Morgunblaðið - 06.10.2018, Síða 22

Morgunblaðið - 06.10.2018, Síða 22
VIÐTAL Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Um kvöldmatarleytið 5. október 2008 tók einkaþota á loft í Lundúnum og setti stefnuna á Reykjavík. Um borð voru þrír sérfræðingar fjárfestingarbankans J.P. Morgan. Verkefnið sem þeir höfðu fengið í hendurnar var í raun einfalt: að sannfæra ríkisstjórn Íslands um að lengra yrði ekki gengið í þeirri viðleitni að bjarga viðskiptabönkunum þremur sem stóðu á fjárhagslegum brauðfótum. Sendiförin var á fárra vitorði og allt til dagsins í dag hefur að- dragandi hennar ekki komið fram opinberlega. „Það var komið undir hádegi þennan sunnu- dag og ég var með konu minni og börnum. Þá hringdi síminn og fulltrúi Seðlabanka Íslands var hinum megin á línunni. Hann óskaði eftir því að ég hraðaði mér til Íslands því nauðsyn- legt væri að gera ríkisstjórninni grein fyrir því hversu alvarleg staðan væri. Ég leit á dag- skrána mína og sagði að honum væri óhætt að gera ráð fyrir mér á mánudag. „Nei, núna!“ var svarið. Ég hafði því samband við ritara minn, sem tókst að útvega þotu síðar um dag- inn.“ Reyndar eini Bretinn í hópnum Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er að- koma Michael Ridley og samstarfsmanna hans hjá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan rakin, einkum með orðum þeirra sem sóttu fundi í Ráðherrabústaðnum helgina 4.-5. október 2008. Þar er m.a. haft eftir Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi iðnaðarráðherra að „þrír prúðbúnir og vel mæltir yfirstéttar Bretar frá J.P. Morgan“ hafi verið kallaðir til fundar. „Það er reyndar ekki alveg nákvæmt hjá honum. Af okkur þremur var ég eini Bretinn. Hinir tveir voru þeir Johan Bergendahl og Gary Weiss. Johan er Svíi og Gary er Banda- ríkjamaður,“ segir Michael nokkuð sposkur á svip. „En ég hafði orð fyrir okkur á fundinum. Gary kallaði ég til vegna þess að hann er sér- fræðingur í samrunum og yfirtökum og Johan er sérfræðingur í málefnum Norðurlanda.“ Ridley segir að ætlunin hafi verið að lenda á Reykjavíkurflugvelli en aðstæður hafi verið með því móti að þeir hafi þurft að lenda í Keflavík. „Okkur var hraðað beint í húsið við Tjörnina [Ráðherrabústaðinn]. Þar biðum við í nokkrar klukkustundir meðan ríkisstjórnin fundaði. En það var um tvö um nóttina sem við vorum kall- aðir inn.“ En gerðir þú þér grein fyrir því að þú stefndir inn á fund sem myndi marka spor í sögu heillar þjóðar? „Bankar hrundu í mörgum löndum, Grikk- landi, Belgíu, Kasakstan, Bandaríkjunum, Ítalíu og víðar. En ég áttaði mig á því að það væri í raun einstök staða að allt stefndi í að allt bankakerfi eins ríkis stefndi í þessa átt. Það er algjörlega einstakt en það reyndist eftirleikur- inn einnig vera.“ Nú hafa læknar og prestar allnokkra þjálfun í að bera fólki váleg tíðindi. Hefur þú mikla reynslu af þessu tagi í þínu starfi? „Ekki tíðindi af þessari stærðargráðu. Ég vissi að vandinn væri mikill og að bankarnir myndu allir falla. Ég var auk þess sannfærður um að ríkisstjórnin gæti í raun ekki komið neinum vörnum við.“ En þurfti miklar fortölur til að koma stjórn- völdum í skilning um hvernig í pottinn væri búið? „Það er erfitt að átta sig á því. Ég held að sumir ráðherrarnir hafi verið búnir að átta sig á stöðunni og að hinir hafi gert það á þessum fundi. Það er að minnsta kosti ljóst að þegar honum lauk tók ríkisstjórnin stefnuna á neyðarlögin og þá aðferð að tryggja hagsmuni Íslands og íslensku þjóðarinnar með því að leyfa bönkunum að falla og vernda innstæður.“ En það er þó nokkur ráðgáta hvað réð því að ríkið tók ákvörðun um það 6. október, örfáum klukkustundum eftir fundinn með Ridley og samstarfsmönnum hans, að veita Kaupþingi þrautavaralán upp á 500 milljónir evra. Blaða- maður kemst ekki hjá því að spyrja hann út í þá ráðstöfun. Eftir nokkra þögn segir hann: „Þau ráðfærðu sig ekki við mig um þá ákvörðun.