Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 3

Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 3
Bókasafnið 43. árg – 2019-2020 3 Með þessu nýja hefti Bókasafnsins lítur 43. árgangur loksins dagsins ljós. Ný ritnefnd stendur að blaðinu og varð til seint og um síðir, eftir nokkur áköll og tilraunir til að virkja fólk víða að. Fráfarandi ritnefnd lét öll af störfum eftir útgáfu síðasta blaðs og er nýja ritnefndin þess vegna skipuð fólki sem ekki hefur áður setið í nefndinni en með alls konar reynslu og koma úr fjölbreyttu starfsumhverfi. Síðbúnu blaði verður vonandi vel tekið á fordæmalausum tímum. Ný ritnefnd Bókasafnsins vill kynna fyrir lesendum sínum fjölbreytt markmið sem kalla mætti ritnefnarstefnu. Nefndin mótaði hugmyndir sínar um markmið útgáfunnar á fyrstu fundum sínum. Í fyrsta lagi það markmið að virkja greinaskrifara úr hverjum landsfjórðungi með styttri eða lengri greinum um það sem er að gerast í faginu í heimabyggð. Í öðru lagi stefnir ritnefndin að því að kalla eftir greinum frá þeim sem starfa á skólasöfnum, helst allra skólastiga og frá sérsöfnum stofnana og fyrirtækja, og í þriðja lagi að fá inn greinar um náms- og rannsóknarverkefni. Í fjórða lagi að birta greinar um kerfi og tækni upplýsingageirans og í fimmta lagi hvers konar fréttir af erlendum vettvangi. Flest af þessu er ef til vill ekkert nýnæmi, eins og það að fá inn greinar um erlenda viðburði, en félagsmenn Upplýsingar hafa oft skrifað ferðapistla og miðlað ferskum straumum að utan, frá ráðstefnum eða fundum sem þeir sóttu á erlendri grund. Nokkrir fastir þættir eiga sinn sess eins og minningarorð og fréttaskot en að þessu sinni falla afgreiðslutímar safna út af óviðráðanlegum ástæðum. Þessari upptalningu er fyrst og fremst ætlað að gefa mynd af þeim væntingum og stefnu sem ritnefndin vill hafa að viðmiði. Ekki er ætlunin að öllu þessu efni verði gerð skil í einu heldur er um að ræða stefnu sem gengur út frá því að gefa sem flestum röddum tækifæri til að miðla lesendum Bókasafnsins efni sem veitir innsýn í dagleg störf og helst frá öllum landshornum. Markmiðið er að halda glugganum opnum þannig að félagsmenn Upplýsingar finni að málgagn þeirra standi undir því að vera bæði fræðilegur og félagslegur miðill. Rétt er að minna á að félagsmenn Upplýsingar tengjast í störfum sínum bæði bókasöfnum og skjalasöfnum landsins, sumir jafnvel báðum. Síðast en ekki síst skal nefna auglýsendur, en þeir styrkja útgáfuna með kaupum á birtingu auglýsinga og kynninga, þeirra hlutur er mikils metinn. Vettvangur upplýsingafræðinga á Íslandi er víðfemur og þeim fátt óviðkomandi í nútíma samfélagi. Ritnefndin vill þess vegna hvetja alla sem vilja miðla efni til lesenda næsta blaðs, til að setjast nú strax niður og taka til við greinaskrif, hvort sem er á fræðilegum nótum eða úr daglega starfinu og hafa samband við ritnefndina fyrr en síðar. Efni þessa blaðs samanstendur af 14 greinum og pistlum. Í byrjun koma fjórar greinar um rannsóknir og fræðileg efnistök eins og um tölfræðilega rannsóknarúttekt á heimildanotkun afmarkaðs markhóps meistaranema við HÍ, grein um rannsókn á meðferð fyrirtækja á upplýsingum um mannauð, grein um rannsókn á viðhofi stjórnmálamanna til gagnaleka og virkni Persónuverndarlaga og grein um rannsókn á framtíðarhlutverki almenningsbókasafna. Fimm greinar koma að austan, norðan og vestan og markast af staðbundnu efni. Að austan er grein um nám fólks á Austurlandi (námsrannsókn), að norðan eru greinar um vinsælan alþjóðlegan leik (“Library Escape Room“), grein um spilin á borðið, frásögn um fjarverur (eins konar tölvutengda nærveru) og loks að vestan er grein um starfsemi í Safnahúsinu á Ísafirði. Ein minningargrein var send inn að þessu sinni. Að lokum eru fjórar greinar eða styttri pistlar. Fjallað er um kynningarátak Sarps (gagnagrunns minjasafna), umfjöllun um stefnumótun fyrir opið aðgengi að upplýsingum í íslensku vísindasamfélagi, grein um líflega fjölbreytni á nútíma almenningsbókasöfnum og loks pistill um Hvatningarverðlaun bókasafna sem Upplýsing, félag íslenskra upplýsingafræðinga stendur fyrir og veitti í fyrsta sinn á árinu. Ritnefndin þakkar öllum höfundum kærlega fyrir framlag þeirra og þolinmæði vegna þeirrar biðar sem varð á útgáfu blaðsins og uppsetjara og prentsmiðju er þakkað frábært samstarf. Frá ritnefnd – Ágæti lesandi!

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.