Dagblaðið Vísir - DV - 21.12.2018, Blaðsíða 27
FÓLK - VIÐTAL 2721. desember 2018
afskiptum af stjórnmálum. Árið
1983 bauð Ellert sig aftur fram í
prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir
alþingiskosningar. Þar endaði
hann í öruggu fjórða sæti.
„Ég gerði það í raun og veru
til að sanna mig og átta mig á því
hvar ég stæði í þinginu og pólitík-
inni allri. Þegar ég kom inn í þing-
flokkinn bauð ég fram krafta mína
sem ráðherra eða formaður þing-
flokksins. Hvorugt var samþykkt.
Þá gekk ég út og hætti að mæta á
fundi hjá flokknum. Ég sat á þingi
til ársins 1987 af því að það var
búið að kjósa mig. Ég tók til mál-
anna og hafði afskipti af ýmsum
frumvörpum en var ekki virkur í
mínum gamla flokki. Í rauninni
var ég óháður þingmaður.“
Var ekki reiði í þinn garð af
hálfu Sjálfstæðismanna?
„Ég veit ekkert um það, ég
talaði ekkert meira við þá,“ segir
Ellert og hlær. „Geir Hallgrímsson
var formaður á þessum tíma og ég
taldi hann vera mikinn vin minn.
Við höfðum unnið vel saman hjá
Reykjavíkurborg áður. Ég held að
Geir hafi sjálfur verið í vandræð-
um og ekki haft kraft eða tíma til
að hjálpa mér. Hann hafði nóg
með sjálfan sig. Geir var yndis-
legur maður en stundum allt of
kurteis. Og svo lenti hann í bar-
daga gegn Gunnari Thoroddsen.“
Urðu vinslit hjá ykkur?
„Nei, nei. Ég fór mína leið og
hann sína.“
Hvernig fór það saman að vera
ritstjóri dagblaðs og þingmaður?
„Ég var með annan fótinn á
þinginu og hinn á blaðinu. Skrifaði
til dæmis leiðarana niðri í þingi.
Þetta hafði þau áhrif á mig að sjón-
deildarhringurinn stækkaði. Þegar
maður er virkur í stjórnmálaflokki
og í baráttu um að komast til valda
þá verður maður að passa sig að
vera á réttri línu. En eftir að ég fór
að skrifa fyrir blað sem var frjálst
og óháð, þá þurfti ég að skoða alla
atburði í stærra ljósi. Ég þurfti að
taka tillit til þeirra sem voru ekki
endilega sammála mér.“
Hvernig var samstarfið við
Jónas?
„Jónas var frábær penni og
snillingur. Hann sagði það sem
honum sýndist, hvort sem það var
í leiðurum eða í samtali. Okkur
kom meira og minna vel saman.
Ég held að sameining Dagblaðsins
og Vísis hafi styrkt stöðuna og ver-
ið áfram í þeim anda sem Jónas
hafði skapað. Blaðið var frjálslynt
og hafði enga þræði til neinna sem
sögðu okkur fyrir verkum. Þetta
var frjálst og við fengum að skrifa
það sem okkur sýndist.“
Útvörpuðu úr kjöllurum
Ellert og Jónas störfuðu saman
í fimmtán ár og skiptu með sér
verkum. Jónas sá mestmegnis um
morgnana og Ellert síðdegið. Ell-
ert skrifaði einnig laugardagsgrein-
ar um margra ára skeið. Blaðið
rokseldist og fór upp fyrir Morgun-
blaðið á tímabili.
Dagblaðið og síðar DV voru
á þessum tíma leiðandi í barátt-
unni fyrir frjálsri og óháðri blaða-
mennsku. Einnig fyrir afnámi ríkis-
einokunar á ljósvakamiðlum. Þetta
var eitt af baráttumálum Ellerts á
þingi og þegar starfsmenn RÚV
fóru í verkfall árið 1983 gripu hann,
Jónas og eigendur blaðsins, Sveinn
Eyjólfsson og Hörður Einarsson, til
beinna aðgerða. Þá settu þeir upp
eigin útvarpsstöð, Fréttaútvarpið.
„Við settum upp stöðvar og
hlupum með þetta út um allan
bæ,“ segir Ellert og hlær. „Við tók-
um upp í einhverjum kjöllurum
og læddumst með upptökur á milli
húsa og hverfa. Svo var það mjög
dramatískt þegar lögreglan kom
og braust inn á skrifstofuna. Við
vissum að lögreglumenn væru á
leiðinni og ég steig þá fram og hélt
mjög alvörugefna ræðu. Ég talaði
nú ekki vel um þá, lögregluna og
meirihlutann í þinginu. En einnig
um hve mikilvægt það væri að til
væri fleiri en ein útvarpsstöð. Við
vissum að það sem við vorum að
gera var ólöglegt en létum það yfir
okkur ganga. Ég fékk meira að segja
dóm í héraði fyrir þetta. En honum
var reyndar vísað frá í Hæstarétti.“
Eftir þetta fór Ellert í þingið og
hélt langa og innblásna ræðu um
málið.
„Hún bar árangur. Ragnhildur
Helgadóttir var þá nýorðin
menntamálaráðherra og hún tók
undir margt af því sem ég sagði og
lét á það reyna að breyta lögunum
um ríkiseinokun.“
Ein minnisstæðasta upplifun
Ellerts hjá DV var á erlendri
grundu. Árið 1990 lýstu Eystrasalts-
ríkin yfir sjálfstæði frá Sovétríkjun-
um og Íslendingar voru fyrsta ríkið
til að viðurkenna það. Ellert fór þá
út til að kynna sér aðstæður.
