Bændablaðið - 06.04.2017, Síða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. apríl 2017
FRÉTTIR
Lítið um landverði að störfum yfir veturinn:
Viðkvæm svæði liggja
undir skemmdum
Landvarsla að vetri er erfiðari en
á sumrin vegna tíðarfars. Svæðin
eru viðkvæmari fyrir miklum
fjölda ferðamanna þegar ekki er
frost í jörðu eða hún snævi þakin.
Gróður verður berskjaldaður
fyrir traðki þegar hann er í dvala
og jörð ekki frosin eða undir snjó. Í
mildu vetrarárferði eins og nú gæti
tjón af völdum ágangs ferðamanna
orðið meira en ella. Ýmis svæði
liggja undir skemmdum.
Þetta kemur fram í máli
Hákonar Ásgeirssonar, sérfræðings
Umhverfisstofnunar á Suðurlandi,
á vefsíðu stofnunarinnar. Hann
telur einsýnt að spjöll gætu víða
komið í ljós í vor, sem kalli á
frekari verndun og uppbyggingu
vegna ferðamannastraums. Einnig
að huga þurfi betur að öryggi ferða-
manna.
Grasflötin við Skógafoss
illa farin
Dæmi um svæði sem hafa farið illa
í vetur vegna bleytu og þíðu er við
Skógafoss. Grasflötin fyrir framan
fossinn er mjög illa farin, að sögn
Hákonar, þar sem gróðurinn gat
ekki varið sig með frosinni jörð eða
snjó. Mesta fjölgun ferðamanna
er yfir vetrarmánuðina og er vart
núorðið mikill munur á aðsókn
milli sumars og vetrar.
Tímabært að huga að landvörslu
árið um kring
Landverðir eru þó að sögn Hákonar
vart sjáanlegir þar sem þeir starfa
að mestu bara yfir sumarmánuðina.
Ferðamannatímabilið stendur nú
yfir allt árið og nauðsynlegt að
landvarsla sé í takt við þá breytingu.
Nefnir hann sem dæmi að þúsundir
leggi leið sína að Skógafossi og
Dyrhólaey en þar starfi ekki land-
verðir yfir veturinn.
Hákon segir löngu tímabært að
hafa landvörslu allt árið um kring,
einkum á fjölmennustu ferða-
mannastöðunum. Sem dæmi nefnir
hann Gullfoss, Geysi, Skógafoss
og Dyrhólaey, vetrarlandvarsla
væri einnig brýn í Þjóðgarði
Snæfellsjökuls, á friðlýst svæði
í Borgarfirði og nágrenni og í
Mývatnssveit. /MÞÞ
Ferðaþjónustubændur, BÍ og Orkusetur:
„Hleðsla í hlaði“
– Bændur bjóði rafbílanotendum upp á hleðslu
Ferðaþjónustubændur, Bænda-
samtökin og Orkusetur hafa á
síðustu vikum rætt mögulegt
samstarf sem lýtur að því að bjóða
rafbílaeigendum upp á hleðslu á
sveitabæjum. Hugmyndin er að
byggja upp þjónustunet á meðal
bænda og styrkja þannig innviði
fyrir notkun rafbíla úti á lands-
byggðinni.
Á dögunum sendi Hey Iceland,
sem áður hét Ferðaþjónusta bænda,
bréf til sinna félagsmanna þar sem
óskað var eftir áhugasömum ferða-
þjónustubændum í verkefnið en
vinnuheiti þess er „Hleðsla í hlaði“.
Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri
hjá Hey Iceland, segir að víða leyn-
ist tækifæri til aðgerða í umhverfis-
málum og fyrirtækið vilji leggja
sitt af mörkum við að bæta lífsgæði
og vernda náttúruna fyrir komandi
kynslóðir.
„Rafbílavæðingin hér á landi
hefur verið lengi í umræðunni sem
mikilvægt framlag til að draga úr
gróðurhúsaáhrifum. Það er ekki
spurning um hvort heldur hvenær
rafbílavæðingin hefst af fullum krafti
og því mikilvægt að við undirbúum
farveginn fyrir þessa breytingu sem
lið í aukinni þjónustu við gesti og
sýnum gott fordæmi með því að taka
þátt í að styðja við aukna notkun
rafbíla á landsvísu,“ sagði í bréfinu
til ferðaþjónustubænda.
Margs konar ávinningur
Ýmsir telja að rafhleðslustöðvar
verði jafn sjálfsagðar á ferðaþjón-
ustubæjum og þráðlaust net er í dag
fyrir gesti. Fyrir ferðaþjónustubænd-
ur er því um nauðsynlega þjónustu að
ræða ef menn vilja ekki dragast aftur
úr í samkeppninni. Ávinningurinn er
fyrst og fremst aukin þjónusta við
gestina en ferðalangurinn á fjölbreytt
viðskipti við bóndann; kaupir áfyll-
ingu á rafbíl, gistingu, veitingar og
jafnvel afþreyingu. Rafbílaeigandinn
finnur fyrir auknu öryggi, vitandi
af því að hann getur ekið lengri
vegalengdir á rafmagni með við-
komu á bændastöðvum eða stærri
hleðslustöðvum.
