Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 25

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 25
25Ljósmæðrablaðið - júní 2016 Mikil áhersla hefur verið lögð á að skilgreina hugtök um eðli- legar og náttúrulegar fæðingar í ljósmæðraheiminum síðastliðna áratugi. Það hefur reynst stéttinni erfitt þar sem hugtökin eru bæði gildishlaðin og auðvelt að túlka þau á mismunandi vegu. Stofn- anir og samtök hafa komið fram með ólíkar skilgreiningar og leið- beiningar verið gefnar út um það hvernig stuðla megi í auknum mæli að eðlilegum fæðingum til að sporna gegn sjúkdóms- og tæknivæðingu barneignaþjónustunnar. Alþjóðaheilbrigðismála- stofnunin (WHO) skilgreinir til dæmis eðlilega fæðingu sem sjálfkrafa fæðingu barns í höfuðstöðu á 37.‒42. viku meðgöngu þar sem sótt hefst sjálfkrafa og áhætta er lítil, einnig er tekið fram að móður og barni heilsist vel eftir fæðingu (WHO, 1996). Í skýrslu Fæðingarskráningar Landspítalans eru fæðingar aftur á móti einungis flokkaðar í þrjá flokka; eðlilegar fæðingar, áhalda- fæðingar og keisarafæðingar (Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson, 2014). Í þeirri skilgreiningu má því leiða líkum að því að með eðlilegum fæðingum sé átt við allar fæðingar sem ekki enda með keisaraskurði eða áhaldafæðingu óháð því hvort önnur inngrip hafi komið við sögu. Hugtakið náttúrleg fæðing tengist baráttu kvenna og femínista- hreyfinga fyrir stjórn yfir eigin fæðingum, mannúðlegri umönnun og lausn undan karlægri stjórn læknisfræðinnar. Það er þó ekki síður gildishlaðið og hefur mismunandi skilningur verið lagður í það; allt frá fæðingu án verkjalyfja á sjúkrahúsi til fæðingar án allra læknisfræðilegra inngripa. Í skýrslu Fæðingarskráningar fyrir árið 2010 má til dæmis finna skilgreiningu á náttúrulegri fæðingu sem fæðingu án eftirfarandi inngripa: framköllun á fæðingu, örvunar með oxytosíni, mænurótardeyfingar, spangar- skurðs, áhalda og keisaraskurðs (Ragnheiður I. Bjarnadóttir o.fl., 2011). Umfjöllun um náttúrulegar fæðingar byggist oft á því að innsæi konunnar ráði för því líkaminn viti hvernig eigi að fæða barn en margir hafa gagnrýnt þá eðlishyggju sem hugtakið felur í sér, að hinn náttúrulegi kvenlíkami verði ekki fyrir áhrifum af samfélagi og menningu (Darra, 2009). Í stefnuyfirlýsingu Ljósmæðrafélags Íslands segir: Barn- eignarferlið er lífeðlislegt ferli sem ekki á að trufla með inngripum og tækni nema nauðsyn beri til. ... Áhætta af inngripinu verður að vera minni en áhættan af því að grípa ekki inn í ferlið. Rann- sóknir hafa sýnt að öryggi við barnsburð er, þrátt fyrir allt, mest þegar um fæst inngrip er að ræða af hendi fagfólks í heilbrigð- isþjónustunni (Ljósmæðrafélag Íslands, 2000). Þessi yfirlýsing hefur verið mér hugleikin frá því ég hóf nám í ljósmóðurfræði. Ég velti því fyrir mér hvers vegna hugtök tengd lífeðlislegu og óhindruðu flæði fæðingarinnar hafi ekki verið meira notuð. Hugtakið lífeðlisleg fæðing hefur lítið verið rannsakað eða skil- greint en árið 2012 sendu samtök ljósmæðra í Bandaríkjunum frá sér sameiginlega yfirlýsingu með það fyrir augum að skilgreina hugtakið. Þar segir að lífeðlisleg fæðing sé í umhverfi sem stuðli að farsælli fæðingu, fari sjálfkrafa af stað og framgangur sé einnig sjálfkrafa. Barn og fylgja fæðist um fæðingarveg og lífeðlislegt blóðtap eigi sér stað. Stuðlað sé að kjöraðlögun nýburans eftir fæðingu með ótruflaðri samveru móður og barns og húð við húð snertingu þeirra eins fljótt eftir fæðingu og hægt sé. Ef þörf er á læknisfræðilegri meðferð eða inngripi er lífeðlislegri nálgun áfram beitt og stutt við lífeðlislegt ferli fæðingarinnar á faglegan hátt og þannig stuðlað að bestu mögulegu útkomu fyrir móður og barn (ACNM, MANA og NACPM, 2012). Óeðlilegar og ónáttúrulegar fæðingar Skipta orðin sem við notum máli? Rut Guðmundsdóttir Ljósmóðir á Landspítala H U G L E I Ð I N G

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.