„Á tímabili leit út fyrir að
Rússarnir myndu hefja innrás.
Jón Baldvin Hannibalsson stóð sig
ákaflega vel í þessu máli og bauð
okkur fulltrúum fjölmiðla út með
sér. Við ferðuðumst frá einu landi
til annars. Það var búið að hlaða
upp sementspokunum og stilla
upp byssum því að þeir bjuggust
við að Rússarnir kæmu þá þegar.“
Varstu smeykur?
„Nei, ég var það nú ekki, en mér
fannst þetta ógnvænlegt og það
hafði mikil áhrif á mig að upplifa
þetta ástand.“
Kratablóð í æðum
Ellert starfaði sem ritstjóri DV til
ársins 1996. Samhliða því hafði
hann starfað sem formaður
Knattspyrnusambandsins til ársins
1989 og árið 1991 var hann kjörinn
forseti Íþróttasambandsins. Þar að
auki starfaði hann innan UEFA,
knattspyrnusambands Evrópu.
Ellert var löngu búinn að kúpla
sig út úr öllum stjórnmálum þegar
hann dúkkaði, flestum að óvörum,
upp á lista hjá Samfylkingunni fyr-
ir kosningarnar árið 2003. Fjórum
árum síðar vann flokkurinn mik-
inn sigur og Ellert var aftur kjörinn
á þing, mjög óvænt að hans mati.
„Það voru einir þrír eða fjórir
flokkar sem vildu fá mig í framboð
með sér,“ segir Ellert. „Ég áttaði mig
á því að ég væri eftirsóttur og velti
því fyrir mér hvort ég ætti að fara
aftur í Sjálfstæðisflokkinn. En mér
fannst að flokkurinn hefði horfið
frá sinni gömlu meginstefnu um
stétt með stétt. Þá var flokkurinn
kominn langt til hægri og stefnan
var að auka frjálshyggju og minnka
eftirlit. Bankarnir voru seldir og
kvótinn gefinn. Það var aðeins ver-
ið að hjálpa þeim sem áttu mestu
peningana. Ég átti ekki samleið
með þeim lengur.“
Af hverju valdir þú Samfylk-
inguna?
„Mér fannst Ingibjörg Sólrún
góð og sá flokkur vera á réttri leið.
Sennilega var þetta líka í genunum.
Mamma mín, Aldís Brynjólfsdótt-
ir, og hennar fjölskylda voru alla
tíð miklir jafnaðarmenn. Hún kaus
alltaf Alþýðuflokkinn nema þegar
ég var í framboði fyrir Sjálfstæðis-
flokkinn. Mamma var krati.“
Árið 2007 fór Samfylkingin í
stjórn með Sjálfstæðisflokknum en
sú stjórn varð ekki langlíf. Í kjölfar
bankahrunsins var stjórninni slitið
og boðað til nýrra kosninga eftir að-
eins tvö ár.
„Mér fannst stundum sem ég og
mínir menn ættu sök á þessu, af því
að ég sat á þingi þegar þetta dundi
yfir. Þetta var gríðarlega erfiður
tími og við þurftum að taka margar
erfiðar ákvarðanir. En mér fannst
mitt fólk í Samfylkingunni standa
sig vel. Þegar ég lít til baka finnst
mér það hafa tekið Ísland mun
skemmri tíma að rísa en ég átti von
á. Auðvitað hafa utanaðkomandi
áhrifaþættir spilað þar inn í, ferða-
mannasprengjan og gott gengi í
fiskveiðum.“
Óttaðist þú að mótmælin færu
úr böndunum?
„Þau gerðu það og fólk gerði
árás inn í þinghúsið. Ég vissi ekki
hvar þetta myndi enda og hafði
áhyggjur af þessu. Ég hafði líka
samúð með því fólki sem lenti illa í
hruninu, og ekki aðeins þeim sem
stóðu úti á Austurvelli. Ég óttaðist
það ekki að út myndu bresta blóð-
ug átök en áttaði mig á því að þetta
var alvarlegasta tímabil sem ís-
lenska þjóðin hefði gengið í gegn-
um. Þetta hafði áhrif á alla sem
störfuðu í þinginu og fólk grét þar
innanhúss. En það var ekki hægt
að gera neitt samstundis, þetta
tók allt tíma. Mér fannst þetta vera
hugrekki hjá þeim sem stóðu vakt-
ina í ríkisstjórninni á þessum tíma.
Jóhanna stóð fyrir sínu.“
Vorið 2009 sá Ellert sína sæng
upp reidda og ákvað að best væri
að hleypa nýju fólki að til að takast
á við uppbygginguna eftir hrunið.
Stærsta stundin að ganga út á
Anfield
Ekki er hægt að sleppa Ellerti
án þess að ræða um fótboltann.
Hann lék allan ferilinn með sínu
heittelskaða KR, var fyrirliði, rað-
aði inn mörkunum og vann fjölda
titla. Markametið átti hann í um
hálfa öld og skorað samanlagt 119
mörk.
Var þetta rokkstjörnulíf?
„Það var náttúrlega ekki mikið
sýnt í sjónvarpi. Þannig að við vor-
um ekki frægar stjörnur, nema
bara hjá sumum. En við vorum
með mjög gott lið og unnum
www.gilbert.is
GEFÐU ÞEIM SEM ÞÉR ÞYKIR
VÆNT UM TÍMA UM JÓLIN
Landsliðsæfing Vísir 11. ágúst 1962
„Við tókum upp í ein-
hverjum kjöllurum og
læddumst með upptökur á
milli húsa og hverfa