Heimsmynd - 01.11.1991, Blaðsíða 16
llir innan utanríkisþjónustunnar sem blaðamaður
HEIMSMYNDAR náði tali af voru afar óánægðir
með þessa ráðningu og sögðu hana hreint hneyksli.
Sama var að segja um fræðimenn og stjórnmála-
menn. Flestir voru ólgandi af reiði vegna þessarar
ráðningar en einhverra hluta vegna ófúsir að tjá sig
opinberlega um þetta mál og jafnframt önnur mál
er varða utanríkisþjónustuna - hverju sem það
kann svosem að sæta.
Steingrímur Hermannsson fyrrverandi forsætis-
ráðherra hefur hingað til neitað að tjá sig um þetta
mál en sagði þó þetta í samtali við HEIMSMYND:
„Þó ég hafi síður en svo eitthvað á móti Jakobi Magnússyni,
þá er þetta afar óvenjuleg ráðning og brýtur allar hefðir í ut-
anríkisráðuneytinu. Auk þess spyr maður sjálfan sig: Hvar var
heimildin fyrir menningarfulltrúa í London? Staðreyndin er sú
að þetta unga fólk sem ræðst til starfa í utanríkisráðuneytinu
kemur ekki síst til starfa í voninni um störf erlendis - ekki
launanna vegna - og yfir það er gengið með þessari ráðningu.
Þar að auki er þetta algjörlega flokkspólitísk ráðning. Ég er
ekki að segja að ég hefði ekki tekið Framsóknarmann af
tveimur jafn góðum en sé ekki að öðrum hafi boðist þessi
staða.“
„Þetta er alveg fráleit ráðning og reyndar hafa ráðningar
innan þjónustunnar verið ákaflega sérkennilegar í seinni tíð,“
sagði einn virtasti sendiherrann í utanríkisþjónustunni í sam-
tali við HEIMSMYND, og bætti því við að þessi ráðning væri
sérstaklega varasöm þar sem Jakob yrði í þeirri stöðu að vera
númer tvö í sendiráðinu sem þýðir það að ef sendiherrann er
fjarverandi af einhverjum ástæðum gegnir Jakob sendiherra-
embættinu á meðan og sinnir þeim skyldum
sem því embætti fylgir án þess að hafa nokkra
reynslu innan þjónustunnar. Hann þyrfti því
að ganga á fund drottningarinnar ef svo bæri
undir.
Jón Baldvin benti á ráðningu Kristjáns Al-
bertssonar máli sínu til stuðnings. Mörgum
þykir sú samlíking fráleit þar sem Kristján var
búinn að starfa í mörg ár innan utanríkisþjón-
ustunnar áður en honum var boðin staða
menningarfulltrúa. Hann er auk þess annálað-
ur menningarsinni.
Ráðningu hans bar að eftir að hann lét af
störfum hjá utanríkisþjónustunni. Þá ákvað Kristján að setjast
að í París þar sem hann var gerður að heiðursfulltrúa hjá
sendiráðinu og samið var um að gripið yrði til hans sem menn-
ingarfulltrúa þegar á þurfti að halda. Hann var semsé ekki í
fulllaunuðu starfi sem menningarfulltrúi í París en það verður
hins vegar Jakob Magnússon í London.
Aðurnefndur sendiherra talaði um að upp á síðkastið hefði
komið upp misbrestur vegna vanhæfni ákveðinna starfsmanna
utanríkisþjónustunnar sem væri slökum inntökuskilyrðum að
kenna:
„Persónulega finnst mér að það ætti að gera miklu meiri og
strangari kröfur til starfsmanna utanríkisþjónustunnar en hafa
verið gerðar í seinni tíð, til dæmis kröfur um góða tungu-
málakunnáttu og háskólamenntun. Einnig skiptir upplag
manna miklu máli því að í samskiptum ríkja gilda kurteisis-
reglur og siðvenjur sem eru til að fyrirbyggja árekstra. Sér-
viska og merkilegheit eiga ekki heima í utanríkisþjónustunni.
Inn á milli starfa þarna ágætis menn en ráðningar af þessu tagi
mega ekki halda áfram mikið lengur," sagði hann.
Pólitískar ráðningar eru reyndar ekkert nýnæmi í utanríkis-
ráðuneytinu. Undanfarin tíu til fimmtán ár hafa fjölskyldu-
tengslin og pólitíkin innan ráðuneytisins orðið æ meira áber-
andi:
„Þeir herrar sem starfa innan utanríkisþjónustunnar eru
verðlaunagæðingar pólitískrar þjónustu eða ættartengsla.
