Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 17

Bókasafnið - mar. 2020, Blaðsíða 17
Bókasafnið 43. árg – 2019-2020 17 Aðstæður fólks eru mismunandi á svo margan hátt og fróðlegt að bera saman aðgengi að menntun eftir landshlutum. Þegar kemur að menntunarmöguleikum á háskólastigi hallar verulega á hluta landsbyggðarinnar hvað varðar aðgengi að námi. Á Austurlandi búa um 10 þúsund manns og þar er enginn háskóli. Fólk sem hyggur á háskólanám stendur frammi fyrir því að þurfa að flytja eða velja sér nám sem hægt er að taka í fjarnámi. En það námsframboð er takmarkað. Með aukinni tækni og almennri tölvunotkun hefur landslagið breyst mikið á skömmum tíma. Möguleikarnir aukast og aðgengi að menntun verður betra með hverju árinu. Ég tók allt mitt háskólanám í fjarnámi. Fyrst grunnskólakennarann frá árunum 2004 – 2008 og tíu árum seinna bætti ég við MIS gráðu í upplýsingafræði. Þannig að ég þekki vel umhverfi fjarnema eins og það er í dag. Oft verð ég vör við umræðu um nám á háskólastigi. Fólk ræðir saman um möguleika til náms, upplýsingamiðlun og hvar best sé að afla upplýsinga. Ég hef heyrt á tali fólks að mjög marga langar í nám en hafa ekki látið verða af því að byrja. Það var kveikjan að þessu viðfangsefni í lokaverkefni mínu í upplýsingafræði. Hvernig er upplýsingamiðlun háttað varðandi fjarnám og námsframboð á háskólastigi? Hvar og hvernig aflar fólk sér upplýsinga um það sem í boði er? Einnig vildi ég skoða nánar hvað veldur því að margir fresta því að byrja í námi, jafnvel árum saman. Það er ekki bara mikilvægt fyrir tilvonandi nemendur að fá góðar upplýsingar um skólann og námsframboð, heldur hlýtur að vera mikilvægt fyrir starfsfólk háskólanna að vita hver upplifun fólks er, þ.e. tilvonandi nemenda af upplýsingamiðlun þeirra. Hvaða upplýsingum er verið að leita eftir þegar verið er að skoða hvaða nám er í boði í fjarkennslu og hvernig framkvæmd þess er. Tekin voru eigindleg viðtöl við átta konur sem allar hafa hug á að hefja nám í náinni framtíð. Sex þeirra eru með grunnpróf á háskólastigi og ætla að fara í meistaranám, ýmist að byggja ofan á sína menntun eða söðla um og læra eitthvað nýtt. Hinar tvær ætla að hefja grunnnám en þær hafa báðar lokið inntökuskilyrðum í háskóla. Rannsóknarspurningarnar voru þessar: • Hvaða hvata upplifir fólk á Austurlandi til að bæta við sig háskólanámi og hvað veldur því að einstaklingar sem áhuga hafa draga að hefja það? • Hvernig aflar fólk sér upplýsinga um háskólanám og hvernig er hægt að koma betur til móts við það með upplýsingagjöf? Niðurstöður voru í stórum dráttum þessar: Margt gott er verið að gera, til dæmis hvað varðar fjarnám á háskólastigi, en bæta má upplýsingamiðlun varðandi námsframboð og framkvæmd náms samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar. Viðmælendur kalla eftir mannlega þættinum í þessu sambandi, það nær betur til fólks sem langar að hefja nám. Heimasíður með upplýsingum um námsframboð eru ágætar sem liður í upplýsingamiðlun en veita ekki nægjanlegar upplýsingar að þeirra mati. Margir nefndu kynningar og fundi svo hægt væri að spyrja nánar út í upplýsingarnar um nám og framkvæmd, til dæmis hvað varðar námslotur og kostnað. Allir viðmælendur voru sammála um að ekki væru nægar upplýsingar um staðlotur, hversu lengi þær væru og vildu fá að vita meira um vinnuálag í náminu. Þar sem fjarnemar eru oftar en ekki í vinnu og með heimili kölluðu viðmælendur eftir betri upplýsingum um staðlotur og betra skipulag á þeim. Þrátt fyrir miklar tækniframfarir á liðnum árum og lifandi stöðuga þróun, telja viðmælendur í þessari rannsókn að meira þurfi til að styðja við það fólk sem langar í háskólanám en er búsett fjarri skóla. Stuðningur er mikilvægur og betri upplýsingagjöf nauðsynleg. Borð, stóll, net og kaffi er ekki nóg fyrir alla. Ég sé marga spennandi rannsóknarmöguleika í framtíðinni hvað varðar bætt aðgengi að háskólanámi fyrir fólk sem býr fjarri háskóla. Má þar meðal annars nefna að í starfslýsingu fyrir háskólasetur, sem er í bígerð að koma upp á Austurlandi, stóð að vinna þurfi þarfagreiningu fyrir stofnanir og atvinnulífið og svo stuðla að bættu aðgengi að námi. Þarna eru sannarlega þættir sem fróðlegt yrði að rannsaka nánar í framtíðinni. Einnig má nefna að aðgengi að háskólanámi hefur aukist mikið með tækniframförum í gegnum árin. Fjórða iðnbyltingin er hugtak sem vísar til tækniframfara undanfarinna ára. Eitt af hugtökunum sem talað er um í því sambandi er internet hlutanna (e. Internet of Things) sem tengt er við hluti sem eru nettengdir og geta sent og safnað gögnum. Miklar breytingar sem byggja á stafrænum grunni hafa átt sér stað á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á þeim. Margt er tengt menntun og menntunarmöguleikum eins og nýtt tilraunaverkefni frá Háskólanum á Akureyri. Þar er verið að prufa nýja tækni. Þetta eru tölvur á hjólum, sem nefndar hafa verið fjarverur sem eru til staðar fyrir þá sem ekki eru á staðnum en vilja vera með í kennslustund. Fjarnemar og kennarar geta notað fjarveru til þess að „sitja“ í kennslustund og tekið þátt í starfi skólans þrátt fyrir að vera ekki á staðnum. Það er von mín að fleiri rannsóknir verði gerðar í framtíðinni um aðgengi að námi fyrir fólk af landsbyggðinni. Menntun er stór þáttur þegar kemur að eflingu byggðar og ég tel að þetta sé leiðin að sterkri búsetu á landsbyggðinni, að aðgengi að menntun sé gott, þar sem hennar er þörf. Nægir borð, stóll, net og kaffi? Guðrún Gunnarsdóttir Michelsen Stærðfræðikennari og bókasafns- og upplýsinga- fræðingur við Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar.

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.