Morgunblaðið - 27.09.2019, Síða 23

Morgunblaðið - 27.09.2019, Síða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. SEPTEMBER 2019 hans og Steinu hefur alltaf verið manni opið og alltaf tekið svo hlý- lega á móti manni þó að heim- sóknunum hafi fækkað síðustu ár. Samverustundirnar hjá fjöl- skyldunni hafa verið margar síð- ustu daga og margar minningar um Halla hafa verið rifjaðar upp og höfum við bæði grátið og hleg- ið saman yfir þeim. Mikið hefur verið hlustað á tónlistina hans Halla og hefur það veitt manni hlýju í gegnum þessa erfiðu daga. En nú er komin ró hjá hon- um elsku Halla okkar. Þín er svo sárt saknað, elsku Halli frændi. Elsku Steina, Steinar, Reynir, Sölvi, Íris og Alda, amma og afi, mamma, Linda og Gulli og bara öll fjölskyldan okkar, það er búið að vera erfitt að kveðja elsku Halla okkar en ástin og hlýjan sem kemur frá samveru okkar hjálpar okkur í gegnum sorgina. Ég elska ykkur öll. Kristrún frænka. Elsku hjartans Halli frændi. Með sorg í hjarta kveðjum við þig, elsku strákurinn okkar. Við erum þakklátar fyrir að hafa fengið að vera partur af þínu lífi. Takk fyrir hláturinn, gleðina og samfylgdina gegnum lífið. Megi algóður Guð þína sálu nú geyma, gæta að sorgmæddum, græða djúp sár. Þó kominn sért yfir í aðra heima mun minning þín lifa um ókomin ár. (Sigríður Hörn Lárusdóttir) Steinu Möggu, Steinari, Reyni, Sölva og tengdadætrum, mömmu þinni og pabba, Gulla, Hjördísi, Lindu og fjölskyldum, sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við elskum þig. Þínar frænkur, Halla, Helga, Erla, Sigrún og Stella. Ég gleymi aldrei þegar við hittumst fyrst Halli. Það var á Rauðarárstíg 7, ég var að fara að hitta nýja kærastann hennar Steinu systur. Ég gekk upp stig- ann en þú varst á leið niður. Þú heilsaðir mér vingjarnlega. Ég hélt áfram upp á næstu hæð og þar mætti ég þér aftur og aftur kastaðir þú á mig vinalegri kveðju. Ég stóð ringlaður eftir, en áttaði mig síðar á því að þetta var bara hann Gulli bróðir þinn. Má ég nokkuð þvo bílinn þinn? Ætli þetta hafi ekki verið með fyrstu samtölum okkar heima á Vígholtsstöðum. Það var auðsótt mál að fá að þvo bílinn þinn. Þú tókst mér svo vel frá fyrstu kynnum, Halli minn, og vinátta okkar hefur verið traust og trú alla tíð og fundir okkar verið margir þar sem við deildum dag- legum raunum okkar, jákvæðum sem neikvæðum. Við hittumst í sumarhúsinu ykkar Steinu helgina sem þú féllst frá og átt- um innilegt og gott samtal. Það var gott. Þú varst svo einstakur maður, Halli, og þú átt þátt í svo mörgum fallegum púslum í mínu lífi og ég get nefnt svo margt. Ég á svo yndislega minningu þegar þú varst að taka upp fyrsta disk- inn þinn, Undir hömrunum háu. Þú lofaðir mér að vera með þér og fylgjast með öllu ferlinu, þeg- ar lögin voru tekin upp í stúd- íóinu og þegar þú fórst upp í Borgarfjörð að taka myndina framan á diskinn. Þú varst vinur minn og bróðir, og þannig hefur það alltaf verið. Ég er svo þakk- látur fyrir að hafa fengið húsa- skjól hjá þér og Steinu í Mar- íubakka og Jörfabakka þegar ég var í framhaldsskóla. Eftir að ég fékk bílpróf keyrði ég þig stund- um út á land þegar þú varst að spila og ég var í miðasölunni. Þú brostir og talaðir oft um það hvað það væri fínt að hafa mig í miða- sölunni