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 6
6 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 Hver kannast ekki við tilfinninguna þegar manni finnst ekkert gerast sama hvað maður hamast og bröltir. Samt er það svo að þegar litið er yfir lengra tímabil þá hefur ýmislegt gerst þrátt fyrir allt. Þannig er tilfinning mín hér í formanns- stólnum núna. Ég áttaði mig nefnilega nýlega á því að þegar við skoðum málið, þá er mjög mikið að gerast í ljósmæðralífi okkar. Á þessu ári erum við nú þegar búnar að eign- ast nýjan doktor og trúlega bætist annar við síðar á árinu. Við fengum fyrsta prófessorinn og eigum einnig tvo dósenta. Þetta er mjög jákvætt fyrir stéttina í heild þar sem það styrkir fagið óumdeilanlega að eiga okkar eigin rannsakendur sem gera rannsóknir í okkar heimalandi við okkar aðstæður. Við erum búnar að halda okkar eigin ljós- mæðradaga sem heppnuðust með ágætum. Að minnsta kosti átta ljósmæður héðan voru með erindi á NJF ráðstefnunni í Gautaborg nýverið og tvær íslenskar ljósmæður voru með veggspjaldakynningar. Þetta eru tæp fjögur prósent íslenskra ljósmæðra og það þykir mér góður árangur og bera vott um mikla grósku í menntunarmálum ljósmæðra hér á landi. Undirbúningur er hafinn fyrir 100 ára afmæli félagsins 2019 og NJF ráðstefnu sem verður haldin hér á Íslandi á sama tíma. Það er ekki sjálfgefið að svo lítið félag sem okkar nái 100 ára aldri. Til að halda þessu gangandi hefur þurft hugsjóna- og baráttukonur þessa öld sem liðin er, konur sem pössuðu það að við soguðumst ekki ósjálfrátt inn í stærri félög og yrðum þar að kæfðri rödd. Ég fyrir mína parta er þeim þakklát. Við erum einnig nú í fyrsta sinn orðnar meðlimir í EMA, The European Midwives Association og munum sækja fyrsta fund þeirra á haustmánuðum. Hugsanlega hyllir nú loks undir það að stéttin fái leyfi til að ávísa tilteknum lyfjum. Mikil vinna hefur verið lögð í það mál af og til á undanförnum árum, án árangurs, en nú hefur landlæknir í fyrsta sinn gefið það út á vefsíðu sinni að eðlilegt sé að ljósmæður fái þetta leyfi. Kannski er nú réttur farvegur kominn til að málið nái í höfn. Talandi um að ná í höfn, þá er annað mál sem er einnig að komast þangað en það er að sjálf- sögðu opnun fæðingarstofu utan spítala. Mikið hefur verið reynt og rætt í mörg ár um að opna fæðingarheimili en nú er það í alvörunni að gerast. Tvær skeleggar ljósmæður gengu í verkið og umhverfið og farvegurinn var réttur að þessu sinni til að fæðingarstofan varð að veruleika. Ég hef trú á því að þetta framtak og verkefni muni ekki gera neitt nema að vaxa og dafna því að þörfin er svo sannarlega fyrir hendi. Einnig má minnast á málaferli sem félags- menn standa í nú um stundir þar sem tekist er á um hvort greiða eigi laun fyrir unna vinnu. Þrátt fyrir að tapa málinu í félagsdómi létum við ekki deigan síga og héldum áfram með málið, nú fyrir héraðsdómi, og ég hef fulla trú á að við vinnum að þessu sinni. Ég held að þrátt fyrir allt sem við höfum sett fyrir okkur undanfarið og fundist við vera að missa eins og Hreiðrið, fækkun fæðingarstaða á landsbyggðinni, MFS, Fæðingarheimilið og svo má lengi telja, þá sé árið 2016 samt gott ár fyrir ljósmæður. Ég held að sóknarfærin séu allnokkur og með framsækni og eftirfylgni eigum við eftir að vinna litla sigra sem þegar horft er yfir lengri veg verða að stórum sigrum þegar allt er lagt saman. Ljósmæður geta horft björtum augum til framtíðarinnar og í stað þess að harma það sem við höfum ekki skulum við styrkja það sem við höfum, sem er hreint ekki svo lítið. Ég óska öllum ljósmæðrum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars, góðra stunda og farsældar í leik og starfi. Áslaug Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands Er blómatími ljósmæðra runninn upp? Á V A R P F O R M A N N S L M F Í

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.