Spássían - 2013, Blaðsíða 71
71
átt hefur glatt þennan
leikhúsgrúskara meira en þau
tíðindi að búið væri að hleypa
af stokkunum ritröð þar sem íslenskir
leikstjórar gera grein fyrir afrekum
sínum. Fyrir utan sagnfræðigildið
þá eru ótrúleg verðmæti í því
fólgin að okkar besta fólk hleypi
sporgöngumönnum sínum og öðrum
áhugasömum inn á verkstæðið, ljóstri
upp leyndarmálum og skýri ætlanir
sínar. Velti jafnvel upp skýringum á
því af hverju sumt tekst ekki alveg sem
skyldi – það má alltaf vona.
Rökrétt líka að hefja seríuna
á Sveini Einarssyni. Eitt er nú að
ferillinn er orðinn langur og er
æði fjölbreyttur. Svo er væntanlega
leitun að íslenskum leikstjóra með
umtalsverða afrekaskrá sem hefur
lagt sig jafn mikið eftir því að skrifa
um leikhús, fræðilega jafnt sem
„sjálfsævisögulega“.
Fyrir utan stórvirkið um íslenska
leiklistarsögu liggja eftir Svein tvær
bækur sem rekja leikhússtjóraferil
hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur og
Þjóðleikhúsinu. Þar er að vonum
dvalið allnokkuð við þau verk sem
hann sviðsetur sjálfur, svo Sveinn er
alvanur að „greina sjálfan sig“, eins og
hinn nýi bókaflokkur krefst. Reyndar
sker Sveinn sig svo afgerandi frá
kollegum sínum hvað þetta varðar að
þó þessi bók sé komin út gefur hún í
sjálfu sér engar vísbendingar um að
auðvelt verði að fylla framhaldið.
Hver af tíu köflum bókarinnar
tekur fyrir eða leggur út af einni eða
tveimur uppfærslum þó vitaskuld
hlaupi höfundur út undan sér með
það, setji sýningarnar í samhengi við
aðrar úr eigin smiðju og þann tíma
sem sýningin er unnin á.
Sveinn velur að fara ólíkar leiðir
að þeim sýningum sem hann fjallar
um. Það er líka ljóst að hann nýtir
sér af skyn- og útsjónarsemi það
sem hann hefur áður skrifað um
efnið og því er ekki að neita að fyrir
mann sem er jafn handgenginn
leikhússtjórabókum höfundar
og ég er þá sæta sumir kaflarnir í
þessari nýju bók engum ógurlegum
tíðindum. Sveinn er hins vegar laginn
að nýta tilefnin sem viðfangsefnin
gefa til að víkka sjónarhorn sitt,
velta fyrir sér menningarástandinu,
leiklistarsögunni, leikbókmenntum
og fleiru. Þetta er ekki síst áberandi í
fyrri köflum bókarinnar, þar sem má
ímynda sér að helst hafi „snjóað yfir“
minningarnar um vinnuna sjálfa.
Þannig verður fyrsti kaflinn,
um uppsetninguna á Yvonne
Búrgundarprinsessu eftir Gombrowicz
(Leikfélag Reykjavíkur 1968) að mjög
áhugaverðu og gagnlegu yfirliti yfir
landnám framsækinnar leikritunar af
absúrdskólanum á Íslandi og tilraunir
ýmissa hópa til að færa út landamæri
leiktjáningarinnar. Litlu bætir hann
kannski við frásögn Iðnóbókarinnar af
uppfærslu verksins sjálfs en kaflinn er
skemmtilegur – og mikilvægur.
Eins verða frásagnir af uppfærslum
á Galdra-Lofti (RÚV 1970) og
Útilegumönnum Matthíasar (LR
1972) kveikjan að hugleiðingum um
hið þjóðlega, séríslenska og klassíska
í okkar leikbókmenntum og leikhefð,
sem verður að teljast mikill fengur
að. Leitin að hinu íslenska er Sveini
mjög hugleikin, bæði á þessum tíma,
en Útilegumannasýningin er stór
varða í þessu tilliti, og ekki síður síðar
þegar grúsk hans í forsögu leiklistar
á landinu hefur getið af sér tilraunir
á borð við Amlóðasögu (Bandamenn
1996) og Edda.ris (Bandamenn
2000) fyrir utan leiklestra á „týndum
verkum“ á borð við Álf í Nóatúnum
(Bandamenn 1996) og Bjarglaunin
eftir Geir Vídalín (Bandamenn 2010).
Það er ekki laust við að manni finnist,
við lestur þessarar bókar og annarra
úr smiðju Sveins, að á þessu sviði
hafi Sveinn reist sér óbrotgjörnustu
minnisvarðana.
Kaflinn um Kristnihald undir jökli
(LR 1970) er síðan frábært innlegg
í einhverja mest þreytandi umræðu í
íslensku leikhúsi - stöðu leikgerða.
Að höfundi frátöldum er
söguhetja bókarinnar klárlega Helgi
Hálfdanarson. Sveinn nýtur þess
greinilega að lýsa þessum vini sínum
og afreksmanni í íslenskri menningu.
Apótekarinn orðhagi kemur við
sögu í hvorki meira né minna en
fjórum köflum bókarinnar: Antígónu
(LR 1969), Pétri Gaut (Leikfélag
Akureyrar 1998), Hamlet (LA 2002)
og Fedru (Þjóðleikhúsið 2002), og
tekur í þeim öllum allnokkurt pláss
á sinn (uppgerðar)hógværa hátt. Það
gleður Helgahálfaaðdáendur á borð
við undirritaðan.
Í síðari köflum bókarinnar fer að
bera meira á vangaveltum um hvers
konar leikstjóra bókarhöfundur
telur sig vera orðinn, hver sé nálgun
hins fullþroska Sveins Einarssonar.
Það er býsna áhugavert þó það fái
kannski ekki alveg eins mikið pláss
og þessi lesandi hefði kosið. Í stuttu
máli sýnist mér Sveinn kappkosta að
nálgast viðfangsefni sín úr þremur
áttum. Með sálfræðilegu raunsæi sem
kenna má við hefðbundna vestræna
leikhúsaðferð nútímans, með spuna
og sameiginlegri leit með leikurunum
og með agaðri nákvæmni í endanlegri
mótun látbragðs og sviðshreyfinga.
Þetta finnst mér skynsamleg leið. Svo
skynsamleg að það liggur við að hún
sé ekki í frásögur færandi, nema mun
ítarlegar væri farið í aðferðafræðina.
vinnustaðar-
heimsókn
Eftir Þorgeir Tryggvason
Sveinn Einarsson. Af sjónarhóli
leikstjóra. Ritstjóri: Trausti Ólafsson.
Bókmenntafræðistofnun Háskóla
Íslands. 2012.
F