Bændablaðið - 14.12.2017, Page 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. desember 2017
SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA
Ný ríkisstjórn er tekin við og
meðal helstu markmiða hennar
er að byggja upp innviði.
Þar telja flestir að átt sé við
úrbætur í vegakerfinu, nýtt
sjúkrahús, betri aðstöðu til
að taka á móti ferðamönnum
o.þ.h. Hugtakið innviðir merkir
bókstaflega innanstokksmunir
svo sem raftar, veggklæðningar
og húsgögn úr viði sem gera
híbýli manna íbúðarhæf. Hin
óeiginlega merking hefur að
gera með allt það sem gerir
landið okkar íbúðarhæft.
Í því sambandi eru vart til
nauðsynlegri innviðir en
skógar.
Sumir halda því fram að
gróðursetning til skóga hafi verið
umtalsverð á undanförnum árum.
Hún hafi verið orðin svo mikil að
forsvaranlegt hafi verið að skera
hana um helming eftir hrun. Hún
hefur þó ekki verið umtalsverðari
en svo að aðeins 0,5% landsins
bera nú ræktaðan skóg. Ísland er
enn svo til skóglaust.
Skógleysinu fylgir að flytja
þarf inn nær allar skógarafurðir,
fyrir tugi milljarða króna á ári.
Með þeim peningum sköpum
við atvinnu og verðmæti í
öðrum löndum en ekki hér
heima. Innflutningur er okkur
ekki erfiður þegar allt leikur
í lyndi og krónan er sterk,
en við þurfum ekki að horfa
nema 5–8 ár aftur í tímann til
að finna allt aðrar aðstæður. Þá
var krónan verðlítil og erfitt að
fá gjaldeyri, sem hvort tveggja
stóð allmörgum fyrirtækjum
fyrir þrifum af því m.a. að erfitt
var að flytja inn timbur og aðrar
skógarafurðir. Auk bankanna
hrundi byggingariðnaðurinn og
við erum enn að súpa seyðið af
því hruni í formi húsnæðisskorts
og hárrar leigu.
Að eiga okkar eigin
framleiðslumikla skógarauðlind
og úrvinnsluiðnað tengdan henni
hefði ekki komið í veg fyrir hrunið
en það hefði mildað áhrifin.
Í góðæri er auðvelt að halda að
þetta verði alltaf svona, en ekkert
í skemmri eða lengri tíma sögu
efnahags styður slíka draumóra.
Það koma tímar þegar gott er að
vera sem mest sjálfbjarga með
nauðsynjar. Ekki aðeins mat,
heldur einnig byggingarefni og
margs konar hráefni til að halda
atvinnulífinu gangandi.
Okkur Íslendingum hefur
tekist að lifa af án skóga. Fram
undir 1940 fylgdi því veruleg
fátækt og landið bar miklu færra
fólk. Síðan hefur leiðin legið
uppávið, vegna útflutnings á
framleiðslu hafsins, framleiðslu
fallvatna og nú seinast vegna
ferðamanna, sem allt er háð
greiðum samgöngum við útlönd,
m.ö.o. háð olíu. Þetta verður ekki
svona til eilífðar.
Við erum rík þjóð og nú
ríkir góðæri. Það er einmitt á
slíkum tímum sem fjárfesta á
í innviðum, helst varanlegum
innviðum sem gefa fjölbreyttan
ágóða í framtíðinni og gera
okkur betur kleift að takast á við
erfiðari tíma þegar þeir koma.
Skógar eru meðal þeirra innviða.
Fjárfesting í framleiðslumikilli
skógarauðlind er reyndar með því
allra besta sem hægt er að gera
við peninga þegar nóg er af þeim.
Þannig eru peningar teknir út úr
helst til heitu hagkerfi og geymdir
þar til meiri þörf er á þeim. Og
skógarnir sem þannig verða til
draga úr loftslagsbreytingum,
vernda og bæta jarðveg og skapa
fjölbreytta notkunarmöguleika á
meðan þeir eru að vaxa. Síðan er
hægt að stilla notkun þeirra eftir
þörfum hagkerfisins hverju sinni,
höggva minna þegar auðvelt er
með innflutning en meira þegar
þörf er á. Með okkar eigin
skógarauðlind höfum við þetta
val. Án skógarauðlindar höfum
við ekkert val. Við neyðumst til
að flytja allt inn, líka þegar það
er okkur erfitt.
Við getum eignast þennan
fjölþætta ábata skóga, sem
nágrannaþjóðir okkar eru
ekki í nokkrum vafa um að sé
bráðnauðsynlegur, með því að
þjóðin fjárfesti í að byggja upp
skógarauðlind nú þegar tækifæri
gefst. Eða við getum vonað að
þetta reddist.
Þröstur Eysteinsson
skógræktarstjóri.
Um innviði
Þröstur Eysteinsson á Hólasandi þar sem verið er að reyna að breyta
eyðimörk í skóg.