því þá fengir þú pen- ingana slétta og rétt flokkaða. Við töluðum oft um söguna þegar við vorum á leiðinni vestur einn veturinn og ég gekk á undan í blindbyl til að finna stikurnar og við fengum gistingu á sveitabæ. Og það þurfti endilega að vera eini sveitabærinn þar sem ekki var neitt sjónvarp. En við spil- uðum og töluðum fram á nótt og komumst í sveitina okkar daginn eftir. Við fórum stundum saman að veiða en það var alltof sjaldan. Takk fyrir alla hjálpsemina þeg- ar ég þurfti einhvern til að hjálpa mér við að leggja parket, flísar eða eitthvað í þá áttina. Og síðast en ekki síst langar mig að þakka þér sértaklega fyrir ástina sem þú sýndir strákunum mínum alla tíð. Hvað við erum þakklátir fyrir bátsferðirnar og fyrir örlætið þitt varðandi fjórhjólin þín. Þau hafa veitt okkur mikla gleði í gegnum árin. Helgina 13-15. september síðastliðinn fór ég vestur með strákana mína eins og svo oft áð- ur. Þú fórst líka vestur. Þú varst að fara að hjálpa Jóa og fjöl- skyldu í Gröf við að smala. Sam- band ykkar Jóa og fjölskyldu var einstakt og fallegt og þú varst að koma vestur til þess að hjálpa þeim við að smala fénu heim. Ég fékk mér göngutúr til þín þessa helgi og við spjölluðum saman vel og lengi eins og við gerðum svo oft í sveitinni þegar við hittumst. Þegar ég skrifa þetta er ég í raun ekki enn búinn að átta mig á því að þú sért farinn frá okkur, Halli minn, en minningarnar um þig eru fallegar og þær hafa heldur betur verið sagðar síðustu daga og munu verða sagðar um ókomna daga og ár og tónlistin þín og textar munu hljóma áfram. Takk fyrir að hafa verið svona góður við fólkið þitt, strák- ana mína og foreldra mína alla tíð. Ást og friður. Sigurður mágur. Meira: mbl.is/minningar Lyngið er fallið að laufi holtin regnvot og hljóð kvöldskin á efsta klifi. (Snorri Hjartarson) Í apríl 1988 kom Steina Magga æskuvinkona mín í heimsókn, með glampa í augum, sagðist hitt Halla Reynis og nú væri alvara á ferðum. Við höfðum kynnst hon- um löngu fyrr vestur í Dölum á unglingsárum okkar og reyndar vorum við öll saman á fæðing- ardeildinni í desember 1966. Ég var ekki sannfærð um að Halli væri nógu góður fyrir Steinu Möggu en ég hafði vitaskuld rangt fyrir mér. Þegar ég kynnt- ist honum betur komu í ljós mikl- ir mannkostir, hæfileikar, hlýja og húmor. Halli sagði allt sem hann meinti og meinti allt sem hann sagði. Þó gat hann skreytt frásagnirnar eins kom í ljós þeg- ar ég tók við hann blaðaviðtal í den, og hann sagðist hafa veitt 18 punda lax. Þegar viðtalið birtist spurði hann mig hvort ég hefði virkilega trúað þessu og við hlóg- um mikið. Ég hafði auðvitað ekki hundsvit á eðlilegri stærð laxa. Halli átti auðvelt með að kynn- ast fólki og eignast vini. Ég held að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu marga hann snerti á lífsleiðinni og hversu mikið hann gaf af sér. Meistararitgerðin hans um Vesturfarana varð mér mikill innblástur þegar ég skrif- aði mína ritgerð. Tónlistin hans var ómetanleg, gítarsnilld hans einstök og eftir hann liggja á annað hundrað lög. Ég verð að minnast á „Halla- kvöldin“ sem ég hef haldið heima, oftast ein með tónlistina hans í botni og hef sungið hástöf- um með (og ég sem aldrei syng). Nú hefur Halli slegið síðasta tóninn, en