Þarna er ekki snefil af fagmennsku að finna. Utanríkisþjón-
ustan er líklega eini opinberi starfsvettvangurinn í landinu þar
sem nútíma fagmennska og samkeppni hafa ekki komist að,“
sagði fyrrverandi ráðherra í samtali við HEIMSMYND.
Þeir menn sem ráðnir voru á faglegum grunni áratug eftir
stríð og gegna margir hverjir lykilembættum eru smám saman
að hverfa frá völdum. Með þessu áframhaldi spá margir fróðir
menn því að eftir einn til tvo áratugi munum við enda með
mjög vanhæfa utanríkisþjónustu - „með dekurbörnin“ á æðstu
stöðum, eins og einn stjórnmálamaður komst að orði.
Dæmi um ættartengsl innan þjónustunnar eru: Sveinn
Björnsson núverandi skrifstofustjóri og sendiherra er sonur
Hinriks Sveinssonar Björnssonar heitins sendiherra en afi
Sveins og jafnframt faðir Hinriks var Sveinn Björnsson for-
seti. Núverandi sendiherra í Bonn er Hjálmar W. Hannesson,
sonur Hannesar Jónssonar sendiherra. í utanríkisþjónustunni
er einnig Pétur Thorsteinsson sem vinnur í viðskiptadeild ut-
anríkisráðuneytisins en faðir hans er alnafni og sendiherra.
Tómas Karlsson starfsmaður utanríkisþjónustunnar er fyrrum
ritstjóri Tímans. Hann var ráðinn 1974 þegar Einar Agústsson
fór með utanríkismál. Hann og Sverrir Haukur Gunnlaugsson
sendiherra hjá NATO þykja sláandi pólitískir gæðingar.
Margir þessara manna þykja „diplómatar“ fram í fingur-
góma hvað sem öllum pólitískum ættartengslum líður en það
breytir því ekki að hópurinn innan utanríkisþjónustunnar er
ansi samofinn þeim mönnum sem hafa farið með æðstu völd í
þessu landi. Menntun starfsmanna utanríkisþjónustunnar þyk-
ir einnig fremur einsleit og í sumum tilvikum ekki sæmandi
æðstu embættum, þeir eru ýmist lögfræðingar, stjórnmála-
fræðingar eða viðskiptafræðingar að mennt en mjög fáir þeirra
menntaðir í alþjóðamálum.
Þess má geta að í löndum eins og Bretlandi er orðið æ al-
gengara að menn með mikla menntun í hinum svokölluðu
„húmanísku“ greinum fái góðar stöður í utanríkisþjónustunni.
Þekktur stjórnmálamaður á vinstri vængnum taldi að ein af
meginástæðunum fyrir því að ættartengslin væru svo sterk inn-
an utanríkisþjónustunnar væri sú að margir núverandi starfs-
manna þess hafi alist upp við þann lúxus sem diplómatar lifa
við og það Iíf sem enginn íslendingur hefur fengið að upplifa í
sínu heimalandi, eins og að búa í glæsilegum einbýlishúsum,
vera ekið um af einkabílstjórum, hafa þjónustufólk, með öðr-
um orðum að hafa lifað við hirðlífsstíl sem þeir vilja ómögu-
lega missa. Island er þeim framandi. Afkomendur sendiherr-
anna og starfsmanna utanríkisþjónustunnar sækja því fast í
þessi störf og eru teknir inn á lægri stigum utanríkisþjónust-
unnar, oft án mikilla prófa. Þeir eru svo færðir upp á við þeg-
ar stöður losna, samkvæmt þeirri hefð sem þar er ríkjandi.
En sögulega má rekja uppbyggingu utanríkisþjónustunnar
til tíma einveldisins. Þá var hún í nánum tengslum við kon-
ungaveldið og af þeirri ástæðu stafa öll þau sérréttindi sem
menn vilja ekki láta af hendi.
Pétur Eggertz fyrrum sendiherra gagnrýndi ráðningar í ut-
anríkisþjónustunni fyrir réttum 20 árum í bók sinni Létta leið-
in ljúfa: Hreinskilin frásögn af lífi og starfi í utanríkisþjónust-
unni. Þar komst hann svo að orði:
„Þá sendiherra okkar erlendis, sem búnir eru að venja sig á
hóglífi og eru ófáanlegir til að takast á við ný verkefni, skulum
framhald á bls. 88
Þetta er alveg fráleit ráðning og
reyndar hafa ráðningar innan
þjónustunnar verið ákaflega
sérkennilegar í seinni tíð.
16 HEIMSMYND