Gerðir kirkjuþings - 2018, Blaðsíða 30
30 31
Erindisbréf
fyrir framkvæmdastjóra kirkjuráðs
Kirkjuráð er fjölskipað stjórnvald. Um starfsemi þess fer að lögum um stöðu, stjórn og
starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum. Kirkjuþing setur starfsreglur
um kirkjuráð. Samkvæmt þeim ræður kirkjuráð framkvæmdastjóra og setur honum erindisbréf
sem skal kynnt á kirkjuþingi. Framkvæmdastjóri framfylgir ákvörðunum ráðsins og hefur
umsjón og eftirlit með störfum og verkefnum á vegum þess skv. nánari fyrirmælum ráðsins.
Framkvæmdastjóri er næsti yfirmaður starfsmanna kirkjuráðs. Framkvæmdastjóri fer með
fyrirsvar ráðsins milli funda í samráði við forseta ráðsins. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á, og
hefur eftirlit með að stjórnsýsla kirkjuráðs sé í samræmi við lög og starfsreglur.
Framkvæmdastjóri annast samskipti kirkjuráðs við ráðuneyti, Alþingi, Ríkisendurskoðun, aðra
opinbera aðila og aðra þá sem hafa þarf samskipti við eða æskja samskipta við kirkjuráð, eftir
atvikum í samráði við lögfræðing kirkjuþings og skrifstofustjóra biskupsstofu. Hann veitir
upplýsingar um ráðið og tekur á móti erindum sem berast ráðinu. Hann undirbýr fundi ráðsins
og semur dagskrá þeirra í samráði við forseta ráðsins. Hann undirbýr jafnframt aðra fundi á
vegum kirkjuráðs eða með þátttöku ráðsins, situr slíka fundi og gerir kirkjuráði grein fyrir þeim.
Framkvæmdastjóri skipuleggur og undirbýr fundi fyrir samstarfsnefnd Alþingis og
þjóðkirkjunnar.
Framkvæmdastjóri situr í þeim nefndum, stjórnum og ráðum sem kirkjuráð ákveður og tekst
á hendur önnur tilfallandi verkefni eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs. Framkvæmdastjóri hefur
yfirumsjón með stjórnsýslu og rekstri fasteigna kirkjumálasjóðs samkvæmt starfsreglum og
stefnumótun kirkjuþings, ákvörðunum kirkjuráðs og samþykktri fjárhags- og framkvæmda-
áætlun.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á fjármálastjórn kirkjuráðs, þ.m.t. gerð og eftirfylgni
fjárhagsáætlunar fyrir sjóði og stofnanir sem heyra undir kirkjuráð í samvinnu við
fjármálastjóra biskupsstofu. Hann hefur umsjón með úthlutunum úr sjóðum sem heyra undir
kirkjuráð. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á og hefur eftirlit með því að ráðstöfun fjármuna sé
ætíð með þeim hætti að gætt sé hagkvæmni í hvívetna og standist allar kröfur sem
Ríkisendurskoðun gerir til meðferðar á opinberu fé. Hann gerir tillögur um hagræðingu í
rekstri, eftir því sem tilefni gefast til. Verkefni framkvæmdastjóra á sviði fjármála skal hann
vinna í samráði við fjármálastjóra biskupsstofu eftir því sem við á.
1. mál 2018 Fskj. A