ég mun ávallt sjá hann fyrir mér með gítarinn, léttan á fæti með bros á vör. Ég kveð hann með þakklæti og virðingu fyrir allt sem hann var. Elsku Steina Magga, Steinar, Reynir, Sölvi og fjölskylda, ykk- ar er sorgin sárust en það er gott að eiga góðar minningar og þær lifa áfram. Við Gylfi sendum inni- legar samúðarkveðjur. Guðrún Vala Elísdóttir. Okkur vinkonunum brá mjög við er við fréttum að Halli Reynis æskuvinur okkar væri látinn. Við kynntumst honum í gegnum Steina æskufélaga hans er Sessa byrjaði með Steina í kringum 1982. Við kynntumst Halla mjög vel því Halli og Steini voru alltaf saman á þessum árum og við vin- konurnar eyddum miklum tíma með þeim. Ýmislegt var brallað: rúntað á Coltinum hans Steina út um allan bæ og niður á plan. Í þessum ferðum spiluðum við músík af kassettum, hlýddum mikið á t.d. Bubba Morthens, Simply Red, UB40, Phil Collins, Bowie og iðulega sungum við há- stöfum með í bílnum og var glatt á hjalla. Við fórum í margar útilegur með Halla, t.d. í Þórsmörk, Húsafell og á Þingvelli. Oft talaði Halli um Dalina, sem hann hafði tekið ástfóstri við. Hann hafði farið á sveitaböll þar, átti þar rætur og smíðaði sér síðar fallegt sumarhús þar. Við eyddum mörgum stundum saman heima hjá einhverju okkar og var mörg- um notalegum og ógleymanleg- um kvöldstundum eytt í að hlusta á tónlist og spila á gítar sem Kristín hafði eignast og Halli var hugfanginn af. Við skemmtum okkur saman á gamlárskvöld mörg ár í röð. Stundum fórum við í bíó, horfð- um á hryllingsmyndir heima hjá Halla eða einhverri í vinkvenna- hópnum. Síðan var rætt um myndirnar á eftir. Halli var ómissandi í félagsskapinn okkar. Þegar Sessa og Steini hættu saman á föstu, þá hélt samt vin- áttan við Halla áfram í mörg ár á eftir, og hann kom í hittinga, partí og veislur alveg þar til flest- ar okkar voru komnar í sambúð og með ung börn, en fljótlega upp úr því kynntist hann Steinu sinni og þá fór samband okkar við hann að minnka, eins og gengur og gerist í lífinu. Halli var einstakur. Hann var alltaf glaðbeittur, frjór og hug- myndaríkur. Á þessum tíma var hann ekki byrjaður í tónlist, en hafði augljóslega mikinn áhuga og þessi hópur gerði einmitt mik- ið af því að hlusta á alls konar tónlist. Halli var mjög skapandi persóna, og hafði hlýja góða og heilandi návist. Það var aldrei neitt vesen kringum hann, og hann var einstakur vinur okkar allra. Hann talaði oft mikið um áhugamál sín, hafði skoðanir á öllu en alltaf á jákvæðan hátt, al- veg sama hvað, þá heyrðum við hann aldrei hallmæla neinum eða tala illa um neinn. Það var gaman að vera í kringum Halla og alltaf var verið að gera eitthvað áhuga- vert og skemmtilegt eða bara spjalla og hlæja saman. Elsku Halli, hjartans þakkir fyrir vináttuna og samfylgdina kæri vinur. Við munum aldrei gleyma þér. Við biðjum guð að styrkja og blessa Steinu eiginkonu Halla og syni þeirra þrjá í þessum mikla missi og sorg. Þú ert farinn en ég er hér. Skuggi sem að líkist þér, er hér alla daga hverja nótt. Blómin fölnuð, ryðguð hlið, enginn til að tala við Ég heyri í þér samt en allt svo hljótt. Í garði mínum rotin beð enginn til að syngja með. Minningin um þig er allt mitt ljós. Augun eins og stjörnur tvær gleðin líkt og lindin tær andlitið sem