Skessuhorn - 05.06.2019, Blaðsíða 24
MIÐVIKUDAGUR 5. júnÍ 201924
Það voru liðin tvö ár síðan ég fór
síðast til útlanda og um fjögur ár
síðan ég fór í almennilegt frí. Þeg-
ar ég tala um frí þá meina ég frí, frí!
Frí þar sem maður liggur í sólinni
og eina sem maður pælir í er hve-
nær maður löðraði á sig sólavörn
síðast og hvort það sé kominn tími
til að borða. Fyrir suma eru tvö
ár án þess að fara til útlanda eng-
inn tími en fyrir mig er það í lengri
kantinum. Ekki misskilja, ég elska
Ísland, sérstaklega íslensk sum-
ur, þessi árstími er engum líkur og
fátt sem toppar hann þegar veðrið
er gott. Aftur á móti geta veturn-
ir hérna heima reynst ansi þungir.
Það var í einu skammdeginu síð-
asta vetur sem ég tók þá ákvörðun
að nú skyldi ég sko fara til útlanda í
sólina. Ég vissi ekki hvert, en stað-
föst ætlaði ég út sama hvað, og það
gerði ég.
Brimbrettaskólinn
Ég vissi að ég væri að fara ein í frí
og hugsaði því með mér hvert væri
gott að fara ein. Góð vinkona mín
fór fyrr á árinu í brimbrettaskóla til
Sri Lanka í Asíu og mælti eindreg-
ið með því, sagði það æðislega upp-
lifun. Hún þurfti ekki að hafa mikið
fyrir því að sannfæra mig. Ég pant-
aði strax tveggja vikna pláss í brim-
brettaskóla í Ericeira í Portúgal.
Ferðalagið gekk vel. Ég lagði af
stað frá Reykjavík 18. maí, á miðju
júróvísjón kvöldi, til Keflavíkur.
Þar átti ég flug til Munich í Þýskla-
landi rétt eftir klukkan eitt aðfarar-
nótt sunnudags. Millilendingin í
Munchen var það löng að ég náði
að ganga um borgina og skoða og
sjá hana áður en ég hélt svo áfram
til Lissabon síðar um kvöldið. Ég
var komin til Portúgal rétt fyr-
ir miðnætti og orðin gjörsamlega
örmagna af þreytu. Á flugvellin-
um tók á móti mér starfsmaður frá
brimbrettaskólanum sem beið eftir
síðasta hollinu af spenntum nem-
endum allsstaðar að. Þegar hópur-
inn var saman kominn héldum við
með rútu til borgarinnar Ericeira
þar sem skólinn er staðsettur. Ég
steinsofnaði í einu sætinu með gap-
andi munn alla rútuferðina og get
því með engu móti lýst landslaginu
á milli Lissabon og Ericeira, það
var hvort sem er nótt. Þegar komið
var í skólann var öllum raðað í her-
bergi. Ég fór beint í háttinn og gat
ekki beðið eftir að sofna í láréttri
stellingu eftir langt ferðalag.
Góð aðstaða
Daginn eftir kynntist ég herbergis-
félögunum mínum. Þar voru tvær
vinkonur frá Þýskalandi að ferðast
saman og svo tvær ásamt mér að
ferðast einar. Ein var frá noregi
og önnur frá Sviss. Ég og nýfundna
norska vinkona mín komumst að
því að við værum með sama kenn-
arann og náðum strax vel saman.
Í morgunverðarhlaðborðinu, sem
var í boði hvern einasta morgun,
var það helsta á boðstólnum brauð
með áleggi, eggjahræra, jógúrt með
tilheyrandi múslí og að sjálfsögðu
djús og kaffi og nóg af ávöxtum.
Þarna um morguninn sá ég fyrst
hvernig Portúgal leit út. Skólinn
er á hæð fyrir ofan ströndina. Þeg-
ar maður stóð á veröndinni á úti-
svæðinu og leit til hægri sá maður
Atlantshafið og ströndina og þegar
maður leit til vinstri sá maður mikla
dali og hæðir. Einstaklega fallegt
svæði þarna og ekki svo slæmt út-
sýni með morgunkaffinu. Eftir að
hafa hlaðið sig af næringu var farið
beint í fyrsta brimbrettatímann.
Skólinn var með um það bil 100
nemendum sem allir voru komnir
til að læra á brimbretti. Þetta voru
misstórir hópar að ferðast saman
frá ólíkum löndum. nemendum
er skipt í minni hópa eftir getu og
reynslu. Ég fór í „level1“ hóp sem
er fyrir byrjendur. Fyrst þurfti að fá
blautbúning og það að klæða sig í
einn slíkan er athöfn útaf fyrir sig.
Ég myndi segja að það sé ágætis
morgunrútína, að troða sér í níð-
þröngan blautbúning, bera brim-
bretti niður á strönd, stinga sér í
Atlantshafið og elta öldur frameft-
ir morgni. Það er vægast sagt frísk-
andi.
Lært á sportið
Dagarnir gengu svona fyrir sig
fyrstu vikuna. Maður vaknaði á
morgnanna og fór svo að sörfa. Á
byrjendastigi er maður mestmegnis
að læra að standa á brettinu sem er
hægara sagt en gert. Þar spilar sam-
an styrkur og gott jafnvægi, mjög
gott jafnvægi. Fyrir hvern tíma fór
leiðbeinandinn yfir hvernig flóð og
fjara ganga fyrir sig, hvernig öldur
myndast, siðareglur í sportinu og
í rauninni allt sem þarf að vita til
að stunda brimbrettaiðkun. Áður
en farið var í sjóinn var alltaf pass-
að að hita vel upp. Þá var skokkað
og teygt á liðamótum og vöðvum.
