Spássían - 2013, Síða 24
24
litla virðingu fyrir ásynjunum, álit þeirra skiptir ekki máli
og þeim finnst sjálfsagt að Freyja þjóni samfélaginu með
því að giftast Þrymi og færa ásunum þannig hamarinn á
ný. Neitun hennar, sem í kvæðinu er tekin góð og gild, er
varla svara verð í sögunni og ætlast er til að hún fórni sér
fyrir samfélagið í aðstæðum sem karlarnir ráða ekki við.
Heimdallur og Loki fá hins vegar þá afbragðshugmynd að
dulbúa Þór frekar sem Freyju.
Þegar til Þryms er komið er Þór látinn vinna
kvenmannsverk, sem honum líka alls ekki og enn síður þegar
kemur að því að greiða út laun dagsins og hann fær mun
minna en karlmennirnir fyrir svipaða vinnu. Þau laun eru
m.a.s. dregin til baka þegar greiðandinn uppgötvar að hann
er væntanleg húsfreyja og á þess vegna að vinna launalaust.
Þór verður sármóðgaður yfir því hvernig jötnarnir fara með
konur sínar, en áttar sig ekki á að hann er sekur um svipaðan
hugsunarhátt gagnvart ásynjunum. Þór í kvenklæðum
verður líka fyrir aðkasti jötnanna, sem sumir fara með
ýmsar klisjur um gagnsemi kvenna, þær eigi að vera grannar
og fallegar til að gleðja menn sína, að nei sé meyjar já og að
það eina sem konur skilji séu barsmíðar.
Aðkastið sem Þór verður fyrir sem kona í Jötunheimum
gengur lengra en að endurspegla einvörðungu hans
eigin karlrembu í Ásgarði. Framsetningin á því áreiti og
misskiptingu sem hann verður fyrir í kvenmannsgervi er
fremur ádeila út fyrir heim bókanna, á misskipt kjör karla
og kvenna og baráttu femínista fyrir jöfnum kjörum, en
sú barátta var í fullum gangi á ritunartíma bókarinnar. Í
stað þess að vera, líkt og kvæðið, gamansaga um hversu
ómögulegt það er fyrir Þór að dyljast í kvengervi, verður
bókin ádeila á misskiptingu kynjanna.
SKÁLDSKAPARMJÖÐURINN
Ellefta bókin, Mysteriet om digtermjøden (1998), fjallar um
tilurð skáldskaparmjaðarins og það hvernig Óðinn kom
höndum yfir hann. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er
sagt frá því hvernig mjöðurinn varð til. Þegar saminn var
friður eftir stríð ása og vana hræktu þeir allir í pott og úr
var skapaður maðurinn Kvasir, sem var svo vitur að hann
ferðaðist milli heima og deildi visku sinni, allt þar til
dvergarnir Fjalar og Galar myrtu hann og blönduðu blóði
hans við hunang, svo úr varð skáldskaparmjöðurinn.
Dvergarnir drápu síðar jötuninn Gilling og þurftu að greiða
syni hans Suttungi mjöðinn í föðurgjöld. Dóttir Suttungs,
Gunnlöð, gætir mjaðarins og þegar Óðinn kemst til hennar
með brögðum fær hann einn sopa af miði fyrir hverja þeirra
þriggja nátta sem hann dvelur hjá henni. Það nægir honum
til að drekka allan mjöðinn og fljúga í arnarham með hann
heim í Ásgarð.
Þessi saga er sögð og teiknuð í film noir-stíl, en film noir
er hugtak notað um svart-hvítar glæpamyndir frá fimmta og
sjötta áratug tuttugustu aldar. Oft er aðalsöguhetja slíkra
mynda einkaspæjari og það hlutverk fær Óðinn. Á dimmu
og drungalegu kvöldi fær hann viðskiptavini, dvergana
Fjalar og Galar, til sín. Þeir segjast hafa verið ranglega
sakaðir um morðið á Gillingi og þurft að greiða Suttungi,
syni hans, mjaðartunnu í föðurbætur. Trúverðugleiki
viðskiptavinanna er lítill sem enginn en þeir fela Óðni að
endurheimta tunnuna innan ákveðins tímaramma. Til að
hvetja hann enn frekar gefa þeir honum sopa af miðinum,
sem er, ólíkt öðrum miði, ekki vatnsblandað hunang heldur
áfengur. Þannig verður leit Óðins að miðinum í senn leit
hans að skáldagáfunni og löngun einkaspæjarans í áfengan
drykk. Gunnlöð er sett í hlutverk femme-fatale sem gefur
hetjunni misvísandi upplýsingar en að lokum nær hann að
snúa á hana og kemst yfir mjöðinn.
Teikningarnar eru dimmar og drungalegar, sögutíminn
er í gráum og brúnum tónum en endurlit til fortíðar í lit.
Hugsanir og vangaveltur Óðins um rannsóknina leiða
söguna áfram, þær eru stuttar og hnitmiðaðar en fullar af
goðfræðilegum vísunum. Örlög Mímis eru tengd inn í
söguna og skýrt hvernig hann missti líkamann. Einnig er
litið til Ynglingasögu þar sem Kvasir er sagður vera vanaættar
og gísl ása, líkt og Njörður og börn hans. Hinn dularfulli
Hænir, sem er ekkert nema nafnið í goðsögunum, kemur
líka við sögu. Úr verður mál þar sem hlutirnir eru ekki eins
og þeir sýnast í upphafi, heldur leynast lygar og samsæri
víða. Einnig er unnið með hugmyndir um kvenveldi vana
og gert grín að því hversu miklar karlrembur æsirnir eru og
því geti þeir aldrei öðlast visku vana.
DAUÐI BALDURS
Þrettánda bókin nefnist Balladen om Balder og fjallar um
dauða Baldurs, atburð sem í Snorra-Eddu er staðsettur rétt
á undan ragnarökum og vitnað er til í fleiri heimildum, svo
sem eddukvæðunum Völuspá og Baldurs draumum.
Í frásögn Snorra-Eddu dreymir Baldur illa og draumarnir
eru ráðnir sem forspá um dauða hans. Til að varna því fær
BÆKURNAR OG ÚTGÁFUÁR ÞEIRRA
Ulven er løs (1979)
Thors brudefærd (1980)
Odins væddemål (1982)
Historien om Quark (1988)
Rejsen til Udgårdsloke (1989)
De gyldne æbler (1990)
Ormen i dybet (1991)
Frejas smykke (1992)
Den store udfordring (1993)
Gudernes gaver (1997)
Mysteriet om digtermjøden (1998)
Gennem ild og vand (2001)
Balladen om Balder (2006)
Muren (2007)
Vølvens syner (2009)