Bændablaðið - 24.08.2017, Page 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 24. ágúst 2017
MÆLT AF
MUNNI FRAM
Í síðasta vísnaþætti birtust vísur frá sextugsafmæli Jóhannesar á Gunnarsstöðum. Fari allt fram sem
horfir, verður þeirri vísnasmíð varla lokið
fyrr en um þriðju göngur í Þistilfirði. Því
verður ögn stiklað á helstu efnistökum
sem Birgir Sveinbjörnsson lagði fyrir
hagyrðingahópinn. Friðrik Steingrímsson
var spurður um ástand afmælisbarnsins:
Eins og maður sérhver sér
sitthvað fór úr böndum.
Elli kerling um hann fer
ekki mjúkum höndum.
Lengi hef ég þrjótinn þekkt
svo þrælvel merkin kenni.
Ég held´ann verði leiðinlegt
og lundillt gamalmenni.
Hjálmar læknir Freysteinsson var aftur á
móti frekar bjartsýnn á stöðu Jóa:
Þessi gáta létt er leyst,
lausnin á þann veg
að hann hefur ekkert breyst
-ekki frekar en ég.
Von um bata er veruleg
þó varla fjölgi hárunum.
Farið geta fleiri en ég
fríkkandi með árunum.
Björn Ingólfsson á Grenivík gaf svofellda
stöðuskýrslu:
Ég ímynda mér að sem unglingur
álitlegri hann væri að sjá,
svona helvíti grár og hrukkóttur
hefur‘ann naumast verið þá.
Ágúst í Sauðanesi, sveitungi Jóhannesar,
telur næsta merkilegt hvað Jóhannes
spjarast miðað við lífernið:
Á langri ævi drakk oft dramm
en dálítið er skrýtið,
að mörgu leyti fer‘onum fram,
-en hann fríkkar lítið.
Björn Ingólfsson á Grenivík er
ekki í vafa um framtíð Jóhannesar.
Öldrunarheimilið Naust á Þórshöfn verði
hans framtíðarlending:
Á Naust þegar hann verður síðast sendur
þarf sjálfsagt að hafa gát á honum.
Hann verður alltaf aðeins kenndur
að atast í gömlu kerlingonum.
Steingrímur, bróðir Jóa, telur framtíðina
bjarta, að uppfylltum nokkrum skilyrðum:
Endist drelli dugurinn
dags á svelli tíða,
og haldi velli hugurinn
hann mun ellin prýða.
Birgir spyr næst hvar skáldin telji að
Jóhannesi líði best. Gústi í Sauðanesi
velkist ekki í vafa:
Drengnum þykir dauflegast
að dæsa og pústa,
en honum þykir herlegast
að hitta Gústa.
Hjálmar telur að Jóhannesi hljóti að líða
einna best á hagyrðingakvöldum eins og
þessu:
Á honum það ekki sést
en öruggt mál við höldum,
að honum líða hljóti best
á hagyrðingakvöldum.
Friðrik sér sælustundirnar svona:
Ég giska á að girnist flest
sá gamli prammi,
en flatmaga þó finnist best
í Fjóluhvammi.
Hér er Fjóla, eiginkona Jóhannesar, nokk-
uð dregin inn í yrkisefnið. Pétur er ekki í
vafa um hvar Jói nýtur sín best:
Dvínar þar lúi og doði í sál,
það dregur ei ský fyrir sólu,
sá uppáhaldsstaður er einkamál
afmælisbarnsins og Fjólu.
184
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
LÍF&STARF
Svanhildur Jónsdóttir, sauðfjárbóndi í Krákuvör í Flatey:
Þarf að flytja fé til slátrunar alla leið á Sauðárkrók
– Ekkert sláturhús í skaplegri fjarlægð en aðaltekjur búsins eru samt af æðardúninum
Svanhildur Jónsdóttir er önnur tveggja
sauðfjárbænda sem eftir eru í Flatey á
Breiðafirði. Hún hefur verið viðriðin búskap
í eyjunni frá því hún flutti þangað fyrir um
hálfri öld, en líst illa á stöðu greinarinnar
í dag.
Svanhildur býr ásamt eiginmanni sínum,
Magnúsi Arnari Jónssyni, á bænum Krákuvör,
sem er ríkisjörð um miðbik eyjunnar. Hún
hefur yfirumsjón með búskapnum, en eigin-
maðurinn hefur séð um að ferja ferðafólk og
farangur þeirra til og frá bryggju á dráttarvél.