nýútsprungin rós. Allt hið góða er í þér. Allt það sem þú vildir mér. Eins og verið hefði í gær. Draumurinn sem hjartað grær, er þokast aðeins nær og nær. Ef ég hefði vængi þá kæmi ég til þín. Ef ég hefði vængi þá flygi ég í myrkrinu til þín. Gegnum skýjamúrinn klíf, til að eiga með þér líf. (Halli Reynis) Frá æskuvinkonum Halla úr Breiðholti; Sesselja Björk Barðdal, Kristín Ragnhildur Sigurð- ardóttir, Edda Þórðardóttir, Esther Hlíðar Jensen, Ásta María Jensen, Kristín Þórð- ardóttir og Elín Ellingsen. Elsku Halli minn. Það voru erfiðar fréttir að heyra að þú hefðir kvatt okkur alltof snemma. En þær óteljandi minningarnar sem þú skilur eftir verða mér ómetanlegar. Allar leiksýningarnar sem við unnum að saman, tónleikarnir hjá sam- spils hópnum þínum og allir hinir viðburðirnir sem við unnum að saman í skólanum. Ef það kom fyrir að við vorum fram yfir úti- vistartíma okkar þá passaðir þú alltaf upp á að tæknistrákarnir þínir kæmust öruggir heim, ef við höfðum ekki far heim bauðstu okkur alltaf far þó að sumir okk- ar væru í hinum enda hverfisins. Í þessum bílferðum sagðirðu okkur ýmsar sögur, hvað það hefði verið frábær upplifun að spila fyrir fullum Eldborgarsal Hörpu þegar þú tókst þátt í Eurovision um árið. Hvað þú værir að bralla í sveitinni hjá þér fyrir vestan og er mér minnis- stætt þegar þú sagðir mér frá því stoltur að þú værir að fara að kaupa þér 66-árgerð af Massey Ferguson-traktor. Svo fékk mað- ur reglulega að heyra hjá þér demo af nýjum lögum sem þú varst að spá í að hafa á næstu plötu eða senda inn í næstu Eurovision-keppni. Þú kenndir mér að vera ófeim- inn við að kanna nýjar slóðir í áhugamálunum mínum. Þú varst alltaf tilbúinn að hlusta þegar maður kom með hugmyndir að því hvernig væri hægt að gera hlutina og leiðbeindir manni ef maður var kominn í ógöngur. Það verður mér minnisstætt þegar þú hringdir í mig nokkrum árum eftir að ég kláraði grunn- skólann og þú baðst mig um að- stoð með tæknimálin þar sem það væri mikið að gera hjá þér og þú hefðir ekki alveg tíma í að sinna þeim. Ánægjan yfir því að þú skyldir hringja í mig og treysta mér fyrir því að koma og aðstoða þig og ykkur í skólanum var gríðarlega mikil. Þú vannst frábært starf í að vera með góðan tækjabúnað og ala upp góða tæknimenn. Takk fyrir allt, Halli minn, þín verður sárt saknað. Yfir hafið Læt ég huga minn leita við hafið horfnum stundum er sköpuðum við. Manninn ólstu jú mest, niður við hafið þangað held ég og finn þar frið. Sorgin köld líkt og úthafsalda, og hún faðmar mig þétt upp að sér. En með minningasæng, ég mun áfram halda hún vekur upp von og yljar mér. Hvað þú undir þér nú vel, við hafið finnst sem sértu hérna enn, með mér. Ó það sagt ég get með sanni, hitt ég hef ei betri mann. Hvar sem þú ert, vil ég muna þig. Þú sem hafðir á því lag að gleðja, og því græt ég það sem áður var. Lífið endaði skjótt, þurftir að kveðja. Svo hittumst á ný við stjörnurnar. (Ævar Unnsteinn Egilsson) Þinn vinur og gamall nemandi, Fannar Freyr Eggertsson. Ég var staddur erlendis þegar mér bárust þær hræðilegu fréttir að Halli vinur minn og félagi væri látinn. Við kynntumst fyrir rúm- um 20 árum þegar hann kom að máli við mig og bað mig um að spila með sér eina helgi. Eftir það urðum við