Bændablaðið - 14.12.2017, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. desember 2017
miðstéttarfólk frá Bandaríkjunum
sem er með hörku tekjur. Því
er ofboðið að borga kannski 20
dollara fyrir einhvern ómerkilegan
hamborgara sem kostar 4–5 dollara
í Bandaríkjunum. Þetta fólk lætur
bara ekki bjóða sér þetta.
Staðan hefur bara verið að versna.
Með slíkri framgöngu er verið að
skemma fyrir samfélaginu í heild.
Við sjáum þetta vel hjá okkur. Við
höfum verið mjög passasöm með
verðlagningu og haldið aftur af
hækkunum og það skilar sér margfalt
til baka. Sumir halda að við séum að
borga með þessum veitingastað, en
það er stórkostlegur misskilningur.
Það er mjög góð afkoma af honum.
Við náum þessu inn á magninu sem
við seljum. Það væri ekki hægt ef
við værum í einhverju rugli með háa
verðlagningu.
Ekki alltaf vinsæll meðal
kolleganna
„Ég veit að ég er langt frá því að
vera vinsæll meðal kollega minna.
Það er fullt af mönnum sem hugsa
mér þegjandi þörfina. Ég er samt
gapandi hissa á að það hafi enginn
annar stokkið á þennan sama vagn
og bjóði mat á skaplegu verði. Ég sit
bara einn að þessum markaði og það
finnst mér svolítið sérstakt.
Ég veit það líka að margir af
þessum stöðum gætu gert miklu,
miklu betur með lægri verðlagningu.
Það kæmi allt til baka og myndi um
leið skapa mun meira líf í kringum
sig og aukna veltu. Ég hef samt
ekkert á móti því að menn rukki vel
fyrir góða vöru og góða þjónustu.“
Lágt matarverð laðar fólk að
IKEA
Þórarinn nefnir því til staðfestingar
að veitingastaðurinn hjá IKEA á
Íslandi skilar um 15% hlutdeild
í heildarveltu fyrirtækisins.
Erlendis eru veitingastaðir í IKEA
keðjunni mest að skila 3–5% af
veltunni. Meðan aðsókn að svona
stórverslunum er að dragast saman
úti um allan heim vegna aukinnar
sölu á netinu hefur aðsóknin
stóraukist að IKEA á Íslandi. Það
þakkar Þórarinn m.a. velgengni
veitingastaðarins. Þar er líka á
boðstólum langódýrasta áfengi sem
þekkist á veitingastað á Íslandi þó
ekki sé sérstaklega gert út á það.
„Við viljum bara að fólk geti
fengið sér góðan bjór með matnum
undir 400 krónum ef það langar í
bjór. Það er sama vinna fyrir mig
og sami launakostnaður að selja
þennan bjór og gosflösku. Af hverju
ætti ég þá að leggja meira á við að
selja bjórinn. Þetta er samt alls ekki
fyllirísstaður. Menn segja á móti að
ég geti gert þetta af því að það komi
svo margir gestir. Þá spyr ég, hvort
kom á undan hænan eða eggið? Gæti
ekki verið að það komi svo margir
gestir af því að maturinn er ódýr?“
Seldu 70 þúsund kótilettur
Þórarinn nefnir líka að áhuginn
fyrir matarvenjum fortíðarinnar
verði stöðugt meiri. IKEA hafi
fylgt þessum áhuga eftir. Skýrasta
dæmið var þegar IKEA bauð hér í
efnahagshruninu sem frægt varð,
saltkjöt og baunir á túkall.
„Það fór reyndar út í tóma vitleysu
þannig að við urðum að hætta því.
Við skynjuðum það þarna með þessa
baunasúpu og saltkjöt hvað fólki
fannst gott að komast aftur í mat sem
það hafði borðað sem börn. Þetta
vatt því upp á sig og við höfum verið
að bjóða upp á ýmsa slíka rétti eins
kótilettur. Við vorum með kótilettur
í raspi nú í september á tilboði og
við seldum rétt tæplega 70 þúsund
stykki. Þetta var ótrúlega vinsælt.