Kanna áhuga hjá bændum
Næstu skref eru að kanna áhuga
bænda á að taka þátt í verkefninu.
Ennþá á eftir að meta umfang og
kostnað við að þétta net rafhleðslu-
stöðva um landið. Tæknin er í örri
þróun og nokkrar mismunandi
tegundir af hleðsluþjónustu eru
fyrir hendi, allt frá einföldum fram-
lengingarsnúrum til fullkominna
hraðhleðslustöðva.
Ef áhugi reynist fyrir hendi hjá
bændum og verkefnið er raunhæft út
frá fjárhagslegum forsendum verður
haldið áfram. Hugmyndin er sú að
þátttakendur setji upp skilti sem vísi
á hleðslustöðvar og staðirnir verði
merktir inn á helstu kort og vefsíður.
Hey Iceland hefur óskað eftir því
að ferðaþjónustubændur sem vilji
stíga fyrstu skrefin hafi samband
við skrifstofuna fyrir lok fimmtu-
dagsins 27. apríl. Aðrir bændur,
sem kunna að hafa áhuga á að setja
upp hleðsluþjónustu, er bent á að
hafa samband við Bændasamtökin
í netfangið bondi@bondi.is. Nánar
verður fjallað um rafbílavæðingu og
hleðslumöguleika í Bændablaðinu í
næstu tölublöðum. /TB
Stjórnkerfið fær falleinkunn
í fæðuöryggismálum
– sagði landgræðslustjóri á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda
Árni Bragason landgræðslustjóri
þakkaði bændum sérstaklega
fyrir vel unnin störf í þágu upp-
græðslu í ræðu sinni á aðalfundi
Landssamtaka sauðfjárbænda.
Kom hann víða við í ræðu sinni
og vék m.a. að mikilvægi þess að
Íslendingar hugi að fæðuöryggis-
málum.
„Við búum í landi elda og íss.
Forfeður okkar komu til Íslands með
búskaparhætti sem nefnast sviðn-
ingsræktun, búskaparhætti sem tíðk-
uðust á Norðurlöndunum fyrir 1000
árum og tíðkast enn meðal frum-
stæðra samfélaga – menn brenna
skóga og sá korni í volga öskuna og í
framhaldinu vex upp gras sem verð-
ur beitiland búfjár og síðar vex skóg-
urinn aftur. Þessir búskaparhættir
hentuðu ekki á Íslandi því hér erum
við með öðruvísi jarðveg og gróður
og því hrundu vistkerfi okkar með
tilheyrandi jarðvegseyðingu,“ sagði
Árni í ræðu sinni.
Mikið hefur áunnist
„Gríðarlega mikið hefur áunnist í
gróðurvernd á undanförnum ára-
tugum – upprekstur hrossa á afrétti
heyrir nú að mestu sögunni til og
beitartími sauðfjár á illa förnum
afréttum hefur verið styttur mikið.
Sauðfjárbændur hafa um langt árabil
unnið frábær uppgræðslustörf á illa
förnum afréttum og sínum heima-
löndum og leggja mikið af mörk-
um og ómælda vinnu við að græða
landið, með frábærum árangri. Fyrir
það ber að þakka.”
Samningur um vöktun
gróðurauðlindarinnar
„Þann 14. mars skrifuðu
Landssamtök sauðfjárbænda,
Landgræðslan, Bændasamtökin og
atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti
undir samning um vöktun gróður-
auðlindarinnar. Aðdragandi samn-
ingsins var nokkur því við hófum
samtal í október á síðasta ári en eftir
að áætlun um verkefnið var sett á
blað gengu hlutirnir hratt fyrir sig.
Verkefninu, sem hugsað er til
næstu 10 ára, og vonandi enn lengri
tíma, er ætlað að styrkja þekk-
ingu okkar á gróðurauðlindinni.
Markmið verkefnisins eru að: (a)
skila með reglubundnum hætti
heildarmati á ástandi gróður- og
jarðvegsauðlinda landsins og gera
grein fyrir breytingum þar á (b) þróa
sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður-
og jarðvegsauðlinda landsins.
Við ætlum okkur að vinna með
bændum og landeigendum að þessu
mati. Við byggjum á góðum grunni
– matsaðferðum sem Landgræðslan
hefur verið að þróa til að meta hvort
land sé tilbúið til afhendingar eftir
uppgræðslu. Við byggjum einnig
á rannsóknum LbhÍ og vistgerða-
flokkun NÍ. Þekking og tækni er
að aukast – hægt er að nýta GPS-
tækni ásamt gervitunglamyndum,
loftmyndum og drónamyndum.
Þróun á myndgreiningum hefur
fleygt fram og mögulegt er að greina
af myndum þroskastig plantna og
ástand gróðurs.”