góðir vinir og unn- um mikið saman í tónlist. Við ferðuðumst um landið vítt og breitt og spiluðum tveir saman. Tók ég þátt í þremur hljómplöt- um hans sem er mér mjög dýr- mætt. Halli var mjög flinkur tón- listarmaður, góður gítarleikari, söngvari og afbragðs textahöf- undur. Það var eins og lög og textar rynnu frá honum fyrir- hafnarlaust. Halli var að upplagi trúbador og hafði einstaka hæfi- leika til að ná til fólks með ein- lægni sinni og látlausri fram- komu. Það er þungbært að horfa á eftir góðum vini hverfa af sjón- arsviðinu langt fyrir aldur fram. Ég á eftir að sakna hans mikið og kveð hann með sorg í hjarta. Tónlist hans mun lifa og ylja okk- ur sem eftir lifum. Sendum við Linda Steinunni og fjölskyldu hans innilegar sam- úðarkveðjur. Örn Hjálmarsson. Við Halli kynntumst í gegnum tónlistina fyrir um tveimur ára- tugum og snérust í fyrstu að mestu um tónlistina. Halli hafði forgöngu um að við Fræbbblarnir spiluðum í Kaup- mannahöfn og við Fræbbblar gáfum út lagið hans „Fölar rós- ir,“ sem hann söng með okkur. Honum fannst við spila lagið frekar hratt á fyrsta rennsli á sameiginlegri æfingu og ætlaði að stinga upp á að við prófuðum aðeins rólegri gír. En áður en hann komst að var ég búinn að segja við hann „flott lag, virkar vel ... en við þurfum reyndar að spila það talsvert hraðar!“. En ágæt kynni frá tónlistinni þróuðust fljótt í annað og meira. Við hjónin hittumst reglulega yf- ir góðum mat, fórum nokkrum sinnum saman í frí og fjölskyld- urnar kynntust í framhaldinu, Halli hjálpaði syni okkar, Guð- jóni, við upptökur, sat og glamr- aði á gítar með Viktori og hvatti áfram – og Sölvi kom með okkur og foreldrum sínum til Spánar í eftirminnilegt sumarfrí – svo eitthvað sé nefnt. Á ensku er víst talað um að klæðast hjartanu utan á erminni, Halli var fullur orku, gefandi, áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur, einlægur og heiðarlegur – húmorinn alltaf til staðar og hann var óhræddur við að segja það sem honum fannst. Halli hafði í rauninni allt, góða fjölskyldu, einstaka eiginkonu og hæfileikaríka syni sem hann var stoltur af. Hann var frábær laga- og textahöfundur, kennari sem kveikti tónlistaráhuga hjá nem- endum með óvenjulegri og lifandi nálgun – og skemmtilegur sögu- maður – bæði með og án tónlist- ar. Erfiður sjúkdómur kom í veg fyrir að hann yrði lengur með okkur, hans verður sárt saknað, en við eigum allar minningarnar um allar góðu stundirnar og öll frábæru lögin. Iðunn Magnúsdóttir, Valgarður Guðjónsson. Ég var svo heppinn að eignast Halla Reynis að samstarfsfélaga þegar ég kom til starfa við Öldu- selsskóla sem skólastjóri haustið 2012 og meðfram samstarfi okk- ar þróaðist góð vinátta. Halli var ótrúlega skapandi og hæfileika- ríkur á mörgum sviðum þó að tónlist og textar standi auðvitað þar upp úr. Hann var söngva- skáld og lögin hans munu án efa halda minningu hans lengst á lofti. Mér er þó efst í huga minn- ingin um góðan og skemmtilegan dreng sem lét sér annt um fólkið í kringum sig, börnin í skólanum og samstarfsfólkið. Hann var góð manneskja hann Halli og það er jú, þegar upp er staðið það sem mestu máli skiptir. Hann var góð manneskja og var góður við fólk- ið í kringum sig eins og hann gat. Hann elskaði fjölskylduna