Ársrit um starfsendurhæfingu - 2019, Side 52

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2019, Side 52
mér voru í hugrænu atferlismeðferðinni. Við áttum í upphafi að skrifa á blað hvað við horfðum mikið á sjónvarp og hvað við notuðum símann okkar og tölvuna mikið. Stjórnandinn tók svo við blöðunum sem við höfðum skrifað á þann tíma sem við töldum að við eyddum í þessi tæki. Síðan fékk hann okkur bók. Sagði okkur að skrá þar framvegis nákvæmlega hve miklum tíma við eyddum í að horfa á sjónvarp og notkun á síma og tölvu. Við gerðum líka dagbók yfir allt annað sem við gerðum. Allir voru furðu lostnir yfir niðurstöðunum – mismunurinn á því sem við áætluðum í upphafi og hver raunin varð var svo mikill. Ég frétti sem sagt ýmislegt um sjálfan mig bæði í hugrænu atferlismeðferðinni og á þeim tuttugu tímum sem ég fékk hjá sálfræðingnum. Þetta var frábært og gerði meira fyrir mig en ég hafði nokkurn tíma getað ímyndað mér.“ Nýtt starf á nýjum vettvangi Hvenær fórstu að hugsa til þess að fá þér vinnu? „Eftir svona helminginn af þeim tíma sem ég sótti þjónustu hjá VIRK. Í heild var ég þar í endurhæfingu í eitt og hálft ár. Ég fór sem fyrr sagði snemma að vinna fyrir mér. Fyrst ýmis verkamannastörf en lengstum ók ég sendibíl og var um tíma með fyrirtæki á þeim vettvangi. Mér varð ljóst að keyrsla myndi ekki henta lengur vegna axlarmeiðslanna og afleiðinga þeirra. Ég var þá búinn að fá mat frá tryggingafélaginu. Ég er fimmtán prósent öryrki og fæ aldrei fulla hreyfigetu í öxl og handlegg. Með miklum æfingum get ég þó haldið því við sem komið hefur til baka. Ég varð því að finna eitthvert starf sem ekki gerði kröfu um að lyfta þungu eða annars konar erfiði. Í þessu ferli datt ég niður á vinnu sem mér leist vel á. Auglýst var eftir sundlaugarverði í Kópavogi, ég sótti um og fékk það starf. Ég er núna búinn að vinna þar í rúmt hálft ár og líkar vel. Þetta er rólegra starf en það sem ég var í áður en ég fæ útrás í hlaupum fyrir mína meðfæddu kappsemi. Tók þátt í tíu kílómetra hlaupi fyrir skömmu. Það var erfitt en hafðist. Ég hef alltaf haft áhuga fyrir félagsmálum. Fljótlega var ég kosinn trúnaðarmaður á nýja vinnustaðnum. Ekki í fyrsta skipti sem ég tek slíkt að mér,“ segir Heiðar Már og bregður fyrir stolti í röddinni. Hvernig varstu undirbúinn fyrir þetta nýja starf? „Ég varð að taka sundpróf og þá kom mér þrautseigjan vel, þetta reyndi heldur betur á meiddu öxlina. Ég kláraði prófið, synti sex hundruð metra á innan við tuttugu mínútum. Ég fer bráðlega aftur í próf, þau fara fram árlega. Satt að segja hafði ég aldrei séð mig fyrir mér sem sundlaugarvörð en lífið tekur stundum óvæntar beygjur.“ Áætlunin með VIRK gekk upp Hvernig líður þér núna andlega? „Öll sú sjálfsskoðun sem ég fór í hefur skilað mér rósemi í huga. Á einum tímapunkti í meðferðinni hjá sálfræðingnum ákvað ég að ég ætlaði framvegis að lifa í ljósinu. Þetta var ákvörðun. Þannig upplifði ég líka VIRK. Þar mætti mér geislandi ráðgjafi og þær viðtökur vöktu von um betra líf. Mér var ekki sagt hvað ég ætti að gera heldur látinn finna að ég mótaði stefnu sjálfur í því verkefni að komast út á vinnumarkaðinn. Ráðgjafinn sá greinilega fljótt hvernig best væri að mæta mér. Áttaði sig á að ég væri samviskusamur og vildi standa við mitt. Væri tími bókaður þá myndi ég fara í hann.“ Hefðir þú farið að vinna aftur ef þú hefðir ekki verið hjá VIRK? „Ég er ekki viss. Finnst þó líklegra að ég hefði ekki gert það. Sennilega endað sem öryrki. En áætlunin sem ég og ráðgjafi VIRK mótuðum saman í upphafi gekk eftir og nú er ég kominn í ágæta stöðu í lífinu. Ég er sáttur. Kominn framhjá því að hugsa um verki sem vandamál. Þetta er eins og það er og ég breyti því ekki. Það er auðvelt að stoppa við áföll en ég hef ekki leyft mér það. Á margan hátt finnst mér ég sterkari nú en ég áður var. Ég hef oft þakkað Guði fyrir VIRK, þar voru þau verkfæri sem ég þurfti á að halda á sínum tíma. Ég, sem trúnaðarmaður á mínum vinnustað, sat fyrir nokkru námskeið hjá BSRB. Einn af fyrirlesurunum var ráðgjafi sem kynnti starfsemi VIRK. Þá sá ég þetta utan frá, sá heildarmyndina – hvað þar er unnið stórkostlegt starf.“ Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir Ráðgjafinn sagði mér það í fréttum að ég yrði að mæta í öll úrræði áttatíu prósent – að mig minnir. Ella yrði ég að borga þau sjálfur. Ég hugsaði með mér: „Eins gott að mæta maður!“ 52 virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.