Fyrir jólin erum við með hangirúllu
og hangikjöt á beini á matseðlinum
með grænum ORA baunum og
kartöflumús, þetta er sælkeramatur.
Í byrjun á nýju ári ætlum við svo
að vera með enn einn þjóðlegan rétt
sem fólk bókstaflega elskar. Það er
kjöt í karrí og svo verður saltkjöt
og baunir í kringum sprengidaginn.
Allt er þetta matreitt úr frampörtum
og við sjáum að lambið á hér mikla
möguleika.“
Ástarpungar og kleinur steiktar
upp úr tólg
„Við skynjum líka mjög skýrt að fólk
leitar í gamla tíma hvað matargerð
varðar. Við opnuðum bakarí á
neðri hæðinni fyrir um ári og þar
hjálpar kannski til að ég er sjálfur
bakarameistari. Ég var ákveðinn í
því að við ætlum ekki að rembast
við að vera næsti Dunkin´ Donuts
eða Crispy Cream staður. Við ætlum
hins vegar að vera svolítið þjóðleg
og vera með ástarpunga og kleinur
sem steiktir eru upp úr tólg eins og
mömmur og ömmur okkar gerðu.
Uppskriftirnar eru úr uppskriftabók
fjölskyldunnar en ég er ættaður af
Norðurlandi. Ég kaupi mikið af tólg
frá Stóruvöllum og blanda henni
reyndar út í olíu en fæ samt þetta
sérstaka tólgarbragð. Fólk er að
koma langar leiðir til að fá þessar
kleinur og ástarpunga með þessu
sérstaka bragði. Það er því bullandi
markaður fyrir gamaldags kleinur
og ástarpunga. Ég er búinn að gefa
fullt af útlendingum þetta og segi að
þetta sé íslenska útgáfan af dougnuts
og því finnst þetta bara verulega
gott, þó ekki sé þetta sykurhúðað.
Svo bjóðum við upp á íslenskar
skonsukökur á veitingastaðnum eins
og voru ríkjandi í fermingarveislum
fyrir 30–40 árum og gamaldags
smurbrauð.“
Eigum að vera stolt af okkar
matarhefðum
„Ég held að það séu því miklir
möguleikar á að fara til baka í
íslenskar matarhefðir. Túristar sem
hingað koma eru líka meira en
tilbúnir til að prófa íslenska matinn
þó ekki sé endilega verið að svæla
hákarli ofan í fólk. Við megum
ekki vera með minnimáttarkennd
gagnvart okkar matarhefðum. Við
eigum að vera stolt af því og ekki
skammast okkar fyrir þær hefðir
sem við höfum. Fólki finnst þetta
gott og það sem meira er, þetta er
ekki verðlagt þannig hjá okkur að
það setji fjárhag fólks á hliðina og
ofbjóði fólki.“
Á ekki að kosta hvítuna úr
augunum eða fyllingar úr
tönnunum
„Það er gaman af því að fólk
með takmörkuð fjárráð er að
koma hér um helgar til að gera
sér dagamun í mat. Þetta á ekki
að vera þannig að þú þurfir að
selja hvítuna úr augunum á þér
eða fyllingarnar úr tönnunum til
að geta farið út að borða,“ segir
Þórarinn Ævarsson.
/HKr.
Íslenskar kleinur steiktar upp úr blöndu af tólg frá Stóruvöllum og matarolíu.
FÓLK&FYRIRTÆKI
Mikil aðsókn er alla daga að veitingastað IKEA og sjaldan eins mikil og í jólaösinni. Mynd / HKr.
öllu sem þar fer fram. Auk þess sé leitast við að bjóða þar upp á bakstur eftir gömlum íslenskum uppskriftum eins og á kleinum og ástarpungum.
Tólgin gerð klár í steikarpottinn.