Frumskilyrði að menn tali
sama tungumál
„Það er algjört frumskilyrði að við
tölum sama tungumálið þegar við
fjöllum um nýtingu lands og ég vona
að verkefnið hjálpi okkar við það.
Gæðastýring í sauðfjárrækt hefur
verið gagnrýnd af ýmsum sem segja
hana hvítþvott og í einhverjum til-
vikum til þess að viðhalda beit á
landi sem ekki þolir beit.
Þeir hinir sömu gleyma því að
vegna gæðastýringarinnar voru 300
þúsund hektarar friðaðir og ástand
margra beitilanda hefur batnað,
við eru þó enn með stór landsvæði
sem hrópa á uppgræðsluaðgerðir
eða friðun.
Ekkert kerfi er fullkomið og
samstarfsverkefninu Mat á gróður-
auðlindinni er m.a. ætlað að styrkja
gæðastýringuna og þróa sjálfbærni-
vísa.
Fólki fjölgar hratt á jörðinni
okkar, íbúafjöldinn er nú að nálgast
7,5 milljarða. Fjölgunin nú er um
1,1 % á ári en talið er að draga muni
úr fjölgun á næstu áratugum og að
um 2050 verði fjölgunin tæplega
0,6 % en að á þeim tíma þurfi allt að
70% meiri mat en nú því meðalaldur
hækkar.“
Stjórnkerfið fær falleinkunn í
fæðuöryggismálum
„Hvernig stöndum við Íslendingar
okkur í fæðuöryggismálum?
Stjórnkerfið okkar fær falleinkunn
því miður, því við höfum ekki greint
stöðu okkar sem skyldi. Allar vélar
til fiskveiða, fiskeldis og landbúnað-
ar eru knúnar olíu. Við erum einnig
algjörlega háð innflutningi á korn-
vörum. Ef innflutningur stöðvast
þá hrynur mjólkur-, eggja- og
kjúklingaframleiðslan og svína-
ræktin.“
Bændum oftast svarað með
skætingi um fæðuöryggismál
„Bændur hafa stöku sinnum vakið
máls á fæðuöryggismálum en þeim
er oftast svarað með því að þeir séu
að reka áróður fyrir óhagkvæmum
landbúnaði.
Við getum ræktað olíuplöntur og
bygg á Íslandi og framleitt miklu
meira af fóðrinu sem við þurfum.
Stjórnvöld þurfa að styðja við kyn-
bætur og jarðræktarrannsóknir á
Íslandi því það er enginn á jörðinni
okkar sem býr við sömu hita- og
birtuskilyrði og við.
Staða sauðfjárræktarinnar er
erfið eins og fram hefur komið. Það
er alveg ljóst að sá mikli meirihluti
bænda sem er með sín beitarmál
í lagi er ekki sáttur við þá sem
eru að nýta illa farið land til beit-
ar. Landgræðslan fær ábendingar
um svæði þar sem beit er meiri en
landið þolir og starfsmenn okkar
meta hvort slíkar ábendingar eigi
við rök að styðjast.
Ef fé er að koma í miklum mæli
í réttir í næstu sveitum ber okkur að
leggja mat á það hvort orsökin sé of
mikil beit í heimalöndunum og svo
virðist vera á ákveðnum svæðum.“
Lítum til uppbyggingar
skógarauðlindarinnar
„Hvernig getum við stuðlað að því
að fyrirsjáanlegur niðurskurður í
greininni verði þar sem ástand beiti-
landa er verst?
Ég tel að við eigum að líta til þess
sem gert er varðandi uppbyggingu
skógarauðlindarinnar.
Stjórnvöld styrkja verkefnið
Nytjaskógrækt á lögbýlum.
Skógræktarráðgjafi heimsækir
jörð – Að loknum athugunum gerir
skógræktarráðgjafi tillögu þar sem
m.a. eru tilgreind mörk væntanlegs
samningssvæðis.
Hvers vegna gerum við ekki
samninga um uppgræðslu og beitar-
stýringu á lögbýlum þar sem bændur
yrðu styrktir til að fækka fé og bæta
land sitt og gera það betur hæft til
beitar í framtíðinni?
Ég óska sauðfjárbændum alls
hins besta í sínum verkefnum og
vona að ykkur gangi allt í haginn
hér í ykkar þýðingarmiklu störfum
á aðalfundinum.“
Sjálfbær landnýting hagur okkar
og afkomenda okkar
„Ég bind miklar vonir við þann sam-
starfssamning sem við undirrituðum
nýlega og ég vona að allir leggist á
eitt með að reyna að færa landnýt-
inguna nær því að verða með sjálf-
bærum hætti – það er hagur okkar en
ekki síst hagur afkomenda okkar,“
sagði Árni Bragason landgræðslu-
stjóri. /HKr.
Árni Bragason landgræðslustjóri í ræðustól á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda. Mynd / HKr.
Rafbíll bóndans í Fagradal fyrir utan fjárhúsin. Mynd / Jónas Erlendsson