Bændablaðið - 14.12.2017, Side 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. desember 2017
Við höfum fengið nýja ríkisstjórn sem
nú er að stíga sín fyrstu skref. Um
leið og nýjum ráðherrum er óskað til
hamingju með embættin og þess óskað
að störf þeirra verði landi og þjóð til
heilla, er þeim sem á brott hverfa óskað
velfarnaðar við ný verkefni, innan eða
utan þings.
Ég held að það sé á engan hallað þegar
ég vona að hin nýja stjórn geti fært með sér
meiri pólitískan stöðugleika en hér hefur
ríkt undanfarin misseri.
Stjórnarsáttmáli hinnar nýju stjórnar er
umfangsmikill og þar segir meðal annars:
„Landbúnaður á Íslandi á að vera
leiðandi í framleiðslu á heilnæmum
landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla
á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla
að byggðafestu, auka verðmætasköpun
og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á
matarmenningu með sjálfbærni og gæði
að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að
landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd
búfjárstofna sé tryggð.
Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar
verður að bregðast við vanda sauðfjárbænda
til skemmri og lengri tíma. Samhliða nýrri
kynslóð landbúnaðarsamninga verða
innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um
nýja starfsemi til sveita. Með þeim verður
rudd braut fyrir bændur til að byggja upp
nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum
sviðum.
Slíkir aðlögunarsamningar til búhátta-
breytinga verða tímabundnir og háðir
skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun
og búsetu viðkomandi jarðar og geta stuðlað
að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum
áherslum í rannsóknum og menntun.
Forsenda þess að landbúnaður geti
nýtt tækifæri framtíðarinnar er jafnvægi
í framleiðslu, skilvirkt eftirlit og
nýsköpun. Ríkisstjórnin ætlar að tryggja
betur rétt neytenda til upplýsinga um
uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og
umhverfisáhrif.
Ríkisstjórnin mun ráðast í aðgerðir
til að þróa lífhagkerfið enn frekar,
grænar lausnir og aðferðir til að draga úr
umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu með
hvötum og stuðningi sem miði meðal annars
að kolefnisjöfnun greinarinnar. Efla þarf
sérstaklega lífrænan landbúnað.“
Svo mörg voru þau orð um landbúnaðinn.
Það er ekki auðvelt að vera á móti neinu
af þeim, stóra spurningin er eins og ávallt,
hvernig náum við þessu fram og mun
ríkisstjórnin tryggja nauðsynlega fjármuni
til þess? Það á eftir að koma í ljós. Síðan
er auðvitað mjög mikil vinna eftir við að
útfæra verkefnin og sum eru alveg óútfærð.
Það er til dæmis óljóst við hvað er átt
með nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga
og sérstaka aðlögunarsamninga um nýja
starfsemi til sveita.
Þessi mál verða væntanlega hluti af
áherslum ríkisstjórnarinnar við endurskoðun
búvörusamninganna 2019 og þá verður
vonandi skýrara við hvað er átt. Taka má
undir áform í loftslagsmálum, m.a. fyrirheit
um að ganga til samstarfs við sauðfjárbændur
um kolefnisjöfnun greinarinnar. En til að
þar náist árangur þarf meira að koma til
en að færa til fjármuni innan núverandi
stuðnings. Jafnframt eru góð orð um að
bregðast við vanda sauðfjárbænda í bráð
og lengd. Niðurstöður þess þurfa að liggja
fyrir nú fyrir árslok svo nýr ráðherra
landbúnaðarmála þarf að ganga fram af
ákveðni og festu í því máli. Nóg hefur verið
beðið hingað til.
Tollbreytingar fram undan
Stefnan í milliríkjaviðskiptum passar ekki
alveg við hugmyndir um vernd búfjárstofna
og uppbyggingu innanlands. Þar er hvatt til
enn aukinnar fríverslunar.
Nú er það svo að búið er að afnema
alla tolla í landinu nema af ákveðnum
landbúnaðarvörum sem treysta á
tollverndina til að geta starfað.
Aðeins um 11% af tollskránni bera
einhvern toll yfirleitt. Annar innflutningur er
tollfrjáls, sama hvaðan hann kemur. En það er
ekki allt. Með gildistöku nýs tollasamnings
við ESB þann 1. maí næstkomandi verða
aðeins 260 tollnúmer sem bera einhvern toll,
þegar flutt er inn frá Evrópusambandinu. Það
er aðeins 3% tollskrárinnar.
Þetta er heldur ekki allt. Í þessum sama
samningi er kveðið á um mjög stækkaða
tollkvóta sem ESB fær hingað inn. Það
er er um að ræða hluta af þessum 260
númerum sem áður greinir en það magn
sem flutt er inn með þessum kvótum ber
ekki toll. Því til viðbótar er veruleg ógn
fólgin í niðurstöðu EFTA dómstólsins frá
14. nóvember. þar sem dómstóllinn dæmdi
að ekki mætti takmarka innflutning á hráu
ófrosnu kjöti sem og ógerilsneyddum
eggjum og mjólk. Dómstóllinn gaf ekkert
fyrir rök Íslands um vernd búfjárstofna eða
lýðheilsu. Markaðurinn er ofar öllu öðru.
En ríkisstjórnin þarf að svara hvernig þetta
allt saman fer saman við þau markmið sem
hún hefur sett sér. Bændur þurfa á þeim
svörum að halda.
