Spássían - 2013, Side 58

Spássían - 2013, Side 58
58 visögulegar bækur Eddu Andrésdóttur eru fjórar talsins og allar fjalla þær á einn eða annan hátt um lífið sem var - veröld sem var. Fyrsta bók hennar, Á Gljúfrasteini (1984), er viðtalsbók við Auði Laxness. Næst kom samtalsbókin Auður Eir - Sólin kemur alltaf upp á ný (2005) og svo bókin Í öðru landi (2007) sem fjallar um baráttu föður Eddu við Alzheimer- sjúkdóminn. Nú beinir Edda hins vegar sjónum að æskustöðvum sínum og æskuminningum, Heimaeyjargosinu, ásamt einum fyrstu - og eftirminnilegustu - skrefum sínum sem blaðamaður. Bókin heitir Til Eyja og fjallar um sautján sumur í Eyjum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og ferð hennar til Eyja í upphafi gossins 1973. Þar fylgdist hún með hrauninu gleypa æskuslóðir sínar og flutti landsmönnum fréttir af öllu saman.  Til Eyja er lítil og lágstemmd bók, skemmtilega skrifuð í nostalgískum stíl sem gjarnan einkennir bækur sem fjalla um barnæskuna. Edda bjó ekki í Eyjum sem barn, foreldrar hennar höfðu flutt þaðan og ung gert sér heimili í Reykjavík, en hún fór þangað öll sumur og dvaldi hjá ömmu sinni á Kirkjubæ. Á Kirkjubæ, sem var austast á Heimaey, voru sex íbúðarhús og tilheyrandi fjölskyldur. Þetta var einn af sögufrægari stöðum í Vestmannaeyjum en þarna hafði verið kirkjustaður frá þrettándu öld og prestsetur fram á þá nítjándu. Þetta var líka staðurinn „þar sem sumir sögðu að eyjan væri fallegust og segja enn með dálitlum trega“ (10). Húsin í Kirkjubæ voru næst gosinu þar sem jörðin rifnaði eða í um 200 metra fjarlægð og voru fljót að hverfa undir hraun, eld og ösku. Edda lýsir hverju húsi, íbúum þess og þeim anda sem sveif yfir Kirkjubæ, með greinilegri væntumþykju og söknuði: Allt var umlukið himni og sjó og sjávarlofti á Kirkjubæ. Stundum varð svo fagurblátt og heiðríkt þarna austast á eyjunni að það hefði mátt halda að almættið væri ekki víðs fjarri; að það hefði tyllt sér um stund á hvítt og baðmullarkennt ský. Enda gæti það hafa verið nær fólki í þá daga en oft á seinni og meiri efasemdartímum. Svo ekki sé talað um ömmu sem sótti til þess styrk handa sér og sínum í stórsjóum lífsins (12). Höfundur segir líka frá gleði, leikjum og hlátri meðal stallsystra sinna og ættingja; drullumalli, búðarleikjum í hálfköruðu súðarherbergi, öllum sem komu í heimsókn, lundapysjum, sjónvarpsleysi og svo sjónvarpsáhorfi. Svo tekur alvara lífsins við, æskunni lýkur, brauðstritið hefst og Edda er orðin blaðamaður á dagblaðinu Vísi og hætt að fara til Eyja á sumrin.  Edda hafði ekki titlað sig blaðamann lengi, varla meira en eitt ár, þegar hún var ræst út gosnóttina 1973 og flaug til Eyja ásamt ljósmyndaranum Braga Guðmundssyni til að flytja fréttir um gosið í Eyjum. Þarna var hún í heila viku, skrifaði niður fréttir og las þær svo upp í gegnum landsímann. Edda segir bæði frá persónulegri upplifun sinni af gosinu og hvernig hún upplifði það sem blaðamaður. Inn í þetta fléttast frásagnir af því hvernig vinir og ættingjar tóku fréttunum og hvernig þeir brugðust við. Og frá þessu tekst Eddu oftast að segja án þess að verða of væmin - sem hefði eflaust verið mjög auðvelt. Lýsingarnar eru þó margar ansi magnaðar, eins og þegar Edda situr í flugvél á leiðinni til Eyja, undarlega róleg og horfir á andstæðurnar sem blasa við henni á jörðu niðri: Jafnvel sprungan ein var full af andstæðum. Hún átti ekki heima þarna. Það var eitthvað mjög ögrandi við þetta afl sem hafði skyndilega rutt sér leið upp á yfirborðið, eins og Heimaey hefði verið höggin eða skorin og blæddi eldi og brennisteini. Um leið var eitthvað rólyndislegt og næstum eðlilegt við þetta, líkt og sprungan væri straumhörð á eða foss. Það gæti hafa stafað af fjarlægðinni; við vorum enn fyrir ofan, drunurnar náðu ekki til okkar, við höfðum einungis vélargnýinn í eyrum eða rabb okkar sjálfra eða þögnina innra með okkur. Þess utan var eins og eitthvað í sálinni færi strax að reyna að sætta sig við það sem orðið var og halda því fram að allt yrði í lagi (66). Bernskunni, dvöl Eddu við blaðamennsku í Eyjum og nútímanum er fléttað saman og tekst oftast vel til þótt stundum sé óljóst um hvaða tíma sé talað hverju sinni. Það er fengur að Til Eyja fyrir alla þá sem þekkja til Eyja - svo ekki sé talað um þá sem muna sjálft gosið. Þetta er saga um tímann fyrir gos, meðan á gosi stóð og hvað gerðist á eftir. Bókin togar eflaust ekki jafn fast í þá sem ýmist muna ekki eftir Heimaeyjargosinu, voru ekki fæddir þegar það átti sér stað eða þekkja ekkert til Vestmannaeyja. Til Eyja mun þó áreiðanlega glæða áhuga þessa fólks á Vestmannaeyjum - bæði sögu eyjanna og sjálfum eyjunum eins og þær eru í dag. Eftir Helgu Birgisdóttur Edda Andrésdóttir. Til Eyja. JPV. 2013. veröld sem var, en er þess verð að segja frá Æ

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.