Sem byrjandi þá fer maður ekki
beint að ná öldum sjálfur, heldur er
maður að vinna með það sem kall-
ast „white wash“ eða sjóinn sem
kemur eftir að aldan skellur niður
þar sem myndast svona hvítur sjór
sem skolast upp á ströndina. Í þess-
um hvíta sjó vorum við byrjend-
urnir að æfa okkur að standa upp á
brettinu. Þá leggjumst við á brett-
uð og snúum í áttina að strönd-
inni. Leiðbeinandinn stendur bak-
við okkur, tilbúinn að ýta okkur
áfram með hvíta sjónum. Svo kem-
ur aldan, skellur niður og skolið í
framhaldinu og við, nemendurnir,
reynum eftir bestu getu að standa
upp og láta sjóinn ferja okkur alveg
að ströndinni, það er markmiðið á
byrjendastiginu.
Vika tvö
Í seinni vikunni minni náði ég að
hækka mig um stig í „level 2“ og var
ég gífurlega spennt að spreyta mig
á því að ná „green wave“. „Green
wave“ er í rauninni aldan sjálf og
það er markmiðið sem brimbrett-
ari að ná í öldu sjálfur án nokkurrar
aðstoðar. Fyrsti dagurinn í „level 2“
var vægast sagt krefjandi. Þarna var
ég komin í allt öðruvísi aðstæður.
Við þurftum að róa út á brettunum
og komast í gegnum öldurnar sem
mynduðust með reglulegu millibili.
Annað hvort náði maður að kom-
ast undir ölduna eða hún gjörsam-
lega skolaði mann í burtu. Ég var
búin á því þegar ég loksins komst út
en var laus við hættuna á að berast
frá landi og verða ekki fyrir stórum
öldum. Þvílík átök á axlir, hand-
leggi og nánast allan efri líkam-
ann að ferja sig áfram eins hratt og
maður kemst á brettinu. Þegar ég
var búin að ná andanum ákvað ég
að láta vaða á fyrstu ölduna. Leið-
beinandinn hjálpaði okkur fyrstu
dagana og þarna aðstoðaði leið-
beinandinn mig og ýtti mér með
öldunni svo ég myndi ná henni. Ég
náði henni heldur betur ekki, held-
ur tók góða dýfu ofan í sjóinn og
kútveltist með öldunni og brettinu
í marga hringi og skolaði svo upp
á strönd eins og hver annar veðr-
aður rekaviður. Þar sat ég í góða
stund á brettinu og horfði á sjóinn,
gjörsamlega búin á því. En það er
eitthvað við þetta sport sem dreg-
ur mann aftur út í átökin, svo ég fór
aftur út og reyndi aftur og aftur og
aftur og varð aðeins betri í hvert
skipti. Þetta er svo skemmtilegt!
Náði öldu sjálf
Það var svo fjóra daga inn í seinni
vikuna mína sem ég fór með nokkr-
um vinum úr skólanum niður á
strönd án nokkurs leiðbeinanda,
flest þeirra voru vön og búin að
stunda sportið í einhvern tíma. Ég
veit ekki hvort það var félagsskap-
urinn eða eitthvað annað en það var
þá sem ég náði nokkrum öldum al-
gjörlega sjálf, og hvílík tilfinning!
Það að geta róað með öldunni þeg-
ar hún myndast, finna fyrir rétta
augnablikinu þegar á að standa upp
og láta hana ferja sig áfram á hressi-
legum hraða er engu líkt. Þetta er
einhvers konar frelsistilfinning sem
er erfitt er að lýsa og maður fyll-
ist af gleði og stolti við að hafa náð
að standa upp alveg sjálfur. Eftir
að hafa náð einni öldu þá er mað-
ur kominn á bragðið og erfitt að
stoppa sama hversu oft sem mis-
tekst að standa upp.
Gott frí
Fríið í Ericeira var virkilega nær-
andi og lærði ég miklu meira en mig
hafði grunað um brimbrettaiðkun.
Þetta er ekki bara bretti á sjó heldur
þarf að kunna straumana, hvernig
öldurnar virka, hvað þarf að varast,
hvernig undirlagið er, sandur, grjót
eða kórall, og þar fram eftir götun-
um. Maður er uppfullur af upplýs-
ingum og betur í stakk búin til að
jafnvel taka upp þetta nýja áhuga-
mál hér á Íslandi sem býður víst
uppá fínustu öldur, það er allavega
eitthvað til að skoða.
Ég get líka ekki mælt með því
nægjanlega mikið að ferðast einn
og myndi segja að umhverfi eins
og brimbrettabúðir sé fullkom-
in byrjunarreitur fyrir þess konar
ferðamáta. Þarna ertu hluti af hópi
þrátt fyrir að vera ein og auðvelt að
kynnast nýju fólki.
Gunnhildur Lind Hansdóttir
Höf. er blaðamaður
hjá Skessuhorni
Borðaðar pizzur og drukkinn bjór við sólarlagið á ströndinni í góðra vina hópi.
Á vit ævintýranna í brimbrettaskóla í Portúgal
Virkilega gaman að prófa brimbretti í Ericeira, Portúgal.
Markmiðið er að ná öldu sjálfur. Þarna fékk ég aðstoð og má sjá hausinn á
leiðbeinandanum bakvið ölduna rétt eftir að hann ýtti mér með öldunni. Stundum mistekst manni.
Fyrir hvern tíma er fræðst um öldur og brimbretti áður en farið er í sjóinn.
Að klæða sig í blautbúning er ágætis
æfing.