Spássían - 2013, Síða 38

Spássían - 2013, Síða 38
38 „ að færa langanir sínar í orð. Ýmislegt fleira breytist, hún fer að bjóða andstyggilegri samstarfskonu byrginn, kaupir sér falleg föt og fer að stunda líkamsrækt. Þegar hún svo tælir að eigin frumkvæði glæsilegan ungan mann á skíðaferðalagi í Kanada hrósar umsjónarkona hennar hjá L.E.Y.N.D. henni sérstaklega fyrir dugnaðinn: „Þú, væna mín, hefur blómstrað“ (196). Hámarki nær sagan þegar Cassie fær að velja úr fyrri fantasíufolum sínum á mikilli hátíð en velur svo að lokum hinn eina, sanna draumaprins: Hinn ljúfa og góða Will, yfirmann sinn og eiganda kaffihússins. Svona gæti sagan endað en þá væri búið að skrúfa fyrir möguleikann á framhaldi og Cassie er neydd til að yfirgefa Will og velur í staðinn L.E.Y.N.D., framtíð með fantasíufélaginu frekar en raunheimafola. Í framhaldinu, sem ekki hefur verið þýtt á íslensku og ber titilinn S.E.C.R.E.T. shared er Cassie komin í hlutverk leiðbeinanda og skjólstæðingur hennar er ung kona, Dauphine Mason, sem hefur ekki hugmynd um hversu heillandi hún raunverulega er. ÍSLENSK OG ERÓTÍSK SKÁLDSAGA Það er ekki nóg með að vinsælustu útlendu erótísku skáldsögurnar séu þýddar á íslensku heldur eru einnig samdar innlendar bækur. Karl Fransson er dulnefni höfundar bókarinnar Elskhuginn sem, öfugt við bækurnar sem þegar hefur verið fjallað um, segir frá karlkyns aðalsöguhetju; þrítuga, fráskilda föðurnum og arkitektarnemanum Patrice sem er íslenskur í aðra ættina en franskur í hina. Patrice stundar námið af kappi en það er dýrt að lifa og læra í París og þess vegna vinnur hann sem vikapiltur á lúxushóteli í borginni samhliða námi. Patrice vekur athygli hótelgesta, bæði karla og kvenna, enda er hann glæsilegur ungur maður og veit vel af því: Ég naut athyglinnar sem ég fékk öðru hverju frá feimnislausum hótelgestum. Sumar konur hvísluðu og litu mig girndaraugum, einkum þegar þær voru við skál og birtust seint á kvöldin. Engin furða því fjölmargar þessara ungu, glæsilegu kvenna voru í fylgd fullorðinna auðjöfra sem virtust fáum öðrum kostum gæddir við fyrstu sýn en að baða sig í peningum, sviðsljósinu, lyfta glösum og slá golfbolta. Einstaka karlmaður gjóaði augum á eftir mér. Ég kunni því vel, gat lesið hugsanir sumra (Elskhuginn, 13). Og það er við svona aðstæður, í „slim fit“ skyrtu, þröngum buxum „þannig að kúlurassinn var áberandi“ (12) og í gljábónuðum skóm sem Patrice hittir dömu sinna drauma í fyrsta sinn, Mirabelle - heillandi eiginkonu eldri demantakaupmanns. Demantakaupmaðurinn svíkur hana um stefnumót og Mirabelle heimtar að Patrice komi með sér í hans stað. Í rökkvuðu horni þriggja Michelin-stjörnu veitingastaðarins láta Mirabelle og Patrice vel hvort að öðru og seinna um kvöldið klifrar hann upp veggi hótelsins og inn um svaladyrnar og nuddar nakinn líkama hennar þar sem hún bíður eftir honum í 300 fermetra svítunni. Patrice er hugfanginn og „[l]öngunin til að ríða Mirabelle hafði yfirtekið heilasellurnar“ en hann gerir ráð fyrir að það ástand vari uns hann komist yfir hana (60). Áður en sögu lýkur hafa þau leikið sér með hindber og kampavín og má fullyrða að báðir aðilar stíga frá borði mettir og fullnægðir.

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.