Spássían - 2013, Qupperneq 72
72
Síðari kaflarnir einkennast líka
af því að þar fá sýningarnar sem til
umfjöllunar eru meira vægi á kostnað
samhengis þeirra í leiklistarsögunni.
Eðlilega. Þar eru líka meiri þreifingar
í formi og framsetningu. Til dæmis
gefur Sveinn öðrum orðið að stórum
hluta í greinunum um Fedru og Pétur
Gaut, tveimur „leikmönnum“ sem
honum þykja hafa skrifað gagnlega
um sýningarnar. Innlegg þeirra
Colette Fayard og Guðmundar G.
Þórarinssonar eru mjög áhugaverð
og spurning hvort „umfjallarar“
hefðu átt að fá oftar að leggja orð
í belg til lofs og lasts, og þá með
viðbrögðum bókarhöfundar við því
sem ritað var.
Lokagreinin, um uppfærslu
Íslensku óperunnar á Cavalleria
Rusticana og I Pagliacci frá 2008, er
síðan í dagbókarformi sem virkar
vel í bland við hinar meira greinandi
greinar fyrri hlutans.
Kaflinn sem helst vantar er að
mínu mati sá sem helgaður væri
Bandamannasögu (Bandamenn
1992), með framhaldsvinnu
og vinnubrögð leikhópsins
Bandamanna sem aukaefni. Þar
tekur leikstjórnarferill Sveins
skýrustu beygjuna og skrítið að gera
henni ekki betri skil. Vinnubrögðum
og verkefnum hópsins eru gerð skil í
kafla um Hamlet sem ætti að teljast
nægt viðfangsefni út af fyrir sig.
Eins vekur athygli hvað verkefni
frá Þjóðleikhússtjóratíð Sveins vega
létt í bókinni. Ekkert þeirra fær að
bera uppi kafla þó á mörg þeirra sé
minnst. Þar hefði kafli um Í öruggri
borg (Þjóðleikhúsið 1980) eftir Jökul
Jakobsson, með umfjöllun um þeirra
samstarf sem hófst með Sjóleiðinni
til Bagdad (1965), þriðja leikriti
Jökuls og fyrsta leikstjórnarverkefni
Sveins, verið aldeilis ómetanlegur.
Allt um það, þá er þetta stórfín
bók. Sveinn er vel ritfær og
yfirsýn hans yfir íslenskt leikhúslíf
undanfarinna sextíu ára eða svo
er næsta einstakt, fyrir utan að
hann er vitaskuld sérfræðingur í
sjálfum sér eins og allir hugsandi
menn. Vonandi er bók þessi í
alvöru upphaf á ritröð um verk og
vinnubrögð okkar fremstu leikstjóra.
Ég treysti því að Trausti Ólafsson
ritstjóri sé nú þegar búinn að hafa
samband við Kjartan Ragnarsson,
Stefán Baldursson og Þórhildi
Þorleifsdóttur og skipa þeim að ydda
blýanta sína.
Guðjón Ó