Bændablaðið - 24.08.2017, Síða 41
41Bændablaðið | Fimmtudagur 24. ágúst 2017
að markmiði. Í því felst m.a.
matvælaframleiðsla sem vinnur
með náttúrulegu umhverfi. Ein af
megináherslum vistræktar er tengsl
milli einstakra þátta og staðsetningar
þeirra innan kerfis með það fyrir
augum að mynda stöðugt og
afkastamikið samfélag sem líkir eftir
samvirkni og skilvirkni náttúrulegra
vistkerfa.
Vistrækt er áströlsk að uppruna en
hugmyndafræðin hefur breitt úr sér
víða um heim, sér í lagi í Asíu, Afríku
og Eyjaálfu. Garðyrkjuaðferðir
vistræktar eiga því til að byggja á
heitu loftslagi og þurrum jarðvegi.
Því felst ákveðin áskorun í því
að aðlaga vistræktaraðferðir að
íslenskum aðstæðum.
„Ég hef viljað að ræktunin okkar
sé æt og sem mest fjölær. Við höfðum
einnig alltaf verið ákveðin í því að
ræktunin okkar yrði lífræn. Við
vildum leita leiða til að vinna með
náttúrunni í stað þess að berjast við
hana. Fólk hefur verið að vinna með
náttúrunni gegnum aldirnar og við
þurfum bara að rifja upp aðferðir
sem notaðar voru. Um allan heim
hefur fólk kunnað aðferðir til að nýta
vatnið, nýta hitann, nýta skjólið og
samræktun svo ég nefni eitthvað.“
Dagný og Sigurður hafa því
prófað sig áfram með ýmsar aðferðir
í matjurtarræktun sinni. Sumt hefur
virkað vel og annað ekki.
„Það sem er flókið við það er að
þetta er svo margþætt. Ákveðnar
aðferðir geta verið að virka eitt
sumarið og ekki það næsta. Þetta er
ekki vísindaleg vinna hjá okkur. Þótt
við skráum mjög mikið niður hvað
við erum að gera og fylgj umst vel
með því þá tel ég að það þurfi heila
mannsævi til að læra hvað virkar í
alvöru. Maður þarf að minnsta kosti
að hafa lifað mörg mismunandi
sumur,“ segir Dagný og nefnir dæmi.
„Fyrripart sumars óx salatið illa
hjá okkur og ég leitaði að ástæðu þess
í aðferðum mínum og áburðargjöf og
einhverju slíku. Svo hitti ég konu sem
hafði svipaða sögu að segja af sér og
öðrum í kringum sig. Þá er það bara
þetta ár og árferði, hvað sem kann að
útskýra það, salatið var bara lélegt.“
Uppskeran undirstaða fæðunnar
Það kennir ýmissa grasa á
Skyggnissteini. Dagný og Sigurður
rækta bæði kartöflur og rófur
af ýmsum gerðum, kúrbít og
kuldaþolna tómata, maís, baunir,
aspas, vínber, kál í öllum stærðum
og gerðum, innlend og erlend ber,
ávaxtatré, kryddjurtir, tejurtir og
svo mætti lengi telja. Enda segir
Dagný þau rækta allt sem þeim
dettur í hug. Á landinu er fjölbreytt
flóra af villtum jurtum sem þau
nýta einnig mjög mikið. Umfang
uppskerunnar er á þann veg að
þau sækja lítið í grænmetisdeildir
matvöruverslana.
„Það hefur verið stefnan
að borða aðallega uppskeruna
okkar. Að sjálfsögðu kaupum við
stundum eitthvað grænmeti. En
við lítum á það sem áskorun, til
að mynda að finna grænmeti sem
vex sem lengst fram á veturinn
og þolir töluvert frost. Þar get ég
nefnt pastínökkur og rósakál sem
dæmi. Einnig erum við að reyna að
finna út úr því hvernig við getum
fengið grænmeti sem fyrst á vorin.
Þannig höfum við leyft svartrótinni
að vera eftir á haustin og þá koma
blöð á vorin sem hægt er að nota
ásamt piparrótarblöðum, sjálfsáðu
klettasalati í gróðurhúsunum o.fl.“
Dagný segir mikla vinnu fylgja
því að rækta garðinn og sér í lagi
meðhöndla uppskeruna svo hún
geymist. Auk þess að ganga frá
ferska grænmetinu haganlega, þá
þurrka þau hráefnið, frysta það,
salta, súrsa, sulta og setja í olíur.
Auk þess halda Dagný og
Sigurður fáeinar hænur sem sjá
þeim fyrir eggjum til eigin nota.
„Hænurnar lífga upp á tilveruna og
hjálpa til með því að róta í haugum
og beðum og leggja til áburð.“
Hraukbeðin hentugu
Ein af þeim aðferðum sem Dagný
og Sigurður kynntust gegnum
vistrækt var notkun hraukbeða
(e. Hugelkultur). Hraukbeð eru
upphækkuð beð sem búin eru til
með því að grafa trjádrumb og
greinar ofan í jörðina, hylja með
moltu og jarðvegi og rækta svo
á beðinu.
Með tímanum brotnar
trjádrumburinn niður og losar þá
hita og æskileg næringarefni fyrir
jurtir í beðinu.