“ Fljótt verður ljóst að hann hyggst ekki tjá sig nánar um þennan þátt aðkomu sinnar að ráðgjöf við yfirvöld á Íslandi haustið 2008. Lengi starfað fyrir íslensk stjórnvöld En það er eflaust ekki augljóst af hverju þremur bankamönnum í London var hraðað um borð í einkaþotu og flogið til Reykjavíkur í þeim tilgangi sem hér að ofan er lýst en Ridley segir ástæðuna í raun einfalda. „Ég hafði lengi unnið með stjórnvöldum á Íslandi, bæði fjármálaráðuneytinu og Seðla- bankanum, við útgáfu og sölu ríkisskulda- bréfa. Ég kom hingað fyrst í þeim tilgangi árið 1994. En þegar óveðursskýin fóru að hrannast upp 2007 og 2008 fjölgaði ég heimsóknum mín- um til þeirra ríkja þar sem ég taldi hættuna vera að magnast. Ísland var þar á meðal.“ Og vegna tengsla sinna við íslensk stjórn- völd var Ridley fenginn að borðinu um mitt ár 2008 þegar verið var að kanna möguleikann á því að styrkja gjaldeyrisvaraforða ríkisins með nýrri skuldabréfaútgáfu. „Ég held að ríkið hefði getað safnað allt að milljarði dollara þegar þarna er komið sögu. En ég var einnig á þeirri skoðun að það væri ekki rétt. Í fyrsta lagi hefðu kjörin á þeirri út- gáfu orðið ríkinu mjög kostnaðarsöm, auk mik- illar áhættu samfara henni, og auk þess hefði milljarður dollara engan veginn dugað til að bakka bankakerfið upp.“ Hann segir að fjármögnun bankanna er- lendis hafi verið með þeim hætti að fljótt á litið hefði ríkið getað ýtt undir með þeim og bætt ástandið en að fjármögnun bankakerfis sé hins vegar flókið samspil ólíkra þátta sem ekki séu allir fyrirséðir. „Fjármögnunin var að mjög stórum hluta í erlendri mynt og ljóst að þeim tækist ekki að endurfjármagna þær skuldir sínar með hefð- bundnum hætti. Ríkið hefði getað stigið inn í en þá um leið hefðu fjárfestar áttað sig á að staðan var mjög alvarleg og þá hefði það staðið frammi fyrir því að bakka upp alla fjármögnun bankanna og til þess voru engir fjármunir.“ Þeir voru allir úr leik En var þá ekki hægt að bjarga neinum bankanna þegar þarna var komið sögu? „Það var ekki hægt. Ekki þremur, ekki tveimur og ekki einum. Það var orðið ljóst á þessum tímapunkti að það þyrfti að byggja upp nýtt greiðslukerfi og nýtt innlánakerfi á grunni nýrra banka.“ Össur Skarphéðinsson sagði í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fulltrúar J.P. Morgan hafi haldið því fram að ef ein- hverjum bankanna yrði bjargað, þá væri hugsanlegt að bjarga Kaupþingi. Ridley segir að þar sé líklegast um misskilning eða mis- minni að ræða. „Þetta hefði ég aldrei sagt. Ég vissi að það var ekki til nægur gjaldeyrisforði í Seðlabank- anum til að bjarga neinum þeirra. Eina at- hugasemdin sem ég kann að hafa látið falla á fundinum er að fjármögnun Kaupþings myndi halda eitthvað lengur en hinna bankanna, ein- faldlega vegna dagsetninga sem tengdust endurfjármögnunarþörf þeirra. Það var vitað að sú stund var runnin upp í tilfelli Glitnis strax í komandi viku, þá Landsbankanum og svo Kaupþingi. Auk þess hefði slík björgun kallað á að íslenskur almenningur hefði tekið á sig gríðarlegar skuldbindingar, líkt og gerðist þegar írska ríkið ákvað að bjarga sínum bönkum.“ Alþjóðlegur vandi sem kom afar hart niður á íslenska fjármálakerfinu Ekkert varð af útgáfunni en svo kom símtal- ið þann 5. október. Nú 10 árum síðar er ekki úr vegi að spyrja Ridley út í það að hversu miklu marki bankahrunið var heimatilbúinn vandi og hversu miklu alþjóðleg holskefla sem hag- kerfið varð fyrir. „Bankarnir sóttu gríðarlega fjármuni á er- lenda markaði þar sem lánsfé var ódýrt. Og þeir uxu gríðarlega. Ein meginástæðan fyrir því að þeir hrundu allir var sú staðreynd að þeir urðu alltof stórir í hlutfalli við hagkerfið þegar litið er til fjármögnunar þeirra í erlendri mynt. Það er ósennilegt að þeir hefðu allir hrunið ef þeir hefðu verið starfræktir innan lögsögu annarra og stærri ríkja. Þá hefði verið hægt að styðja við þá og koma þeim í gegnum mestu erfiðleikana í von um að þeir myndu ná sér á strik að nýju. En þá áhættu gátu íslensk stjórnvöld ekki tekið, og máttu ekki taka að mínu mati.