Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 25

Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 25
Bókasafnið 43. árg – 2019-2020 25 Valgerður Höskuldsdóttir fæddist í Reykjavík 5. maí 1935. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi eftir stutt veikindi 27. september 2018. Hún gekk í Miðbæjarskólann og fór svo í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi þaðan 1954. Þegar dæturnar voru að komast á legg hóf Valgerður nám við Háskóla Íslands og lauk BA námi í bókasafnsfræði og sálfræði árið 1975. Hún varð löggiltur bókasafnsfræðingur 1984. Síðar bætti hún við 30 eininga námi í þjóðfræði 1986. Árið 1959 giftist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Úlfari Helgasyni tannlækni, f. 2.4. 1930. Þau eignuðust þrjár dætur sem eru: Sigrún, f. 7.10. 1959, hún á soninn Atla Vassili Roman, f. 5.11. 2000, Þórdís, f. 27.4. 1961, maki hennar er Ragnar Hafstað og þau eiga soninn Völund, f. 6. 11. 1994, og Bergþóra, f. 16.12. 1967, maki hennar er Christian Bourdel, f. 1968, þau eiga soninn Viktor, f. 2.8. 2007, og þau eru búsett í Frakklandi. Eftir stúdentspróf vann hún hjá innflutningsfyrirtækinu Ellingsen. Hún vann sem bókasafnsfræðingur á Geðdeild Landsspítalans 1976-77 og hlutastarf á Geðdeild Barnaspítala Hringsins 1977- 84. Hún var stundakennari í sálfræði við Þroskaþjálfaskólann 1976-77. Hún vann á bókasafni Menntaskólans við Hamrahlíð frá árinu 1978 og var forstöðumaður bókasafnsins frá 1982 þar til hún lét af störfum 2001. Hún var virk í félagsstörfum er tengdust faginu og sat í stjórn Félags bókasafnsfræðinga 1977-79 og í stjórn Bókavarðafélags Íslends 1985-87. Valgerður var einstaklega fjölfróð kona. Hún las mikið og hafði sérstaklega mikinn áhuga á sagnfræði, þjóðfræði og sögulegum bókmenntum. Einnig hlustaði hún mikið á tónlist og sótti tónlistarviðburði hér heima og á ferðum sínum erlendis. Valgerður var einnig mjög handlagin og prjónaði mikið og saumaði út fjölda listaverka. Hún tók upp gömul mynstur á Þjóðminjasafninu og saumaði eftir þeim veggteppi, myndir og dúka af mikilli list. Hún sinnti ágætlega endurmenntun alla tíð og var fljót að tileinka sér nýjungar í starfi. Hún lærði fljótt á tölvur og tölvuvæddi bókasafn MH og skráði bækur bókasafnsins í bókasafnskerfi þegar þau komu til sögunnar. Einnig náði hún snemma góðum tökum á möguleikum internetsins og samskiptamiðla og nýtti sér það bæði í starfi og einkalífi. Undirrituð vann með Valgerði á bókasafni MH í nær 17 ár og áttum við gott og farsælt samstarf. Hún var með gott skopskyn og kom oft með skemmtileg tilsvör sem hittu í mark. Hún hafði gaman af því að umgangast ungt fólk og naut þess að hafa nemendur í kringum sig. Einnig fann maður þegar barnabörnin komu til sögunnar hvað þau skipuðu stóran sess í lífi hannar. Ég kveð Valgerði með virðingu og þakklæti og sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur. Útför hennar fór fram í kyrrþey. Minning Valgerður Höskuldsdóttir 5. maí 1935 - 27. september 2018 Ásdís Hafstað – Bókasafni Menntaskólans við Hamrahlíð.

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.