Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Síða 72

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Síða 72
Erum bara mannleg Ef horft er yfir söguna er varla annað hægt heldur en að renna í grun að mannkynið sé afsprengi þróunar sem hafi ekki alltaf haft rökvísi í hávegum. Það sem í samhengi faglegrar ákvarðanatöku gæti virst sem nokkur löstur, kann að hafa reynst vel í annars konar, og jafnvel frumstæðari, aðstæðum. Þannig er augljóst að trygg- og hjarðlyndi reynist samfélögum vel þegar eitthvað bjátar á og ógn steðjar að. Sömuleiðis er ekki verra að fólki þyki vænt um sína heimatorfu og telji hana vera nafla alheimsins. Ekkert þessara viðhorfa eru þó hluti þess að vera gagnrýninn. Ekki frekar en fordómar sem í viðsjárverðum aðstæðum og á ógnvekjandi tímum geta verið kostur. Varla er hægt að mótmæla því að óskhyggja og hjátrú hafa fært fólki merkingu, tilgang og öryggi eins lengi og við höfum heimildir um. Vandamálið er að þessar tilhneigingar sem eru svo ríkar í eðli okkar hafa þróast í fjölmargar hvimleiðar glapsýnir. Í starfstengdu samhengi blasa raunar fjöldi slíkra mögulegra hleypidóma við okkur. Sjálfstraust virðist stundum eflast í öfugu hlutfalli við þekkingu, fyrstu kynni lita alla dóma sem á eftir koma, við fögnum því sérstaklega sem fellur strax að heimsmynd okkar, aðlaðandi fólk fær okkur til að fylgja sér að málum og ef niðurstaða rökfærslu fellur að öðrum skoðunum þá getum við verið furðu blind á forsendur hennar. Gagnrýnin hugsun sem hæfni Hvað getum við gert ef hugsun okkar er í flestum aðstæðum að upplagi fjarri því að vera gagnrýnin? Gagnrýnin hugsun er hugsunarmáti – hún er hæfni sem tengir saman þekkingu á ákveðnum hlutum, færni til að bregðast við áreiti og áhrifum, mikilvæg viðhorf til samfélagsins og siðferðisleg gildi. Hæfnin felst í því að við getum brugðist við mismunandi aðstæðum þegar kemur að ákvarðanatöku. Besta leiðin til að skerpa slíka hæfni á sér fornar heimspekilegar rætur. Hún er að temja sér að spyrja spurn- inga þegar við myndum okkur skoðun. Ekki hvaða spurninga sem er heldur sjö spurninga sem tryggja að maður sé athug- ull á allar hliðar hvers máls4. Fyrsta spurningin er að spyrja hvað til- tekin skoðun felur í sér. Það getur verið einkennilega ógagnrýnið að mynda sér sterka skoðun á einhverju viðfangsefni án þess að vera með það á hreinu hvert umfjöllunarefnið er. Önnur spurningin er hvers vegna maður er að mynda sér skoðun á þessu efni. Áhrifavaldarnir eru margir og eins víst að maður sé ekki að mynda sér skoðun að ástæðulausu. Þriðja spurningin er hvort þessi skoðun sé í samræmi við núverandi hugmyndaheim. Auðvitað mega allir skipta um skoðun en það er svo einkennilegt að halda einhverju fram sem stendur í beinni andstöðu við fyrri skoðanir ef þeim er ekki ætlað að láta undan síga. Fjórða spurningin er hvort maður skilji helstu hugtök og sú fimmta hvort skilningur sé til staðar á þeim gögnum sem skoðun er reist á. Sjötta spurningin er hvort við getum fylgt röksemdafærslum, hvort þær séu yfirleitt til staðar eða hvort mælskubrögð og rökvillur einkenni alla umræðu í kringum málefnið. Síðasta, mikilvægasta og líklega flóknasta spurningin er sú að reyna að gera sér grein fyrir hvað myndi gerast ef allir hefðu sömu skoðun og breyttu í samræmi við hana. Skoð- anir eru sjaldnast einkamál. Hver og einn breytir oftast í samræmi við skoðanir sínar. Ef við ætlum að gera gagnrýninni hugsun hærra undir höfði í hugmyndaheimi okkar þurfum við að leyfa hugsun okkar að tengjast hinu mögulega – því sem ætti að gerast. Vitund um afleiðingar er hluti þess að vera athugull á allar hliðar hvers máls. Markmiðið er að gera einhvers konar langtímaplön fyrir sjálfan sig og aðra. Auðvitað kunnum við að þurfa að hugsa í styttri lotum en þá eigum við að geta gert sjálfum okkur og öðrum grein fyrir því hvers vegna ekki var horft til lengri tíma. Þar kemur samræðu og rökræðuviljinn fram. Gagnrýna hugsun má því jafnvel útskýra á þann máta að það að vera athugull á allar hliðar sé nokkurs konar 360 gráða sjónarhorn við ákvarðanatöku. Hún krefst þess að við þekkjum forsögu þess að skoðun myndast og þá áhrifaþætti sem hafa komið fram. Hún krefst þess að við berum kennsl á rök með og á móti. Og að lokum horfir hún til framtíðar og þeirra afleiðinga sem gæti fylgt því að breyta í samræmi við þá skoðun sem virðist ætla að verða ofan á. Í raun snýst gagnrýnin hugsun um að hvert og eitt okkar gæti sín, sérstaklega í faglegu samhengi, á að leiða ekki forsendur hjá sér, gera sér grein fyrir áhrifaþáttum á eigin skoðanir, reyna að finna sem flestar hliðar hvers máls og myndi sér að lokum skoðun sem maður er viss um að flest skynsamt fólk gæti gert að sinni. Í gegnum þetta ferli kemur fram sá vilji til samskipta og rökræðu sem er frumskylda hvers fagmanns. Heimildir 1. Páll Skúlason. Forspjallsvísindi. Hlutverk þeirra og viðfangsefni. Pælingar II. Reykjavík: Höfundur; 1989: 146. 2. Guðmundur Heiðar Frímannsson. Hugarfar gagnrýninnar hugsunar. Hugur 2010: 119–134. 3. Ólafur Páll Jónsson. Sannfæring og rök. Gagnrýnin hugsun, hversdagslegar skoðanir og rakalaust bull. Reykjavík: Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan; 2016. 4. Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. Hugleiðingar um gagnrýna hugsun. Gildi hennar og gagnsemi. Reykjavík: Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan; 2014: 20–28. 72 virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.