Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 33

Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 33
Bókasafnið 43. árg – 2019-2020 33 Sá ánægjulegi viðburður að veita Hvatningarverðlaun Upplýsingar varð að veruleika á Bókasafnsdaginn 9. september síðastliðinn, sem var jafnframt dagur læsis. Þessi sérstöku verðlaun Upplýsingar voru veitt í fyrsta sinn í Morgunkorni þann dag, en það var haldið í Menntaskólanum í Kópavogi. Verðlaunin eru veitt félagsmönnum í starfi fyrir einstök verkefni sem þeir hafa unnið að og sem stuðlað geta að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi á starfsstað. Framkvæmd verðlaunanna miðast við að veita ein verðlaun til einstaklings en einnig er hægt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir samstarfsverkefni. Auglýsa skal eftir tilnefningum til verðlaunanna ár hvert og skulu þær berast á sérstöku eyðublaði inn á vef Bókasafnsdagsins. Almenningur og starfsmenn safna geta tilnefnt verkefni til verðlaunanna. Markmið verðlaunanna eru að: - veita bóksöfnum jákvæða hvatningu í starfi - vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer á vegum bókasafna - stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi Einnig voru teknar saman vinnureglur fyrir dómnefndina, en í henni eiga sæti þrír fulltrúar: einn úr stjórn Upplýsingar, einn frá Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna og einn úr undirbúningshópi Bókasafnsdagsins. Vinnureglurnar skiptast í þrennt: Við val á verðlaunahafa skal skoða hvernig verkefnið fellur að markmiðum verðlaunanna. Um sé að ræða nýbreytni- og/eða þróunarverkefni sem ekki telst hluti af daglegu starfi viðkomandi starfsstaðar. Verkefnið sé hvatning til eftirbreytni og góðra verka bæði innan viðkomandi starfsstaðar og utan. Það er skemmst frá því að segja að undirtektir voru góðar. Alls bárust sex tilnefningar um verkefni og því var dómnefndinni vandi á höndum. Eftir skipulega yfirferð yfir verkefnin út frá markmiðum og vinnureglum varð að lokum ein tilnefning hlutskörpust. Það var verkefnið Saumað fyrir umhverfið, sem Bókasafn Reykjanesbæjar stóð fyrir. Safnið gekkst fyrir því að láta sauma á safninu fjölnota poka undir bækur og draga þannig alveg úr notkun plastpoka. Í tilnefningunni kemur fram að verkefnið sé hugsað sem umhverfisátak til að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plasts og til að draga úr notkun þess. Verkefnið tókst með miklum ágætum og náðist markmiðið: að sauma 1000 poka fyrir plastlausan september. Er verkefnisstjóranum, Guðnýju Kristínu Bjarnadóttur, og öðrum starfsmönnum Bókasafns Reykjanesbæjar, óskað til hamingju með að hljóta fyrstu Hvatningarverðlaun Upplýsingar. Dómnefndinni er að lokum þakkað störf sín, en í henni voru Þórunn Erla Sighvats (úr stjórn Upplýsingar), Margrét Sigurgeirsdóttir (frá Samtökum forstöðumanna almenningssafna) og Margrét Björnsdóttir (úr undirbúningshópi Bókasafnsdagsins). Fyrir hönd stjórnar Upplýsingar, Oddfríður Helgadóttir, formaður. Hvatningarverðlaun Upplýsingar – bækur hér, bækur þar, bækur alls staðar Oddfríður S. Helgadóttir Formaður Upplýsingar Frá vinstri, Barbara Guðnadóttir varaformaður Upplýsingar, Oddfríður S. Helgadóttir formaður Upplýsingar, Guðný Kristín Bjarnadóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur og umsjónarmaður verðlaunaverkefnisins, Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður bókasafns Reykjanesbæjar og Þórdís Ósk Helgadóttir, forstöðumaður Súlunnar, verkefnastofu, við verðlaunaafhendinguna í bókasafni Reykjanesbæjar.

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.