Í jólaskógunum er tækifæri fyrir fjölskyldur að koma saman og gera sér glaðan dag. Maríus Máni, Baldur Sindri og
Álfrún Edda skemmtu sér vel í leit að þessu snotra sitkagreni. Mynd / smh
Jólaskógar skógræktarfélaganna:
Salan skiptir miklu máli
Líkt og undanfarin ár standa flest
skógræktarfélögin fyrir sölu á
jólatrjám í jólaskógum sínum á
aðventunni, þar sem fólki er boðið
upp á að velja sín tré og saga þau
niður.
Næsta helgi er síðasta söluhelgin
hjá flestum félögum en að sögn
Jónatans Garðarssonar, formanns
Skógræktarfélags Íslands, verður
opið fram á Þorláksmessu hjá stærri
félögunum.
„Jólaskógarnir eru starfræktir
með sama sniði og undanfarin
ár en það hefur færst í vöxt að
handverksvarningur og skreytingar
séu til sölu á stærri stöðunum til
viðbótar við jólatré, greinar, köngla
og eldivið.
Það selst mest af stafafuru, en
fólk kaupir líka mikið rauðgreni
og blágreni. Fjallaþinur hefur
ekki enn náð almennilega inn á
markaðinn þar sem enn er verið
að vinna að ræktun hans og það
mun taka nokkur ár áður en hann
verður til í nægjanlegu magni. Þetta
er skemmtilegt þróunarverkefni
sem mun væntanlega skila góðum
árangri á næstu árum.
Það er að sjálfsögðu mjög mikils
virði fyrir íslenska skógrækt að
landsmenn kaupi tré sem eru ræktuð
hér á landi. Fyrir hvert selt tré er
hægt að gróðursetja fjölmörg ný
tré og vistsporið er afar mikilvægur
þáttur í þessu öllu saman,“ segir
Jónatan.
Salan heldur á niðurleið
Ragnhildur Freysteinsdóttir,
ritstjóri vefmiðla og Laufblaðs
Skógræktarfélags Íslands, hefur
tekið saman sölutölur fyrir jólatré
undanfarinna jóla. „Salan hjá
skógræktarfélögunum hefur verið
á bilinu 5.000–7.000 tré árlega. Því
miður er fjöldinn heldur á niðurleið
hjá félögunum, en á móti þá eru
skógarbændur að koma meira inn
á markaðinn, nú á allra síðustu
árum. Spilar líka inn í „góðærið“
nú. Fjöldinn var heldur á niðurleið
fyrir hrun, fór upp eftir hrun –
þegar almennur meðbyr var með
íslenskum afurðum – og dalar aftur
nú.“
Blágreni í sókn
Að sögn Ragnhildar er nokkur
hreyfing í söluhlutfalli tegunda á
milli ára. „Stafafuran er heldur á
niðurleið – mótast reyndar töluvert
af framboðinu, því það er nokkuð
misjafnt milli ára hversu mikið er
til af fallegri furu. Salan á henni
var í kringum 2/3 en er komin
niður í um helming. Rauðgrenið er
í kringum 10–15 prósent að jafnaði,
sitkagreni svipað en blágreni heldur
á uppleið síðustu ár; úr um fimm
prósentum upp í rúmlega 10 prósent.
Fjallaþinur hefur verið í kringum
tvö prósent og væri hægt að selja
mun meira af honum ef meira væri
til af honum. Er enn verið að finna
bestu kvæmin og þarf heldur lengri
árafjölda til að verða jólatré en til
dæmis furan enn sem komið er.
Upplýsingar um jólatrjáasölur
félaganna eru svo á www.skog.is/
jolatre. Flest félögin eru með sölu
næstu tvær helgar, eða aðra hvora
helgina. Þau félög sem enn verða að
selja eftir helgina 16.–17. desember
eru Skógræktarfélag Árnesinga,
Skógræktarfélag Eyrarsveitar,
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og
svo Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.
Sala skógræktarfélaganna
skiptir miklu máli – fyrir mörg
félög er þetta bæði skemmtilegur
og félagslegur vettvangur, þar sem
þarna gefst tækifæri fyrir fjölskyldur
að koma saman úti í skógi og gera
sér glaðan dag. Svo er þetta leið fyrir
félögin að kynna skógana fyrir fólki,
auk þess sem félögin hafa af þessu
tekjur, sem nýtast til annarra verka
og umhirðu í skóginum.“ /smh
Bændablaðið
kemur næst út 11. janúar
Smáauglýsingar 56-30-300
Hafa áhrif um land allt!
Marteinn Sigurðsson, bóndi á Kvíabóli í Köldukinn, var að dreifa skít á tún sín á dögunum. Slíkur skítburður ber
greinilega árangur því mörgum þykir túnin í Kvíabóli jafnan með þeim grænustu og fallegustu á landinu.
Mynd / Áskell Þórisson