Spássían - 2013, Blaðsíða 28
28
ímakistan gerist í nokkurs
konar hliðarveruleika, þar
sem íbúar Reykjavíkur –
og heimsins alls – hafa
gengið svo langt í viðleitni sinni til
að „spara“ tíma að þeir liggja nær
allir í þyrnirósardvala í sérstökum
tímakistum á meðan grasið grær upp
um gólffjalirnar, trjágreinar brjótast
inn um glugga og skógardýr spranga
um stofur og ganga. Nokkur börn
hafa þó hrokkið inn í framrás tímans
að nýju. Ráðvillt hlýða þau á gamla
konu segja heljarinnar ævintýri um
kóng og prinsessu og tímakistu og
lesandinn er dreginn með þeim inn í
fantasískt nútímaævintýri um tímann
og mannfólkið.
FYRIR BÖRN OG GAMALMENNI
Andri Snær sækir að einhverju leyti
í vísindaskáldskap í þessu verki sínu,
líkt og í síðustu bók sinni, LoveStar, en
segist ekki líta á þær sem hefðbundnar
dystópíur eða framtíðarsögur. „Þetta
eru hliðar-samtíðarsögur; svona
möguleiki í samtíðinni. Ég hef ekki
lesið mikið af dystópíubókmenntum.
Ég hef lesið The Road og svo eitthvað
þegar ég var yngri: Vonnegut,
Búlgakov, Calvino, Primo Levi,
Borges og Orwell. Salamöndrustríðið
eftir Karel Čapek las ég í þýðingu
Jóhannesar úr Kötlum. Og síðan
þjóðsögur og ævintýri. Svo blanda ég
þessu öllu saman.“
Hann viðurkennir jafnframt að það
sé smá þráður milli Tímakistunnar og
tveggja fyrri bóka hans, Bláa hnattarins
og LoveStar og staðsetur Tímakistuna
þarna mitt á milli. Enda má ef til vill
segja að hún sé mitt á milli þess að
vera barnabók og fullorðinsbók, en
sjálfur hefur Andri Snær sagt að bókin
sé ætluð fólki frá 9-99 ára. „Strax og
hugmyndin kom fannst mér að hún
ætti að vera fyrir börn og gamalmenni.
Ég ætlaði að sleppa millialdrinum;
bókin átti að vera fyrir fólk á aldrinum
-12 og 70+. Það var markhópurinn
hjá mér fyrst. Ég var eitthvað að pæla
í þessum markhópum, mér fannst þeir
svo leiðinlegir, þessir 6 - 9 ára stimplar.
Ég var að spá í að skrifa bók fyrir tíu ára
og sjö mánaða til ellefu ára og þriggja
mánaða. En svo endaði ég með að
ætla hana „núverandi og fyrrverandi
börnum“. Sem eru eiginlega allir.
Mig langaði líka að hafa persónurnar
aðeins eldri en Línu langsokk en ekki
mikið eldri en Ronju ræningjadóttur
eða bræðurna Ljónshjarta. Ég hugsa
þetta sem bókmenntir, frekar en fyrir
einhvern ákveðinn aldur barna, sem
eitthvað í ætt við Lewis Carroll og
Astrid Lindgren bækurnar, frekar
en til dæmis Hungurleikana; svona
listævintýri, fagurbarnabókmenntir.
Bækur sem sitja í minninu og sprengja
mörkin milli barnabókmennta
og fullorðinsbókmennta. Ég hef
aðeins verið að reyna á frelsi mitt
sem rithöfundur og berjast við þessi
box sem markaðurinn setur mann
í. Einhvern tíma sagði ég að það
væri skylda höfundarins að svíkja
lesendur sína. Þannig að þeir sem
vildu fá Draumalandið aftur, þeir fá
Tímakistuna. Og þeir sem vildu fá
LoveStar, þeir fengu Draumalandið
og þeir sem vildu Bláa hnöttinn fengu
LoveStar, sem börn skilja ekki, og
þeir sem vildu önnur Bónusljóð fengu
Bláa hnöttinn. Annars er ég hreinlega
að vona að ég eigi einhverja lesendur
sem lesa það sem ég skrifa frekar en að
ánetjast einni bókmenntagrein.“
Andri Snær var því ekki að reyna að
létta tungumálið og bókin er stundum
svolítið grimm og blóðug, eins og
ævintýrin gömlu, sem hann nýtir
sér óspart. Spurningarnar sem tekist
er á við eru líka stórar og flóknar og
svörin ekki endilega augljós. „Ég held
að krakkar hafi mjög gaman af stórum
spurningum. Og líka þessu blóðuga.
Ég átti þó alveg viðræður við vini mína
sem lásu kafla og sögðu stundum:
„Þetta gengur ekki“. En ég held að það
gangi samt.“
ÆVINTÝRI, HARMLEIKIR OG
GOÐAFRÆÐI
Ævintýrið sem sagt er í sögunni tekur
fljótt völdin svo ástandið sem lýst er í
upphafi bókar verður að ramma utan
um hina eiginlegu sögu. Andri Snær
segir að þannig hafi sagan einfaldlega
þróast. „Á einhverjum tíma var sagan
bara framtíðarsaga, síðan varð hún
hreint ævintýri sem var alveg tilbúið í
fyrra. En mér fannst flottara að blanda
báðum heimum saman frekar en að
hafa tvö bindi. Ég hugleiddi líka að
hafa verkið þrjú bindi. Í því fyrsta
væri ævintýrið, svo millisaga, svo
hliðarsamtíminn en fannst fallegra að
pakka þessu inn í eina sögu. Ég hugsaði
þetta líka með LoveStar, hún hefði
getað orðið þrjú bindi. En kannski er
það ekki mitt hlutverk að eyða tíma
fólks. Ég vil að sögurnar mínar séu eins
og hugmyndaþykkni, dálítið þéttar,
jafnvel rammar sem skilja eftir eitthvað
sem fólk getur pælt í. Kannski kemur
sá smekkur frá ljóðinu og gamalli
tilfinningu fyrir eðlisfræði þar sem
vindmótstaðan og annar óþarfi var
fjarlægður til að búa til fallegar jöfnur.
Mér finnst gaman að setja margar
hugmyndir inn í verk, og reyndar finnst
mér hugmyndirnar oft skemmtilegri en
persónurnar. Mér finnst alltaf erfitt að
finna nafn á persónu; ég roðna alltaf um
leið og hún heitir eitthvað, mér finnst
það svo hallærislegt. Ég var líka lengi að
fá söguna til að vera einfaldari. Ég hefði
náttúrulega getað sett óendanlega
margar sögur þarna inn í. Ég hefði til
dæmis getað spurt hvers vegna Maó
og Lenín liggja í glerkistum. Eru þeir
að bíða eftir að einhver prins komi og
kyssi þá?“
Andri Snær vinnur úr ævintýra-
hefðinni á sínum eigin forsendum,
notar til dæmis kunnugleg minni úr
sögunum um prinsessurnar Mjallhvíti,
Þyrnirós og Öskubusku, sem minnir
að einhverju leyti á þá endurvinnslu
á ævintýrum sem hefur verið í gangi í
afþreyingarmenningunni undanfarið.
T
Teikningin sem prýðir forsíðu
Tímakistunnar svo og þetta
viðtal er eftir Kötlu Rós
Völudóttur.