“ Ridley var meira og minna hér á landi það sem eftir leið af árinu 2008 og var stjórnvöld- um til ráðgjafar um þau skref sem nauðsynlegt reyndist að taka í endurreisnarstarfinu. Hann segir það hafa verið fróðlegt að fylgjast með mörgum þeirra mála sem til úrlausnar voru. Þar rísi án efa hátt deilan sem kom upp í tengslum við Icesave-reikninga Landsbank- ans. Hann segist sannfærður um að Íslend- ingar hafi gert rétt í þeirri stöðu, þ.e. að hafna samningaleiðinni. „Ég skil að á sínum tíma hafi verið fólk sem vildi semja en eftir á að hyggja var rétt að gera það ekki. Þetta var óvanaleg staða. Íslenskir bankar tóku við innlánum í öðru landi. Það er áhugavert til þess að hugsa hvað stjórnvöld víða voru værukær gagnvart þeirri staðreynd að bankar voru að taka við innlánum í öðrum ríkjum en þeim þar sem þeir höfðu höfuð- stöðvar sínar. En ég get ekki betur séð en að stjórnvöld hér á landi hafi leitt með réttum hætti í lög það innstæðutryggingakerfi sem til- skipanir Evrópusambandsins gerðu kröfu um. Þegar stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi gerðu kröfu til þess að íslensk stjórnvöld ábyrgðust þessar innstæður var rétt að vísa á trygging- arnar og þrotabú bankanna. Skyldan kvað ekki á um annað en það.“ Ekki átti að semja um Icesave Þannig að þú telur að Íslendingar hafi ekki gert mistök með því að hafna Icesave- samningunum? „Nei alls ekki. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar höfðu á réttu að standa.“ Þeir sem töldu samningaleiðina hina réttu lausn á ágreiningi milli ríkjanna hafa gjarnan bent á að með þrasinu í kringum málið hafi dýrmætur tími tapast sem í raun hafi kostað Íslendinga miklu meiri fjármuni en það hefði kostað að ganga að kröfum Breta og Hollend- inga. Hver er þín afstaða til þeirra röksemda? „Það er afar ósennilegt að það standist skoð- un. Það eru litlar líkur til þess að íslenska hag- kerfið hefði getað náð sér hraðar á strik en raun bar vitni. Það er mjög erfitt að hraða bat- anum langt umfram það sem gerist í stærstu viðskiptalöndunum. Endurreisnin hér hefur í raun gengið gríðarlega hratt og ekkert sem bendir til þess að það hefði getað gerst hraðar.“ Nú þegar áratugur er liðinn frá örlagaríkum fundahöldum í Ráðherrbústaðnum á Ridley reglulega leið hingað til lands. Það tengist bæði viðskiptaerindum en einnig þeirri stað- reynd að hann segist kunna afar vel við sig hér. „Við komum hingað fjölskyldan og finnst frábært að dvelja hérna. Ég er auk þess afar bjartsýnn á stöðu Íslands á komandi árum. Það eru áskoranir fram undan eins og alltaf og þið þurfið að tryggja unga fólkinu spennandi störf við hæfi. En þið eruð öfundsverð af upp- gangi ferðaþjónustunnar, háu atvinnustigi, skuldastöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og stöðu ríkissjóðs.“ Af orðum Ridleys að dæma gerir hann ekki ráð fyrir því að fá í bráð símtal á borð við það sem barst frá Íslandi haustið 2008. Á ferðum hans hingað er engin þörf á einkaþotum eins og raunin var 5. október fyrir áratug. Bankarnir urðu að fá að falla Morgunblaðið/Hari Hrun Michael Ridley hefur ekki áður rætt opinberlega um aðkomu sína að málefnum Íslands haustið 2008. Hann fékk það óvenjulega verkefni upp í hendurnar að sannfæra ríkisstjórn Íslands um að ekki væri hægt að bjarga bönkunum þremur frá gjaldþroti þrátt fyrir góðan vilja þar um.  Það kom í hlut Michaels Ridley að sannfæra ríkisstjórn Íslands um að bankakerfinu yrði ekki bjargað  Segir Íslendinga hafa gert rétt í Icesave-deilunni  Veitti ekki ráðgjöf um neyðarlánið til Kaupþings 22 FRÉTTIRViðskipti | Atvinnulíf MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. OKTÓBER 2018

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.