Bændablaðið - 29.11.2018, Page 37

Bændablaðið - 29.11.2018, Page 37
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. nóvember 2018 37 Ferskjur bárust til Grikklands um 300 fyrir Krist eftir að Alexander mikli lagði undir sig Persíu. Rómverjar voru farnir að rækta ferskjur í Bologna-héraði hundrað árum eftir Krist og það má sjá myndir af þeim á veggjum í Pompei sem eldgosið í Vesúvíus lagði í eyði 79 eftir Krist. Spænskir landkönnuðir báru með sér ferskjur yfir Atlantshafsála til Mið- og Suður-Ameríku á 16. öld. Um öld seinna berast þær til Frakklands, Bretlands og norður eftir Evrópu. Talið er að breski garðyrkjumaðurinn George Minifie hafi fyrstur manna haft með sér ferskjur til Norður-Ameríku á 17. öld og ræktað á landareign í Virginíuríki. Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna, ræktaði ferskjutré á búgarði sínum Monticello í sama ríki. Sagt er að Cherokke-indíánar hafi snemma lært að rækta ferskjur af evrópsku landnemunum. Almenn ræktun á ferskjum í Norður-Ameríku hófst þó ekki fyrr en á nítjándu öld. Í dag er ræktun á þeim í Bandaríkjunum mest í Kaliforníu. Ræktun og ólík yrki Ferskjur og nektarínur kjósa mikla sól og fremur þurran og niturríkan jarðveg en þola illa að þorna um of. Þær dafna best þar sem greinileg skil eru milli árstíða. Æskilegur sumarhiti er milli 20° og 30° á Celsíus. Plantan þarf hvíldartíma þar sem hitinn fer niður fyrir 10° á Celsíus í að minnsta mánuð á ári. Ferskjutré þola allt að mínus 30° á Celsíus en blómvísar drepast við mínus 15° á Celsíus. Við góðar aðstæður mynda ferskju- og nektarínutré aldin á þriðja ári og trén í ræktun í sjö til fimmtán ár eftir afbrigðum áður en þeim er skipt úr fyrir ný. Líkt og flest ávaxtatré af ættkvíslinni Prunus þola ferskjutré vel klippingu og því auðvelt að móta trén að vild. Mismunandi er milli afbrigða ferskja og nektaría hvort aldinið losnar auðveldlega frá fræhulstrinu eða ekki og eru þau fyrrnefndu vinsælli til átu fersk en þau fastheldnu meira notuð í vinnslu á safa og til niðursuðu. Ræktendur kjósa helst afbrigði ferskja og nektarína sem eru fastar í sér, rauðleitar og með mjúkri flauelshúð þar sem slík aldin þola betur flutning, hafa lengri hillutíma í verslunum og seljast almennt betur. Þetta val hefur dregið úr bragðgæðum aldinanna þar sem mjúk aldin eru sætari á bragðið en stinn. Dæmi um ferskjuafbrigði sem þykja skara fram úr eru meðal annarra 'Duke of York', 'Peregrine', 'Rochester' og 'Lord Napier' sem er nektarína. Til er afbrigði af ferskjum sem kallast 'pan-tao ', kleinuhringja- eða Satúrnusarferskjur, Prunus persica var. platycarpa, og eru þær flatari í lögun en venjulegar ferskjur og þær hafa fengist í verslunum hér á landi. Eins og með aðrar plöntur í ræktun sækja margvíslegar óværur á ferskjur og nektarínur og er margs konar eiturefnum beitt til að draga úr skaða þeirra. Reyndar eru ferskjur og nektarínur í hópi með plöntum sem kallast „Dirty dozen“ og er hópur þeirra tólf plantna sem mest er notað af eiturefnum við ræktun á. Nektarínur Ekki er vitað fyrir víst hvenær nektarínur komu fyrst fram á sjónarsviðið en þeirra er fyrst getið í enskum ritheimildum árið 1616 en talið er víst að þær hafi verið í ræktun í Asíu mun lengur og jafnvel álíka lengi og ferskjur. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er getið um ræktun á nektarínum í dagblaði í New York árið 1768 og sagt að þær séu ræktaðar við útjaðra borgarinnar. Plöntusafnarinn David Fairchild flutti einnig fjölda yrkja til Bandaríkjanna í kjölfar söfnunarferða sinna um heiminn í upphafi tuttugustu aldarinnar. Ferskjur og menning Ferskjur koma víða fram sem tákn, í trúarbrögum, listum og alþýðutrú. Í kristni voru ferskjualdin tengd þrenningunni, faðir, sonur og heilagur andi, vegna þess að aldinið skiptist í aldinkjöt, fræhulstur og fræ. Sum málverk endurreisnartímans, sem sýna Maríu og Jesúbarnið, heldur Jesú á ferskju sem tákn um fyrirgefningu. Dæmi um evrópska málara sem haft hafa ferskjur eða ferskjutré sem mótíf við ólíkar aðstæður eru Caravaggio, Renoir, Monet, Manet, Rubens og Van Gogh. Samkvæmt því sem listvitringar segja geta ferskjualdin í evrópskum málverkum staðið sem tákn fyrir hjartað og sé laufblað tengt aldininu táknar það tunguna. Saman tákna aldinið og laufið að sannleikurinn sé sagður frá hjartanu. Þroskað aldin er sagt merki um góða heilsu en skemmt eða ormétið krankleika. Í kínverskri alþýðutrú eru ferskjur tákn um langlífi og í þarlendum goðsögnum er talað um ferskjur ódauðleikans sem hafa þann eiginleika að yngja alla þá upp sem þær borða. Samkvæmt kínverskri sögn tryggðu Jaðe keisarinn og eiginkona hans drottingarmóður Vestursins guðlegum verum eilíft líf með því að bjóða þeim til veislu þar sem boðið var upp á ferskjur ódauðleikans. Sagt er að guðaverurnar hafi beðið í sex þúsund ár eftir veislunni þar sem ferskjutré ódauðleikans laufgast á þúsund ára fresti og að minnsta kosti þrjú þúsund ár til viðbótar þarf til að afbrigðið þroski aldin. Kínverski heimspekingurinn Han Fei, sem uppi var á þriðju öld fyrir upphaf okkar tímatals, notar ferskjur sem samheiti yfir samkynhneigð í riti. Í japönskum þjóðsögum segir að hetjan Monotaro hafi fæðst af stórri ferskju sem flaut með straumnum í ónefndri á, Ferskjudrengurinn, eins og Monotaro er stundum nefndur. Eftir fæðingu barðist ferskjupilturinn gegn hinu illa í heiminum. Kóreubúar segja ferskjur vera aldin hamingju, ríkidæmis, heiðurs og langlífis. Beri aldin tvö fræ er það sagt vera fyrirboði um mildan vetur. Nytjar Yfirleitt er ferskja og nektarína neytt ferskra en þær eru líka góðar niðursoðnar eða pressaðar í safa. Þær eru einnig notaðar í bakstur og sem eftirréttur og með ís og í ávaxtasalat. Hurðir smíðaðar úr ferskjuvið eru sagðar góð vörn gegn illum öndum og að skjóta örvum úr ferskjuviði úr boga úr sama viði góð leið til að hrekja burt illa vætti og anda. Vendir og nisti úr ferskjuvið eru verndargripir gegn illu. Fræhulstur ferskjualdins er notað í kínverskum lækningum gegn blóðsjúkdómum, þembu og til að draga úr ofnæmiseinkennum. Ferskjur og nektarínur á Íslandi Í Lesbók Morgunblaðsins október 1926 er að finna orðasafn sem Orðanefnd Verkfræðingafélagsins tók saman að ráðum og atbeina verslunarmanna í Reykjavík. Í safninu er að finna tillögur að íslenskun á fjölda erlendra orða Eitt þessara orða er danska heitið fersken og lagt til að það verði eftirleiðis ferskja. Það er einnig lagt til að kryddið allehanden sé kallað kryddblendingur, apríkósa eiraldin og saffran safur og beygist eins og hafur. Samkvæmt því sem segir í Heimilisritinu frá 1951 boðar það góða heilsu og áhyggjuleysi að dreyma ferskju og í Tímanum um svipað leyti þar sem vitnað er í bréf Klöru Patecci undir fyrirsögninni Ástarævintýri Mussolini: „Manstu þegar þú sagðir við mig: Munnur þinn er eins og ferskja, sem mig langar til að gæða mér á.“ Upp úr 1970 fer að bera á ferskjum og nektarínum á matseðlum veitingahúsa og í auglýsingum og í dag þykja þær sjálfsagðar í ávaxtadeildum matvöruverslana. Ferskjur eru sætir ávextir ferskjutrjáa, Prunus persica. Ferskjutré eru lauffellandi og ná hæglega tíu metra hæð í náttúrulegum heimkynnum sínum í Asíu. Framleiðsla á ferskjum og nektarínum hefur aukist hratt undanfarin ár og áætluð heimsframleiðsla á ferskjum og nektarínum árið 2016 er rúm 25 milljón tonn. Ferskjutréð Vincent Willem van Gogh. Málað 1888.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.