Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 4

Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 4
4 Bókasafnið Ágrip Farið er yfir heimildanotkun í meistaraprófsverkefnum frá árinu 2015 í þeim tilgangi að greina hvers konar heimildir nemendur nota í lokaverkefnum, hvað er mest notað og hvaðan heimildir eru fengnar, ásamt bókasafnsnotkun síð- ustu tvö námsárin. Niðurstöður sýna að heimildanotkun er mismunandi milli faggreina og að bækur eru mest notuðu heimildirnar á undan tímaritsgreinum. Inngangur Heimildaleit og úrvinnsla heimilda er mikilvægur þáttur í háskólanámi og lokaverkefni viss prófsteinn á hvernig til hefur tekist. Í heimildaskrám má greina hvers konar heim- ilda hefur verið aflað, hvort verið er að nota gæðaefni eða ekki, sérkenni tiltekinna notendahópa, og síðast en ekki síst, hvort verið er að að nýta safnkost háskólabókasafna. Þá geta heimildaskrár gefið vísbendingu um hvort viðmiðum um æðri menntun og prófgráður hefur verið náð, en samkvæmt þeim er meðal annars gert ráð fyrir að við lok háskólanáms þekki nemandi undirstöðuatriði leitar- og upplýsingatækni, hafi færni til að finna upplýsingar, meta áreiðanleika þeirra og nýta á viðeigandi hátt (Auglýsing um útgáfu viðmiða um æðri menntun og prófgráður nr. 530/2011). Frá sjónarhóli háskólabókasafna er sér í lagi áhugavert að skoða hvaða og hvers konar heimildir nemendur nota og hvaðan þær eru fengnar. Nota nemendur efni sem er að- gengilegt í gegnum bókasöfn eða treysta þeir á að Google fullnægi upplýsingaþörf þeirra og eru þeir meðvitaðir um þann gæðamun sem kann að vera á efni á vefnum? Sumir telja að fyrirhafnarlítið aðgengi geti freistað margra og orðið til þess að aðgengi fremur en gæði sé látið stjórna vali á heimildum. Rannsóknir gefi til kynna að nemendur fari lítið út fyrir þægindarammann og sæki fremur í heimildir sem auðvelt er að nálgast (Sexton, 2006; Sylvia, 1998; Sylvia og Lesher, 1995). Hvers konar heimildir nemendur nota og hvort þeir hafi tamið sér fagleg vinnubrögð við heimildaöfl- un og val á upplýsingum er því verðugt athugunarefni. Til hliðsjónar Heimildarannsóknir hafa verið stundaðar allt frá því að Gross og Gross mátu mikilvægi tímarita út frá heimildalistum tímaritsgreina á þriðja áratug síðustu aldar (Gross og Gross, 1927; Waugh og Ruppel, 2004). Samkvæmt athugun Hoffmanns og Doucettes (2012) á yfir 34 heimildarannsóknum í Bandaríkjunum og víðar á árunum 2005 til 2010, snúast margar þeirra um heimildanotkun háskólanema. Skoðaður er þá fjöldi heimilda, gæði heimildaskráningar og stundum breytingar á heimildanotkun yfir ákveðin tímabil. Greindar eru tegundir heimilda, aldur þeirra og hversu oft vísað er í ákveðin tímarit, og stundum hvort efnið er aðgengilegt á viðkomandi háskólabókasafni. Kristín Indriðadóttir og Þórhildur S. Sigurðardóttir (2004) skoðuðu heimildanotkun í lokaverkefnum nemenda Kennaraháskóla Íslands á árunum 2002 og 2003 í þeim tilgangi að kanna hvers konar heimildir nemendur notuðu og hvernig aðgengi að þeim heimildum væri háttað. Hvatinn að rannsókninni var einkum áhugi höfunda á því að fylgjast með í hve miklum mæli nemendur Kennaraháskólans notuðu rafrænar heimildir en samningur um landsaðgang að erlendum gagnasöfnum var þá tiltölulega nýr af nálinni. Þegar sjónum er beint að erlendum heimildarannsóknum á sviði menntavísinda, eru einkum athuganir á aldri og hlutfallslegri notkun tímaritsgreina og bóka algengar (Feyereisen og Spoiden, 2009; Griffin, 2016; Laurel Haycock, 2004; Waugh og Ruppel, 2004; Weber og Allen, 2014). Niðurstöður gefa til kynna að doktorsnemar og fræðimenn vitni yfirleitt meira í tímaritsgreinar en nemendur sem styttra eru komnir og noti yngri heimildir, jafnframt að ákveðnir tímaritatitlar séu vinsælli en aðrir. Þegar heimildanotkun er borin saman eftir tímabilum kemur í ljós að tímaritanotkun hefur aukist (Condic, 2015; Conkling, Harwell, McCallips, Nyana og Osif, 2010; Smith, 2003) samhliða aukinni rafrænni útgáfu. Samanburður á mismunandi fræðasviðum eins og félags-, hug- og raunvísindum hefur leitt í ljós að tímaritanotkun er mest í raunvísindum og minnst í hugvísindum (Currie og Monroe-Gulick, 2013; Kayongo og Helm, 2012). Félagsvísindin koma þar á milli. Þegar Edvards og Jones (2014) báru saman heimildanotkun í doktorsverkefnum í menntunarfræðum, sálfræði og félagsfræði (e. social welfare) við Kaliforníuháskóla (Berkley), kom í ljós að menntunarfræðin var sú grein sem notaði bækur mest þeirra, eða í 47% tilvika á meðan 46% heimilda voru tímaritsgreinar og meðalaldur heimilda var 11 ár. Hvernig – hvaða – hvaðan? Heimildanotkun í meistaraprófsritgerðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2015 Gunnhildur Björnsdóttir Forstöðumaður bókasafns Menntavísindasviðs.

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.