Spássían - 2013, Side 70
70
yfirlesið
að vísu nokkuð þung fyrir börn, en fengur hverjum
greindum unglingi.“
„Að vísu nokkuð þung fyrir börn,“ er nokkuð
viðeigandi lýsing. Söguþráður bókarinnar er nokkuð
langur og flókinn og persónurnar margar og skortir
sálfræðilega dýpt. Sem táknsaga er sagan líka heldur
flókin fyrir börn og fullorðnir lesendur geta einnig átt
erfitt með að átta sig á merkingu hennar. Af þessum
sökum má ætla að sagan höfði illa eða jafnvel alls ekki
til barna, þótt vitanlega sé ómögulegt að fullyrða um
smekk einstakra lesenda, á hvaða aldri sem þeir eru.
Einnig má nefna að myndirnar sem skreyta bókina – og
sérstaklega er minnst á í auglýsingum frá útgefanda –
eru dimmar og óræðar og ekki líklegar til að laða að sér
mjög unga lesendur.
MISHEPPNUÐ MARKAÐSSETNING?
Meginniðurstaða þessarar umfjöllunar er því þessi:
Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur
var rangflokkuð frá fyrsta degi. Hún er ekki barnabók
heldur fullorðinsbók – þó vissulega í nokkuð
óhefðbundnum búningi því frumsamin ævintýri
fyrir fullorðna eru ekki á hverju strái. Vissulega má
deila um gæði bókarinnar; táknsögur með pólitískum
skilaboðum höfða ekki til allra og flókinn söguþráður
og staðlaðar, tákngerðar persónur geta flækst fyrir
fullorðnum jafnt sem börnum. Hvaða ástæður liggja
að baki vali á frásagnaraðferð og formi verður að liggja
á milli hluta en ljóst er að í sögunni beinir skáldkonan
orðum sínum og ádeilu til íslenskra lesenda en ekki
barna sérstaklega.
Dætur Jakobínu, Sigrún Huld og Sigríður Kristín
Þorgrímsdætur, minnast á þessa undarlegu flokkun í
minningargrein um móður sína í Morgunblaðinu 29.
janúar 1995: „Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði
Kotungsdóttur [...] var að formi til ævintýri og er oft
flokkuð sem barnabók. Það er þó fjarri lagi, því hér er
ádeila á ferð, framhald baráttuljóða hennar gegn her í
landi, en ekki nein barnagæla“ (30). Sigrún hefur auk
þess tjáð undirritaðri að Jakobína hafi alla tíð verið örg
yfir þessari flokkun en þó líka getað hlegið að henni.
Ábyrgðin á þessari rangflokkun hlýtur því að liggja
hjá útgefandanum, Heimskringlu. Vissulega er löng
hefð fyrir því að flokka ævintýri sem barnaefni, og því
verður ekki neitað að bæði form og inntak bókarinnar er
óvenjulegt, en þó er ekki annað hægt en að velta fyrir sér
hvort ekki hefði mátt markaðssetja hana á annan hátt.
Kannski hefðu örlög sögunnar af Snæbjörtu og Ketilríði
orðið önnur ef hún hefði fengið að sitja annars staðar en
í barnabókahillunni.
Sagan af Snæbjörtu
Eldsdóttur og Ketilríði
Kotungsdóttur var
rangflokkuð frá
fyrsta degi. Hún er
ekki barnabók heldur
fullorðinsbók.
„
Auglýsing í Speglinum,1959.