„Ég held að hraukbeð séu
eitthvað sem Íslendingar ættu að
nota mikið af því þau er ótrúlega
hentug fyrir okkar aðstæður. Beðið
býr til skjól, hita og áburð og er
praktískt á margan hátt.“
Lífræn umbreyting
Með reynslu síðustu ára hafa
Dagný og Sigurður komist að því
að möguleikar matvælaframleiðslu
hér á landi eru gríðarmiklir.
„Við erum alltaf að sjá fleiri
og fleiri fréttir af því við hvaða
aðstæður matvæli eru framleidd. Við
vitum ekki hvað fólkið sem ræktaði
þetta hefur þurft að þola, við vitum
ekki hvaða efni eru notuð. Svo
getum við ekki treyst á alla þessa
flutninga til landsins að eilífu. Mér
finnst allt í lagi að kaupa framandi
krydd og spennandi matvæli til að
krydda lífið. Það er varla hægt að
tala um fæðuöryggi ef framleiðslan
byggir mest á innflutningi. Við
ættum því að reyna að uppfylla
grundvallarþarfir okkar sjálf.“
Hún segir einnig uppgang í
lífrænni ræktun um allan heim enga
tilviljun. Eftirspurn eftir lífrænum
vörum hefur aukist svo um munar
og í því liggi miklir möguleikar á
Íslandi. Þá sé lífræn ræktun ekki
síður spurning um náttúruvernd og
heilsuvernd.
„Það er mikilvægt að styrkja
bændur í að umbreyta búum sínum í
lífræn býli. Því það er mikið átak og
getur tekið langan tíma, sérstaklega
ef þeir eru með heybúskap. Það er
um að gera að nýta þá styrki sem í
boði eru, í því felast tækifæri,“ segir
Dagný. Í búvörusamningi frá 2016
er gert ráð fyrir 35 milljónum á ári
í aðlögunarstyrki til þeirra sem hafa
byrjað lífræna aðlögun í landbúnaði
undir eftirliti vottunarstofunnar
Túns, en framleiðendur geta
sótt um slíkan styrk í gegnum
Matvælastofnun.
Ræktun er vinna
Dagný og Sigurður hyggja ekki á
umfangsmikla matvælaframleiðslu,
en hafa í litlum mæli verið að taka á
móti fólki á Skyggnissteini þar sem
þau kynna starfsemi sína og matbúa
síðan handa gestum úr afurðunum.
Dagný segir þó að afurðasala
í litlum mæli gæti hentað þeim
miðað við þær aðstæður sem
staðurinn býður núna upp á, og
bendir á reglugerð nr. 580/2012
um framleiðslu á matvælum
undir smáræðismörkum, sem
gefur frumframleiðendum afurða
í litlu magni færi á að selja vöru
til neytenda undir ákveðnum
kringumstæðum.
„Ef fólk ætlar að fara þessa
leið sem við fórum, það er að
gera margt og pínulítið af hverju,
þá verður það að átta sig á því að
maður býr ekki til mikla peninga
úr því og því fylgir mikil vinna.
Mér finnst gott að rifja upp það
sem Hildur Hákonardóttir sagði í
bókinni Ætigarðurinn. Þar stendur
að maður eigi ekki að láta sér detta
það í hug að hægt sé að rækta ofan
í heila fjölskyldu og um leið vera
útivinnandi í fullu starfi.“
Hún segir því að best sé að sníða
ræktun sína eftir aðstæðum. „Ef þú
ert útivinnandi með lítinn garð þá
er t.d. mjög sniðugt að rækta salat
og kryddjurtir.“
Opnir framtíðarmöguleikar
Eftir að hafa búið bæði í sveit og
borg í 4 ár hafa Dagný og Sigurður
nú sest alfarið að á Skyggnissteini.
Þar ætla þau að halda áfram að
rækta garðinn og vinna úr þeim
efniviði og tækifærum sem þeim
bjóðast í náttúrunni og nálægð við
víðernin á hálendinu.
„Ég hef enga þörf á að skilgreina
okkur. Mér finnst gaman að vasast
í öllu mögulegu. Hluti af því er að
rækta. Í því felst sköpun og það er
gefandi.“
Þarna eru þau Dagný og Sigurður að prófa þekkt samval innan vistræktar sem nefndist „Systurnar þrjár“. Maískorn,
kúrbítur og baunir eru ræktaðar saman og eiga að hjálpa hvert öðru. Maísplantan er sterkur burðarbiti fyrir
baunaplöntur sem þarf eitthvað til að klifra upp. Baunirnar sækja nitur í jarðveginn sem gagnast bæði maísnum og
kúrbítnum. Kúrbítur er skriðjurt sem þekur moldina, viðheldur því raka í jarðveginum og kemur í veg fyrir illgresi.
Óupphituð gróðurhús reynast vel fyrir hitakærar plöntur. Hægra megin má
sjá hina voldugu valurt sem nýtist bæði sem lækningajurt og er sérstök
búbót í jarðvegsgerð.
Matjurtarbeð hannað í mandölusniði að hætti vistræktar. Þarna má sjá lauka,
fjölskyldan í leik og störf.
Jurtasveipur sóttur í aðferðafræði vistræktar. Steinarnir þjóna sem hitagjafar
og kryddjurtum er raðað eftir vatns- og birtuþörf.
Það er stefna hjónanna að borða
aðallega uppskeruna úr garðinum
og þau þurfa sjaldan að sækja í
grænmetisdeild matvöruverslana.