Spássían - 2013, Blaðsíða 56
56
inn af gestum Bókmenntahátíðar í haust var breski
rithöfundurinn Rachel Joyce. Áður en hún hóf að
skrifa skáldsögur samdi hún útvarpsleikrit fyrir
BBC og leikgerðir og þætti fyrir sjónvarp. Árið 2012 kom
fyrsta skáldsaga hennar út, Hin ótrúlega pílagrímsganga
Harolds Fry. Bókin sló í gegn og hefur verið þýdd á mörg
tungumál og hlotið mikið lof. Í ár kom önnur skáldsaga
hennar út, Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann.
Bækurnar tvær eru sjálfstæðar sögur og ólíkar um margt
en grunnþemu þeirra beggja eru uppgjör við fortíðina,
einmanaleiki, skortur á samskiptum og tjáningu og hversu
langvarandi áhrif atburðir geta haft á líf fólks.
Sögusvið fyrri bókarinnar er England nútímans.
Harold Fry er kominn á eftirlaun þegar hann fær bréf frá
fyrrverandi samstarfskonu sinni sem hann hefur ekki hitt
í tuttugu ár þar sem fram kemur að hún sé dauðvona. Eftir
samtal við afgreiðslustúlku á bensínstöð fyllist Harold
krafti og innblæstri og í stað þess að póstleggja svarbréf
leggur hann af stað í göngu yfir England endilangt í þeirri
von að hann geti bjargað samstarfskonu sinni.
Pílagrímsgangan verður þó fremur til að bjarga Harold
sjálfum Á leiðinni gerir hann upp við fortíð sína, fer yfir líf
sitt, þau tækifæri sem hann hefur misst af og allt það sem
hefur runnið honum úr greipum sökum hlédrægni hans,
sem og samskipti hans við foreldra, eiginkonu og son.
Uppbygging bókarinnar er einföld og er ferð Harolds
í forgrunni. Stöku sinnum er þó skotið inn köflum um
eiginkonu hans Maureen og líðan hennar og gerðir á
meðan hann er í göngunni. Fólk sem Harold hittir á
leiðinni segir honum gjarnan frá ævi sinni og vandamálum
og mynda þær frásagnir nokkurs konar samfélagsspegil.
Sagan líður vel áfram; það er auðvelt að hrífast af
sálarlífi Harolds og upplifun hans af göngunni og því
hvernig hann nær að sættast við sjálfan sig og líf sitt.
Í Árinu sem tvær sekúndur bættust við tímann eru tvær
sögur fléttaðar saman, sögur Byrons og Jims, sem gerast
á sömu slóðum með fjörutíu ára millibili og snúast um
sömu atburðina, önnur um aðdraganda þeirra og hin um
afleiðingarnar.
Sumarið 1972 er Byron ellefu ára gamall, gengur í
einkaskóla og á yfirborðinu er fjölskylda hans skipulögð og
fullkomin. Þegar James, besti vinur Byrons, segir honum
frá að til standi að bæta tveimur sekúndum við tímann
verður Byron heltekinn af tilhugsuninni um þær og hversu
afdrifaríkir atburðir geti orðið á tveimur sekúndum. Þegar
óhapp verður kennir Byron sekúndunum tveimur um það
og eftirmála þess: „Allt gerðist þetta út af örlitlu hiksti
tímans, öll sagan. Áhrif þess endurómuðu í gegnum árin.“
(9) Eftir því sem á líður söguna fer lesandinn að efast um
að þetta litla hikst tímans hafi haft úrslitaáhrif, heldur
hefðu brestir fjölskyldunnar komið í ljós fyrr eða síðar og
svipaðir atburðir orðið.
Sagan er sögð út frá sjónarhorni Byrons sem skilur ekki
allt sem gerist og mistúlkar sumt, svo að lesandinn verður
að lesa á milli línanna. Ásamt James reynir hann að vernda
móður sína fyrir afleiðingum óhappsins en tilraunir þeirra
hafa öfug áhrif.
Hinn rúmlega fimmtugi Jim er í forgrunni í hinni
sögunni sem gerist í nútímanum, um vetur. Hann hefur
eytt stærstum hluta fullorðinsára sinna á geðsjúkrahúsi
og alltaf endað þar aftur því hann kann ekki að fást
við raunveruleikann. Hann vinnur við að þrífa borð
á veitingastað í verslunarmiðstöð og hefur sínar eigin
aðferðir til að halda hugarró og koma í veg fyrir hugsanleg
óhöpp. Saga Jims minnir að mörgu leyti á sögu Harolds
Fry. Líkt og Harold er Jim fjarlægur umhverfi sínu í
upphafi, en á meðan á sögunni stendur kynnist hann
fólki og finnur að lokum ró. Hann á eftir að gera upp
við skelfilegan atburð í fortíðinni og forðast að hugsa
um hann, en þokast sífellt nær því að sættast við sjálfan
sig. Líkt og í sögu Harolds er flakkað á milli fortíðar og
nútíðar, en saga Byrons er öll í núinu.
Sá hluti bókarinnar sem fjallar um Byron og sumarið
1972 er mjög sterkur og saga Jims í nútímanum stendur
í skugga hennar og er að mestu ofaukið. Inn í sögu
Byrons fléttast nefnilega svo mörg athyglisverð þemu,
sem tengjast annars vegar Byroni sjálfum; tap á sakleysi
bernskunnar og hjálparleysið þegar skilin á milli foreldra
og barna mást út. Hins vegar er myndin sem máluð er
upp af samfélagi á tímamótum. Mikið er gert úr stétt
og stöðu og þeirri togstreitu sem fylgir slíkri skiptingu,
hvernig framtíð drengjanna Byrons og James er ákveðin
frá fæðingu; þeir eiga að feta í fótspor feðra sinna. Mæður
drengjanna í einkaskólanum mynda svo einn hóp og
andstæðan er fólkið í félagslegu íbúðunum á Digby-vegi.
Andstæðurnar birtast ítrekað í Díönu, móður Byrons, og
Beverley, konunni sem hún kynnist eftir óhappið, en því
meiri tíma sem þær eyða saman því meira renna þær saman.
Kvenréttindi og fordómar vegna kynþátta og geðsjúkdóma
eru líka umfjöllunarefni, sem og kúgun og meðvirkni og
það að standast ekki kröfur samfélagsins
Bækurnar eru vel skrifaðar og þýddar og frágangur
allur til fyrirmyndar. Joyce hefur mjög þægilegan stíl, hún
stafar hlutina ekki ofan í lesendur en samt vantar ekkert
í sögurnar. Það má hiklaust mæla með þessum tveimur
bókum, þær velta upp áleitnum spurningum um stétt og
stöðu, fullkomleika, mikilvægi samskipta og það að sættast
við sjálfan sig og fortíðina.
Eftir Kolfinnu Jónatansdóttur
Rachel Joyce. Hin ótrúlega pílagrímsganga
Harolds Fry og Árið sem tvær sekúndur
bættust við tímann. Þýðandi: Ingunn
Snædal. Bjartur. 2012 og 2013.
pílagrímurinn og
sekúndurnar tvær
E