Hugur og hönd


Hugur og hönd - 01.06.1993, Blaðsíða 21

Hugur og hönd - 01.06.1993, Blaðsíða 21
jafnvel grísku guðunum! í Ilíonskviðu Hómers eru flókahúfur nefndar og sagt að sjálfur Ódysseifur hafi borið flókabryddan hjálm á höfði. Alexander mikli fór fræga för til Indlands árið 327 f. Kr. Þar var flókateppagerð á háu stigi. Við bálför þessa mikla keisara, fjórum árum síðar, var bálkösturinn að sögn allur þakinn skarlatsrauðum flókateppum. Gamla myndlýsingu á flókagerð er að finna í veggmynd á verkstæði Vercunders sem grafið var upp í Pompei. Á dögum Júlíusar Cæsars var al- þýðan stundum kölluð flókamúgur og var nafnið dregið af algengasta klæðnaði hennar. Kósakka- hermenn klæddust kápum og húfum úr flóka og þannig mætti lengi telja. Eiginleikar teppa og fatnaðar úr flóka voru margir. Flókateppin voru létt í sér, heppileg í tjöld og teppi á veggi og gólf. Þessi eiginleiki kom sér til dæmis vel fyrir hirðingja sem oft þurftu að flytja bústaði sína og búfénað milli haga, þá var mikill kostur að farangur allur, tjöld og teppi, væri sem léttastur. Einnig var flókinn skjólgóður og góð regnvörn. Síðast en ekki síst voru flókateppin not- uð til skrauts, til að tjalda innan hús og híbýli og sem ábreiður og gólfteppi. Notkun flóka og filts á síðari tímum er alþekkt, m.a. í tískufatnað. Flókateppi Onnu Þóru Anna Þóra hefur í yfir 20 ár unnið með vefjarefni. Á þessum tíma hefur hún reynt og kannað margs konar verktækni og skapað fjölbreytileg listaverk, smá og stór. Að loknu námi við Myndlista- og handíðaskóla íslands og við Konstfackskolan í Stokkhólmi vann hún mest við hefðbundinn myndvefnað. Smám saman fór hún að gera tilraunir með mismunandi tækni við sköpun listaverka úr íslenskri ull. Hún kynntist betur hinum frábæru eiginleikum íslensku ullarinnar og nýtti sér þá. Hugmyndaauðgi Önnu Þóru er mikil og það er fróðlegt að skoða og bera saman þá athyglisverðu og fallegu hluti sem hún hefur skapað á listaferli sínum og bera þá saman við það sem helst grípur huga hennar og hendur nú, en það er gerð flóka- teppa. Anna Þóra hafði fyrir mörgum árum hrifist af teppum, fatnaði og listmunum úr flóka. Hún byrj- aði að þreifa sig áfram með verktæknina og reyndi ýmis tilbrigði, gerði fyrst marga fremur smáa muni. Það kom fljótt í ljós að flókinn hentaði Önnu Þóru vel til listsköpunar og hún náði góðum tökum á verktækninni. Listgripir sem hún sýndi vöktu mikla athygli og það hvatti Önnu Þóru til að halda áfram á þessu sviði. Hún fór til Danmerkur og tók þátt í alþjóðlegu námskeiði um filtgerð. Þar hitti hún og kynntist listafólki frá ýmsum löndum sem sýncli hvað það var að gera á þessu sviði. Anna Þóra segir sjálf að þetta námskeið hafi valdið kaflaskipt- um hjá sér á þessu sviði listsköpunar. Hún fór nú að gera stærri flókateppi og útfærslan varð fjölbreyttari. Teppi hennar eru úr íslenskri ull, hún notar nú eingöngu sauðalitina og nær með þeim fjölbreyttum litbrigðum og áferð. Næm til- finning listakonunnar fyrir efninu, mikil tækni og þjálfun í meðferð lita og forma skilar sér vel í teppum hennar. Anna Þóra leitast oft við að fanga áhrif frá náttúrunni í listaverkum sínum, og er út- færslan frumleg og persónuleg. Áferð efnisins er oft létt og leikandi, það virðist stundum allt að því loftkennt þegar litið er yfir teppið. Stundum minnir áferð þess á lifandi náttúru, gárur á vatni, sandöldur eða munstur í snjó, mikið samspil lita, forma og á- ferðar. Anna Þóra leggur áherslu á að reyna að draga sem mest fram náttúrulega eiginleika ís- Iensku ullarinnar og að láta þá njóta sín sem best. Teppi hennar eru mjög tilbrigðarík og það er á- nægjuleg sjónræn upplifun að skoða þau, horfa á þau og þreifa á þeim. Fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni hjá Önnu Þóru þar sem hún notar þessa ævafornu verktækni við sköpun og gerð nú- tímalegra listaverka. Verktækni Onnu Þóru við gerð flókateppa Stórt basttjald er lagt á gólf eða stórt vinnuborð, á það er lagður akrýldúkur, svo nefndur jarðvegs- dúkur. Síðan er byrjað á teppisgerðinni. Anna Þóra tekur togvisk, leggur hana á jarðvegsdúkinn og byrjar að teikna munstur eða skreytingu teppisins með toginu. Þegar því er lokið tekur hún þelvisk og leggur ullarlag ofan á togið. Hún gætir þess að ullarhárin snúi alltaf eins og að ullarlagið sé jafnt. Næsta þellag er lagt þannig að lega ullarháranna sé þvert á hárin í fyrsta laginu. Anna Þóra segir að þrjú ullarlög séu nægjanleg í venjulegt, meðalstórt flókateppi. Eftir að þrjú lög hafa verið lögð er nælondúkur lagður ofan á efsta ullarlagið og hann saumaður niður við jaðra teppisins. Síðan er ullin bleytt með sápuvatni. Ullinni er þjappað mjög vandlega saman þannig að sem mest loft fari úr henni. Næst er bastteppinu sem liggur neðst rúllað þétt utan um ullina, síðan er bundið utan um vöndulinn og ullin þæfð þannig að honum er rúllað fram og aftur, stundum í allt að 3-4 klukkutíma, það á að vera nægjanlegt, ullin orðin að flóka. Teppið er nú tilbúið. Anna Þóra notar mest óþvegna ull í teppi sín, þess vegna þarf eðlilega að þvo teppið þegar búið er að þæfa, það gerir hún í stórum skolvaski, þvær vandlega með volgu vatni og ullarsápu, skolar vel og leggur teppið síðan til þerris. Þórir Sigurðsson Ljósmyndir: Jóhanna Ólafsdóttir. HUGUROG HOND 21

x

Hugur og hönd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.