Gerðir kirkjuþings - 2018, Blaðsíða 94
94 95
28. mál kirkjuþings 2018
Flutt af Annýju Ingimarsdóttur og Kolbrúnu Baldursdóttur
Starfsreglur um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni,
ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar
I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.
■Starfsreglur þessar gilda um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni
áreitni og ofbeldi innan þjóðkirkjunnar, sbr. með vísan til laga um jafna stöðu og
jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, með síðari breytingum, laga um aðbúnað,
hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, með síðari breytingum og reglugerðar
velferðarráðuneytisins, settri á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðgerðir gegn einelti,
kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
□Starfsreglur þessar gilda enn fremur um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar
vegna háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940,
með síðari breytingum, og í barnaverndarlögum nr. 80/2002, með síðari breytingum.
2. gr.
Orðskýringar.
■Í starfreglum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir, sbr. lög um jafna stöðu
og jafnan rétt kvenna og karla, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
og reglugerð velferðarráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 1. gr. starfsreglnanna:
a) Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá
þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna
viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna
ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
b) Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir
henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi,
einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi
eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
c) Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk
viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og
skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða
móðgandi fyrir viðkomandi.
d) Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns
skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða
handahófskennda sviptingu frelsis.
□Um merkingu annarra orðskýringa en tilgreindar eru í a-d liðum 1. mgr. fer, eftir því
sem við á, samkvæmt lögum og reglugerð, sbr. 1. mgr. 1. gr. starfsreglnanna.