Ein þjóð í alvöru samfélagi
Í stjórnarsáttmálanum eru jafnframt
áhugaverð áform um uppbyggingu í
samgöngum, fjarskiptum og raforkudreifingu
sem og í byggðamálum almennt. Sannarlega
er þar ekki vanþörf á og vonandi verða þessi
fyrirheit að veruleika. Við erum ein þjóð og
verðum að muna að sanngirni þarf að gæta
gagnvart landsmönnum öllum hvað varðar
innviði og opinbera þjónustu. Án þess erum
við ekki alvöru samfélag.
En við spyrjum að leikslokum. Að
því sögðu óska ég öllum lesendum
Bændablaðsins gleðilegra jóla og farsældar
á komandi ári með þökk fyrir samfylgdina á
því sem er að líða. Gleðilega hátíð.
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.200 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.100 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Ég lifi´ í draumi dreg hvergi mörkin dags
og nætur
sveiflast aðeins ósjálfrátt.
Í hægum gangi á fullt í fangi með að
finna það
sem oftast reynist öfug átt.
Það er líkt og ég sé laus úr öllum viðjum
Lentur hringsólandi á vegi miðjum.
Ég lifi í draumi dreg hvergi mörkin dags
og nætur
Sveiflast aðeins ósjálfrátt.
Þetta er fyrsti hluti af fallegu ljóði
Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar við afar
hugljúft lag Eyjólfs Kristjánssonar sem ber
nafnið „Ég lifi í draumi“.
Þessar ljóðlínur koma ósjálfrátt upp í
hugann þegar hugsað er til margra háleitra
hugmynda sem stjórnmálamenn á Íslandi
reyna nú að hrinda í framkvæmd. Þær
hugmyndir eru margar hverjar afar hugljúfar
eins og textinn góði. Það er þó æði oft sem
hrint er í gang framkvæmdum á kostnað
almennings þar sem stjórnmálamenn „í
hægum gangi eiga fullt í fangi með að finna
það, sem oftast reynist öfug átt“.
Það er dapurlegt að fylgjast með hvernig
popúlisma er óspart beitt til að vinna
hugmyndum fylgi, oftar en ekki á illa
ígrunduðum forsendum. Jafnvel svo að
í framkvæmdinni öskra þversagnirnar á
þá sem fylgjast með og reyna að skilja
röksemdafærsluna sem að baki liggur. Ansi
oft er þá verið að stefna þróuninni í „öfuga
átt“, eins og segir í textanum. Þetta á við
allt of margar pólitískar ákvarðanir.
Háleit eru markmiðin með þátttöku
Íslands við að draga úr loftmengun á
heimsvísu. Eitt af fyrstu embættisverkum
okkar nýja ástkæra forsætisráðherra var að
fljúga til Parísar í reykspúandi þotu til að
kynna umheiminum að Íslendingar ætli sko
að ganga lengra en flestar aðrar þjóðir í að
draga úr útblæstri koltvísýrings.
Á sama tíma og ráðherrann boðar þetta
fagnaðarerindi er verið að leggja lokahönd á
byggingu kísilmálmverksmiðju við Húsavík.
Það mun samkvæmt minnisblaði PCC
Bakki Silicon hf. brenna um 40.000 tonnum
af kolum og koksi árlega og 40.000 tonnum
af timburkurli til að framleiða kísilmálm. Af
sama meiði er kísilmálmverksmiðja United
Silicon í Helguvík. Álverin í landinu og
járnblendiverksmiðja brenna líka ógrynni
af kolum, koksi og timbri til að framleiða
800.000 tonn af áli.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru
flutt inn 124.992 tonn af kolum á árinu 2016
og rúm 14.083 tonn af koksi.
Á sama tíma er verið að loka gróðrar-
stöðinni Barra á Fljótsdalshéraði.
Framkvæmdastjórinn segir fyrirtækið hafa
gefist upp á sviknum loforðum um aukna
skógrækt og kolefnisbindingu.
Ísland reiðir sig nú æ meir á innflutning
ferðamanna. Til þess eru einkum notaðar
þotur sem brenna steinolíu. Af slíku
þotueldsneyti voru flutt inn 654.278 tonn
á árinu 2016. Á sama tíma voru flutt inn
135.794 tonn af bensíni og 340.844 tonn
af dísilolíu. Verulegur hluti af dísilolíunni
fer á skip, jarðvinnutæki, flutningatæki
og landbúnaðartæki. Bílafloti almennings
er því ekki hálfdrættingur á við flugið.
Af þessu má líka sjá að langstærsti
loftmengunarvandinn á Íslandi liggur hjá
stóriðjunni og fluginu.
Áfram munum við þó trúlega eins og
skáldið sagði, lifa í draumi og draga hvergi
mörkin dags og nætur. Sveiflast aðeins
ósjálfrátt... – væntanlega eftir nýjustu
vinsældavísitölum.
Með bestu óskum um gleðileg jól og
áramót og með kæru þakklæti fyrir
ánægjuleg samskipti á líðandi ári.
Hörður Kristjánsson
Ég lifi í draumi
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Sindri Sigurgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
sindri@bondi.is
Meira kjöt á beinin
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins:
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Mynd / HKr.