Tvær bújarðir eru á eyjunni, en að öðru leyti er
eignarhaldið í höndum fjölmargra einstaklinga
auk þess sem hreppurinn á nokkurn hluta. Í
raun tilheyra um 40 eyjar og hólmar Flatey.
Með nokkrar skjátur
Svanhildur segir að þótt hún sé „með nokkrar
skjátur“ þá skipti sú sauðfjárrækt ekki sköpum
fyrir búið.
„Ég er bara með um 50 hausa, enda ekki
hægt að vera hér með margt fé. Lengst af minni
búskapartíð hér í Flatey var sauðfé flutt í land
á sumrin. Því fylgdi göngur á haustin sem var
mjög gaman. Fólkinu fór síðan fækkandi og
fénu líka og enginn mannskapur var lengur til
að flytja féð í land. Nú er um helmingur fjárins
hér í eyjunni en svo erum við með beit fyrir fé
í Hergilsey, en þangað er ekki langt að flytja
féð. Aðaltekjurnar í búskapnum núna eru þó
af æðardúninum.“
Dúntekja í mörgum eyjum
Hún segir æðarrækt og dúntekju í eyjunum
betur setta en víða á fastalandinu vegna þess
að æðarfuglinn eigi sér þar færri óvini.
„Hér hefur aldrei verið minkur og hefur
aldrei verið í vestureyjum þó uppáfallandi
hlaupadýr hafi komið í einhverjar eyjarnar.
Hér er mikið af æðarfugli og varpið í vor
gekk þokkalega. Var það í góðu meðallagi.
Þá slapp til varðandi
bleytu.“
Margar eyjar
fylgja Flatey eins og
títt hefur verið með
gamlar eyjajarðir og
dúnninn í þeim er að
sjálfsögðu nýttur.
„Það er alltaf talað
um heimaeyjuna
og svo löndin
(heimalönd) sem eru
margs konar hólmar
og eyjar sem gengt
er í á fjöru. Það er
alls staðar æðarfugl,
en misjafnlega mikið
af honum á hverjum
stað.“
Svanhildur segir
stöðuna í æðar-
ræktinni hafa verið
ágæta undanfarin ár.
Það hafi allavega verið hægt að selja dúninn,
sem ekki gekk alltaf vel fyrir nokkrum árum.
Hún segir að eflaust muni hátt gengi krónunnar
þó eitthvað koma niður á afkomu greinarinnar
á þessu ári.
Döpur staða í sauðfjárrækt
Hvað varðar sauðfjárræktina, þá segir
Svanhildur stöðuna dapra, ekki síst hvað varðar
slátrun. Sprettan í sumar hafi þó verið með
ágætum svo ekki þurfi að kvarta yfir því.
„Meðan féð var flutt á land á sumrin
var tekið undan ánum í landi og farið strax
með lömbin í sláturhús. Við fórum lengst
af með lömbin í Króksfjarðarnes. Það var
ekki svo mikið mál. Nú fara mín lömb
alla leið á Sauðárkrók. Þau eru flutt í land
með Breiðafjarðarferjunni Baldri og þaðan
með bíl í sláturhúsið á Sauðárkróki. Það er
ferlegt að ekki skuli lengur vera eitt einasta
sláturhús á Vestfjörðum eða Vesturlandi,“ segir
Svanhildur. /HKr.
Gamla bátalagið í Þýskuvör og Stórigarður, sem Björn Sigurðsson kaupmaður lét hlaða til skjóls fyrir bátana um aldamótin 1900. Við voginn
stendur og þorpið í Flatey, en í baksýn má sjá Höfnina sem er skeifulaga klettaeyja sem var aðalskipalægið við Flatey á fyrri tíð. Myndir / HKr.
Svanhildur Jónsdóttir í glampandi sól og logni á veröndinni í Krákuvör. Hún segir gott að vera í
eyjunni þegar þannig viðri, en lítið sé hins vegar um skjól á eyjunni þegar blási eins og algengt er.
Magnús Arnar Jónsson, eiginmaður Svanhildar, sér um að ferja ferðatöskur og annan varning
til og frá skipshlið á dráttarvélinni, en spölkorn er frá bryggju í gamla þorpið í Flatey.
Enginn amast við kindunum sem liggja makindalega og jórtra í skugganum
undir húsvegg.