sína, var óskaplega stoltur af drengj- unum sínum og elskaði og virti Steinunni konuna sína og fann í henni klettinn sem hann vissi að hann þurfti. Eina manneskjan sem, mér vitanlega, hann mat hugsanlega ekki að verðleikum og var ekki nógu góður við var hann sjálfur. Eins og stundum er með skap- andi fólk var opið inn í kvikuna á Halla og tilfinningarnar sveifluð- ust í takt við það. Það sást alltaf á honum á kaffistofunni. Stund- um var hann hrókur alls fagn- aðar, stundum uppfullur reiði gegn ranglæti og stundum var yfir honum eitthvert drungaský. Hann átti í sinni baráttu og var ófeiminn að tala um það. Hann var líklega oft „með óttann innan klæða“ um að tapa þeirri baráttu og kannski varð það honum um síðir um megn. Já, hún verður oft „banvæn biðin fyrir blásak- lausan þegn“ svo ég vísi í texta eftir hann sjálfan. Og nú er hann farinn úr þess- ari tilveru – allt of snemma. Hvar sem hann er núna er hann vafalaust velkominn aufúsugest- ur og örugglega enn með gítar- inn í hendi. Ég sakna hans þó að samband okkar síðasta árið hafi verið minna en skyldi. Það er sárt að missa góðan vin og félaga og eiga ekki framar í vændum spjall um lífið, pólitík, skáldskap- inn, smíðar, fótbolta eða annað sem skiptir öllu og engu máli. Eftir sitja ótal góðar minningar og tónlist sem ég mun ylja mér við. Hugur minn er hjá samstarfs- fólki okkar í Ölduselsskóla en einkum fjölskyldunni sem hefur misst svo mikið; eiginmann og föður, félaga og vin. Steina, Steinar, Reynir og Sölvi, megi almættið styrkja ykkur á þess- um erfiðu tímum. Kær kveðja, Börkur. Elsku Halli minn! Það er svo stutt síðan þú hringdir í mig. Eins og svo oft áður til að ræða tónlist og texta. Síðan við kynnt- umst fyrir 15 árum höfum við sent hvor öðrum upptökur alveg hægri vinstri. Lifandi samband, oft rafrænt á milli landshluta. Nú síðast 9. maí sendir þú mér tvö lög. Það er svo stutt síðan við sát- um saman í Breiðholtinu, sveit- inni þinni. Við ræddum eins og svo oft áður, tónlist, texta og heilsuna. Skömmu seinna hittir þú mig á heimili dóttur minnar í Reykjavík. Þú varst að fara yfir texta sem þú samdir fyrir mig og sýna mér Martin-gítarinn þinn. Þú keyptir einmitt Martin-gítar fyrir mig, fyrir löngu. Leiðir okkar lágu saman þeg- ar ég var veitingamaður í Eg- ilsbúð þar sem ég hélt sex ár í röð trúbadorahátíð. Með okkur tókst strax góður vinskapur, eitthvað sem ég get ekki skýrt. Við urðum meira en viðskipta- félagar og sambandið hélt þó að engin væru viðskiptin. Þú bauðst til þess að gera með mér plötu. Ég var alveg óvænt kominn með nýjan tónlistarfélaga sem var al- veg hokinn af reynslu. Mikið var ég heppinn. Platan kom út árið 2007. Þú átt mikið í þessari plötu, miklu meira en þessi tvö lög sem þú lagðir í púkkið. Þú fórst út fyrir þægindarammann, stýrðir upptökum, spilaðir á rafgítar, tókst gítarsóló, spilaðir á man- dólín auk þess að útsetja þetta allt meira og minna. Þú varst svakalega vel stemmdur allan tímann. Þú bauðst mér að gista heima hjá ykkur Steinu og strákunum á meðan á þessari vinnu stóð: „Þetta er svo náið ferli og mikil vinna, það er best að við sofum saman líka“ sagðir þú og hlóst. Ég þáði það og þetta var ynd- SJÁ SÍÐU 24

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.